Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 21  —  21. mál.




Beiðni um skýrslu



frá félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu kvenna á vinnumarkaði.



Frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Árna Páli Árnasyni,
Helga Hjörvar, Katrínu Júlíusdóttur, Kristjáni L. Möller,
Oddnýju G. Harðardóttur, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur,
Valgerði Bjarnadóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og húsnæðismálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu kvenna á vinnumarkaði.


Greinargerð.

    Mál þetta var flutt á 144. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt.
    Frá hruni íslenskra bankakerfisins haustið 2008 hefur orðið töluverð breyting á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnuleysi jókst snögglega en hefur á síðustu missirum minnkað jafnt og þétt. Áhrif efnahagshrunsins á einstaklinga geta verið mismunandi eftir félagslegri stöðu og heilsu og ekki síst kyni. Staða kynjanna var mjög ólík fyrir efnahagshrunið og þarft er að rannsaka hvort og þá hvernig sú staða hefur breyst en þær þrengingar sem fylgdu í kjölfarið með minni atvinnu, verri skuldastöðu og óstöðugleika hafa ólík áhrif á karla og konur.
    Margar alvarlegar staðreyndir og mikilvægar spurningar blasa við þegar staða kvenna á vinnumarkaði er skoðuð. Konur yfir fimmtugt eru stór hópur þeirra sem glímir við langtímaatvinnuleysi og konur vinna hlutastörf í meira mæli en karlar. Atvinnuleysi kvenna er meira en karla hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar. Hvað veldur, standa ákveðnir aldurshópar verr en aðrir eða ákveðin landsvæði? Hvaða áhrif hefur hærra menntunarstig kvenna á stöðu þeirra á vinnumarkaði, fá þær atvinnu og laun við hæfi? Er launamunur kynjanna að minnka hjá ákveðnum hópum? Hvaða áhrif hafa aðgerðir ríkisins í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum á síðustu árum haft á stöðu kynjanna?
    Ýmsar rannsóknir hafa verið unnar á afmörkuðum sviðum vinnumarkaðarins, til að mynda er kynbundinn launamunur nokkuð vel rannsakaður og þá eru til nákvæmar upplýsingar um fjölda kvenna og karla í ýmsum áhrifa- og valdastöðum á vinnumarkaði. Draga þarf þessar upplýsingar saman og kanna með ítarlegri hætti stöðu kvenna á vinnumarkaði, eins og lagt er til að ráðherra geri með þeirri skýrslu sem hér er óskað eftir.
    Þau atriði sem óskað er eftir að fjallað verði um og gefið yfirlit yfir í skýrslu ráðherra eru m.a. eftirfarandi en ekki er um tæmandi lista að ræða og eðlilegt að ráðherra meti hvort fleiri atriði eigi hér undir:
     *      Þátttaka kynjanna á vinnumarkaði, greina þarf einstaka þætti eftir aldri, búsetu, tekjum og menntun eftir því sem mögulegt er.
                   Þróun á fjölda starfsmanna í einstaka starfsstéttum og atvinnugreinum.
                   Þróun atvinnuleysis og atvinnuþátttöku.
                   Þróun á fjölda þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði.
                   Þróun á fjölda þeirra sem eru í hlutastörfum.
                   Þróun fjárveitinga ríkisins til einstakra starfsstétta – er karllæg slagsíða í atvinnuþróunarstefnu stjórnvalda?
                   Umfang styrkja til nýsköpunar og atvinnuþróunar.
                   Þróun á fjölda háskóla- og framhaldsskólanema greint niður á deildir.
                   Atvinnuþátttaka háskólanema.
     *      Barneignir og fæðingarorlof, greina þarf einstaka þætti eftir kyni, aldri, búsetu, tekjum og menntun eins ítarlega og mögulegt er.
                   Yfirlit yfir töku fæðingarorlofs.
                   Fjöldi þeirra sem fá hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi.
                   Hvernig dagvistun milli fæðingarorlofs og leikskóla er háttað.
                   Þróun í fjölda fæðinga.
     *      Þróun launamunar kynjanna frá efnahagshruni 2008, greina þarf einstaka þætti eftir aldri, búsetu og menntun eins ítarlega og mögulegt er.
                   Koma launahækkanir sem hafa orðið eftir efnahagshrunið árið 2008 síðar til kvenna en karla?
                   Áhrif breytinga á skatta- og bótakerfi á ráðstöfunartekjur, skipt eftir tíundum.
                   Yfirlit yfir hópa undir lágtekjumörkum.
                   Yfirlit yfir hópa sem sækja um matarúthlutun og aðra aðstoð hjá hjálparstofnunum.
     *      Áhrif framangreindra atriða á einstæða foreldra eftir því hvort um karl eða konu er að ræða.
     *      Áhrif opinberra aðgerða á stöðu kynjanna frá efnahagshruni árið 2008, greina þarf einstaka þætti eftir, aldri, búsetu, tekjum og menntun eins ítarlega og mögulegt er.
                   Hafa orðið til fleiri ný störf fyrir karla en konur?
                   Yfirlit yfir störf sem hafa orðið til vegna aðgerða hins opinbera frá hruni.
                   Yfirlit yfir störf sem hafa tapast vegna aðgerða hins opinbera, m.a. niðurskurðar.
                   Áhrif vinnumarkaðsaðgerða frá hruni árið 2008.
                   Yfirlit yfir aukna skólasókn eftir kyni.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að skýrslan verði þannig úr garði gerð að hún nýtist við kynjaða fjárlagagerð.