Ferill 789. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1566  —  789. mál.




Svar


um­hverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Merði Árnasyni
um náttúruverndaráætlun 2014–2018.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvenær hyggst ráðherra leggja fyrir Alþingi nýja náttúruverndaráætlun, sem í fyrra hefði átt að taka við af náttúruverndaráætlun 2009–2013 skv. 65. gr. gildandi náttúruverndarlaga um að ráðherra skuli leggja fram slíka áætlun „eigi sjaldnar en á fimm ára fresti“?

    Náttúruverndaráætlun 2009–2013 var unnin á grundvelli 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Ný náttúruverndarlög, nr. 60/2013, eiga að taka gildi 15. nóvember 2015, en vinna við endurskoðun þeirra hefur staðið yfir frá síðastliðnu hausti. Í þeim lögum er lagt upp með verulega breytt fyrirkomulag náttúruverndaráætlunar sem m.a. er ætlað að gera framkvæmd þeirra áforma sem slík áætlun setur fram skilvirkari.
    Í nýjum náttúruverndarlögum, nr. 60/2013, er gert ráð fyrir nýju vinnulagi sem yrði hluti af ferli við gerð náttúruminjaskrár, en þar er um að ræða breytt verklag frá eldri náttúruverndarlögum. Á meðan vinna við endurskoðun nýrra náttúruverndarlaga stendur yfir, og í ljósi þess að enn eru mörg svæði á náttúruverndaráætlun 2009–2013 sem ekki hafa verið friðlýst og eru í vinnslu, hefur vinna við endurskoðun náttúruverndaráætlunar á grunni laganna frá 1999 ekki hafist, enda óvíst hvort hún mundi gagnast í því nýja fyrirkomulagi sem boðað er í lögum nr. 60/2013.
    Áhersla er á að vanda vinnu og að skapa samstöðu um endurskoðun náttúruverndarlaga, sérstaklega byggða á nefndaráliti um­hverfis- og sam­göngunefndar frá 2014. Ráðherra hyggst leggja fram á haustþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/ 2013. Fái frumvarpið brautargengi á Alþingi mun ráðuneytið strax hefja vinnu við endurskoðað fyrirkomulag náttúruverndaráætlunar, þ.e. náttúruminjaskrá.