Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1459  —  737. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um lendingar flugvéla á Keflavíkurflugvelli og varaflugvöllum.


     1.      Hversu margar flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli á árunum 1995–2015, sundurliðað eftir árum?
    Umbeðnar upplýsingar koma fram í eftirfarandi töflu:

Flugtök og lendingar á Keflavíkurflugvelli 1995–2015.

Borgaralegt millilandaflug

Aðrar
hreyfingar

Samtals
allar hreyfingar

Ár
Áætlunarflug Leiguflug Almannaflug
1995 9.220 1.677 1.587 47.230 59.714
1996 10.410 1.471 1.792 48.205 61.878
1997 11.704 991 2.438 61.083 76.216
1998 13.822 1.574 2.082 74.871 92.349
1999 14.946 1.571 2.160 65.339 84.016
2000 15.871 1.740 2.295 54.653 74.559
2001 14.529 1.824 2.367 48.386 67.106
2002 12.730 1.546 1.928 46.554 62.758
2003 13.821 1.566 2.184 39.095 56.666
2004 16.190 1.532 2.617 39.876 60.215
2005 17.111 1.493 2.921 39.921 61.446
2006 18.963 1.696 3.895 36.522 61.076
2007 20.346 1.540 4.466 23.000 49.352
2008 18.643 1.579 3.925 18.869 43.016
2009 15.245 1.216 3.105 25.157 44.723
2010 16.406 1.380 3.030 31.601 52.417
2011 19.045 1.585 3.230 30.385 54.245
2012 20.930 1.327 3.418 32.198 57.873
2013 23.749 1.287 3.731 32.365 61.132
2014 28.147 1.168 3.537 38.078 70.930
2015 7.572 387 936 10.710 19.605

    Tölur fyrir árið 2015 eiga við um fyrstu fjóra mánuði þess. Hugtakið hreyfing er notað fyrir bæði lendingar og flugtök. Þannig er lending ein hreyfing og flugtak önnur hreyfing. Því telst flugtak og lending vélar tvær hreyfingar. Taflan sýnir fjölda hreyfinga. Vegna orðalags í 2. tölul. fyrirspurnarinnar er taflan miðuð við alþjóðlegt borgaralegt flug og sýna fyrstu þrír dálkar töflunnar það. Fyrstu tvö dálkaheitin skýra sig að mestu sjálf en þriðja dálkaheitið, Almannaflug, spannar annað borgaralegt flug til landsins en farþega- eða vöruflug og er þar í flestum tilfellum um flug einkaflugvéla að ræða. Undir yfirskriftinni Aðrar hreyfingar eru taldar snertilendingar, þ.e. æfinga- og kennsluflug bæði borgaralegra flugvéla og herflugvéla. Að öðru leyti er allt inn­an­lands­flug og allt ríkisflug, t.d. á vegum Landhelgisgæslunnar, sett í þennan dálk.

     2.      Hversu margar flugvélar sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli neyddust árlega á sama tímabili til að lenda á eftirtöldum varaflugvöllum:
                  a.      Reykjavíkurflugvelli,
                  b.      Akureyrarflugvelli,
                  c.      Egilsstaðaflugvelli?

    Þessar upplýsingar eru ekki kerfisbundið skráðar og því er tölfræði um þær ekki tiltæk. Árlega berast til Keflavíkurflugvallar meira en 25 þúsund flugáætlanir, þ.e. tilkynningar um fyrirhugaða lendingu. Flugáætlanir berast í rafrænum skeytum og taka til atriða eins og flugleiðar, gerðar vélar, fjölda farþega, komutíma, varaflugvallar ef á þarf að halda og fleiri þátta. Til viðbótar berst síðan nokkur fjöldi afboðana en meginreglan er að í þeim kemur ekki annað fram en að fallið hafi verið frá fyrirhugaðri lendingu. Aðrar upplýsingar eins og ástæður og hvert flogið verði í staðinn eru alla jafna ekki gefnar. Vélar geta hætt við lendingu á tilteknum flugvelli á öllum stigum flugs frá brottfararflugvelli til lendingar á öðrum áfangastað.
    Ákvörðun um breytingar á flugáætlunum og þar með lendingarstöðum er tekin af þeim sem rekur viðkomandi loftfar, flugstjóra eða báðum aðilum. Litlar líkur eru á að breytingar verði á þessu fyrirkomulagi þar sem það tíðkast nær undantekningarlaust í flugrekstri. Ástæður þess að ekki er lent á velli sem áður hafði verið gert ráð fyrir geta verið ýmsar, svo sem veður, en einnig við­skipta­legar ástæður.
    Til að gefa hugmynd um í hve miklum mæli flugvélar þurfa frá að hverfa samkvæmt forsendum fyrirspurnarinnar var haft samband við flugfélagið Icelandair. Félagið hefur gefið upp tölur um vélar/flug sem þurft hafa að leita annað eftir að undir­búningur aðflugs var hafinn. Það er ágæt nálgun við að meta hve oft flugvélar sem miðað var við að mundu lenda á Keflavíkurflugvelli hafa þurft frá að hverfa vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, oftast veðurs. Í eftirfarandi töflu fyrir árin 2005–2015 kemur fram hvar vélarnar hafa lent:

Tölur frá Icelandair um lendingar á varaflugvöllum 2005–2015.

Flugvöllur 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015
Reykjavík 0 0 1 2 1 3 1 0 0 0 2
Egilsstaðir 2 0 2 6 0 1 1 1 0 0 1
Akureyri 0 0 0 2 0 3 1 1 0 1 1
Alls 2 0 3 10 1 7 3 2 0 1 4

    Tölur fyrir árið 2015 eiga við um fyrstu fjóra mánuði þess. Rétt er að taka fram að árið 2010 olli eldgosið í Eyjafjallajökli erfiðleikum í flugi. Þá var veðurfar síðasta vetrar nokkuð óhagstætt fyrir flug. Sama má segja um árið 2008 en þá var veður nokkuð erfitt.