Ferill 726. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1598  —  726. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um starf nefndar um málefni hinsegin fólks .


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður starfi nefndar um málefni hinsegin fólks sem átti að skila tillögu að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu til ráðherra fyrir 1. október 2014, sbr. ályktun Alþingis nr. 7/143?

    Fyrsti fundur nefndar um málefni hinsegin fólks var haldinn 5. maí 2014 en óskað var eftir tilnefningum í nefndina frá fulltrúum hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka í febrúar árið 2014.
    Í nefndinni sitja fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúar frá hagsmunasamtökum hinsegin fólks, þ.e. Intersex Íslandi, Q – félagi hinsegin stúdenta, Samtökunum '78 og Trans-Íslandi. Þá sitja þar fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og Jafnréttisstofu. Formaður nefndarinnar er tilnefndur af ráðherra og er starfsmaður nefndarinnar frá velferðarráðuneytinu.
    Nefndin hefur fundað reglulega á þessum tíma, eða 12 sinnum, síðast 8. maí sl.
    Í starfi nefndarinnar eru ábendingar frá alþjóðlegum samtökum hinsegin fólks (ILGA) hafðar til hliðsjónar en samtökin gefa árlega út skýrslu um stöðu hinsegin fólks í Evrópu. Meðal þeirra ábendinga sem fram hafa komið hjá ILGA gagnvart Íslandi er að ekki sé til staðar sjálfstæð mannréttindaskrifstofa á vegum stjórnvalda sem vinni m.a. gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar og ekki sé til staðar aðgerðaáætlun sem vinni gegn mismunun gagnvart hinsegin fólki, en hlutverk nefndarinnar er einmitt að vinna slíka aðgerðaáætlun. Um er að ræða viðamikið verkefni þar sem huga þarf að mörgum atriðum. Má þar nefna fræðslu, lagabreytingar og stöðu intersex-einstaklinga sem fyrst nýlega er byrjað að ræða opinberlega í samfélaginu.
    Vonir standa til að nefndin skili tillögum að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu á haustmánuðum.