Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1568  —  794. mál.




Svar


um­hverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Merði Árnasyni
um stefnu í loftslagsmálum.


     1.      Hver verða landsmarkmið Íslands (INDC) á loftslagsráðstefnunni í París í desember?
    Landsmarkmið Íslands (INDC) var sent inn til skrifstofu loftslagssamningsins 30. júní 2015. Yfirlýsing um landsmarkmiðið er á heimasíðu samningsins og það hefur verið kynnt almenningi og fjölmiðlum.

     2.      Hyggjast íslensk stjórnvöld verða samferða Evrópusambandinu og Noregi á Parísarráðstefnunni líkt og í Doha árið 2012 þegar íslensk stjórnvöld tóku á sig sam­eigin­legar skuldbindingar með ESB á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar? Ef ekki, hyggjast stjórnvöld þá leita samstarfs við önnur einstök ríki eða ríkjahópa um pólitískar megináherslur á ráðstefnunni?
    Já, íslensk stjórnvöld hyggjast verða samferða Evrópusambandinu og Noregi.

     3.      Á hvern hátt hyggjast íslensk stjórnvöld kynna stefnu og málstað Íslands í París, einkum í ljósi þess hversu brýnt er að hægja á og stöðva súrnun sjávar og vinna gegn neikvæðum áhrifum hlýnunar á líffræðilega fjölbreytni í hafinu?

    Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur nú að uppfærðri greiningu á möguleikum Íslands til að draga úr losun og auka bindingu, sem mun gagnast stjórnvöldum í að uppfæra aðgerðir til að draga úr nettólosun. Ísland hefur um nokkra hríð vakið athygli á vandanum varðandi súrnun hafsins, m.a. á vettvangi aðildarríkjaþinga loftslagssamningsins. Um­hverfis- og auðlindaráðherra og aðrir ráðherrar og fulltrúar Íslands munu leggja sitt af mörkum og kynna aðstæður á Íslandi og málstað Íslands á Parísarfundinum og á öðrum vettvangi þar sem loftslagsbreytingar eru til umræðu.
    Það skiptir mestu máli að Parísarfundurinn skili þeim árangri að ríki heims nái saman um hertar skuldbindingar og aðgerðir til að draga úr nettólosun gróðurhúsaloftteg­unda og einkum að stærstu losendurnir séu þar innan borðs. Loftslagsvandinn er hnattrænn og verður ekki leystur nema með hnattrænu átaki og í samvinnu ríkja. Það skiptir þó máli að öll ríki leggi sitt lóð á vogarskálarnar og Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja. Íslenskir ráðamenn hafa verið hvattir af mörgum, m.a. af framkvæmdastjóra loftslagssamningsins, Christiönu Figueres, að sýna fordæmi á sviði loftslagsmála og endurnýjanlegrar orku. Ísland styður metnaðarfullt samkomulag í París og telur sig hafa kynnt sanngjarnt og metnaðarfullt landsmarkmið. Ísland mun að auki leita leiða til að efla góð verkefni á sviði loftslagsmála, heima fyrir og á alþjóðavísu. Fyrirhugað er að auka framlög til skógræktar og landgræðslu, m.a. til að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Ísland hefur lengi stutt við jarðhitavæðingu á alþjóðavísu, en það starf hefur eflst verulega á síðustu missirum, ekki síst með þátttöku Íslands í stóru alþjóðlegu verkefni um jarðhitavæðingu í Austur-Afríku.