Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1469  —  755. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlæknakostnaðar
örorku- og ellilífeyrisþega.


     1.      Hvaða skilyrði gilda um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlæknakostnaðar örorku- og ellilífeyrisþega og hversu mikil er hún í einstökum tilvikum?
    Þar sem nær allur kostn­aður við tannlækningar örorku- og ellilífeyrirsþega fellur undir almennar tannlækningar miðar svarið við þann þátt tannlækninga. Utan almennra tannlækninga falla tannlækningar vegna afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma auk tannréttinga.
    Um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við almennar tannlækningar er fjallað í II. kafla reglugerðar nr. 451/2013, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 331/2014. Greiðsluþátttaka samkvæmt reglugerðinni er nánar ákveðin í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), nr. 305/2014, fyrir tannlækningar sem ekki hefur verið samið um samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (hér eftir kölluð gjaldskrá SÍ).
    Fyrir lífeyrisþega án tekjutryggingar er greiðsluþátttaka SÍ 50% af gjaldskrá SÍ, fyrir lífeyrisþega með 75% tekjutryggingu er greiðsluþátttaka SÍ 75% af gjaldskrá SÍ og 100% af gjaldskrá SÍ vegna langsjúkra.

     2.      Hversu mikil hefur greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tannlæknakostnaðar örorku- og ellilífeyrisþega verið í einstökum tilvikum frá árinu 2000? Svar óskast sundurliðað eftir árum og uppreiknað með tilliti til vísitölu neysluverðs.
    Í eftirfarandi töflu kemur fram kostn­aður við greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna almennra tannlækninga elli- og örorkulífeyrisþega. Tölur eru fyrir annað hvert ár frá 2000– 2014 (auk ársins 2005) og eru á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs. Í gögnum SÍ eru ekki til áreiðanlegar upplýsingar um verð tannlækna fyrr en árið 2005. Það ár samsvaraði greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna beggja hópa um 57% af verði tannlækna. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hefur lækkað hlutfallslega frá því ári og nam að meðaltali um þriðjungi af verði tannlækna árið 2014.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sjúkratryggingar Íslands tóku við umsjón sjúkratrygginga af Tryggingastofnun ríkisins 1. október 2008.

     3.      Hyggst ráðherra leggja til innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi vegna tannlæknakostnaðar örorku- og ellilífeyrisþega sambærilegu greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga fyrir börn?

    Ráðherra hefur ekki áform um að innleiða nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna tannlæknakostnaðar örorku- og ellilífeyrisþega sambærilegt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga fyrir börn.