Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1453  —  688. mál.

Síðari umræða.


Fram­haldsnefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019.



Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlaganefnd hefur haldið umfjöllun um málið áfram og fengið til fundar við sig Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Björn Þór Hermannsson, sérfræðing hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Frá því að tillagan var lögð fram hafa aðstæður í samfélaginu breyst þannig að talið hefur verið mikilvægt að ræða nánar forsendur hennar. Í því er einkum horft til áætlunar ríkisstjórnarinnar um að losa um höft og verkfalla háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins. Því hafa komið fram efasemdir um gildi þess að Alþingi bindi hendur framkvæmdarvaldsins þar sem í ljós hefur komið að veigamiklar forsendur áætlunarinnar hafi breyst.
    Meiri hlutinn bendir á að fjöldi góðra ábendinga hefur komið fram um tillöguna í umræðum um hana á Alþingi. Tillagan var ekki send út til umsagnar en meiri hlutinn telur að það hefði getað reynst til bóta við úrvinnslu málsins og verður það gert framvegis. Bent er á að gengið er út frá því að sú stefnumörkun sem felst í voráætluninni verði umgjörð um fjárlagafrumvarpið sem ekki verði vikið frá í neinum veigamiklum atriðum öðrum en þeim sem lúta að breyttum og endurskoðuðum forsendum, t.d. efnahagsforsendum, nýrri og betri upplýsingum fyrir áætlanagerðina og breyttri útfærslu sem rúmast innan heildarrammans. Því er að mati meiri hlutans ekki ástæða til breyta forsendum áætlunarinnar í þessu tilliti.
    Í stefnumiðum ríkisfjármálaáætlunarinnar eru dregin saman þau meginmarkmið sem ætluð eru til samtals við þingið og í umræðum á þinginu kemur fram hvort það styður þessi meginmarkmið. Í samþykktri tillögu felst vilji þingsins. Í meginmarkmiðunum felast áform ríkisstjórnarinnar. Í fjárlagagerðinni verður síðan skýrt nánar með hvaða hætti framkvæmdarvaldið hyggst ná markmiðunum. Að mati meiri hlutans missir umræðan marks ef allar upplýsingar eru lagðar fram í smáatriðum á þessu stigi málsins þar sem í þessum áfanga er horft á meginlínurnar. Meiri hlutinn er sammála þeim ábendingum sem komið hafa fram um að ýmsar forsendur og stór mál taka breytingum eftir að tillagan og ríkisfjármálaáætlun hafa verið lagðar fram. En það er eðli áætlanagerðarinnar að fást við síbreytilegt um­hverfi. Meiri hlutinn lítur svo á að þegar sambærileg tillaga hefur verið lögð fram að ári muni þingið fara gaumgæfilega yfir hvort og þá hvar vikið hafi verið frá meginmarkmiðunum sem nú eru lögð fram og í þeirri umræðu felist mikilvægt aðhald þingsins. Umræðan mun að mati meiri hlutans t.d. snúast um tekjugrunninn í heild en ekki hvaða tekjur eða skattstofnar skili tekjunum.
    Meiri hlutinn bendir á að strax í inngangi tillögunnar er bent á þá óvissu sem tengist höftunum og að laga þurfi áætlunina til samræmis við áhrif kjarasamninga. Það felst töluverð vinna í að meta áhrif væntanlegra kjarasamninga. Má í því sambandi benda á að hærri launatekjur skila ríkissjóði meiri tekjum en á móti koma hærri launagjöld og ýmis önnur áhrif sem nokkurn tíma tekur að meta. Meiri hlutinn telur að fjármála- og efnahagsráðuneytið sé ekki enn í stakk búið til að meta fyrrgreind áhrif inn í tillöguna áður en hún verður afgreidd á Alþingi en markmiðið sé að víkja ekki frá þeim stefnumiðum sem fram koma í ríkisfjármálaáætluninni. Að mati meiri hlutans munu umræður um næstu tillögu um ríkisfjármálaáætlun snúast um þessi meginatriði. Einnig bendir meiri hlutinn á að þegar ný lög um opinber fjármál taka gildi mun umræðan einnig snúast um þá áætlun sem ríkisstjórn leggur fram í upphafi kjörtímabils.
    Meiri hlutinn telur að það sé mikill styrkur fyrir fjármála- og efnahagsráðherra að hafa í höndum samþykkta ríkisfjármálaáætlun frá Alþingi. Hann hefur þá stefnumiðin samþykkt þegar umræðan við aðra ráðherra hefst í fjárlagagerðinni og í því felst meiri agi en áður hefur þekkst. Þá felst mikill agi í því að áætlunin hefur nú þegar verið samþykkt af ríkisstjórninni. Að sama skapi mundi það veikja fjárlagagerðina í fram­haldinu verði tillagan ekki samþykkt af Alþingi.
    Vigdís Hauksdóttir sem var fjarverandi ritar undir fram­haldsnefndarálit meiri hlutans samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 16. júní 2015.

Vigdís Hauksdóttir,
form., frsm.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Haraldur Benediktsson.
Valgerður Gunnarsdóttir. Anna María Elíasdóttir. Jóhanna María Sigmundsdóttir.