Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 50  —  50. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stofnun íþróttaframhaldsskóla í Kópavogi.

Flm.: Willum Þór Þórsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja viðræður við bæjarstjórn Kópavogs um stofnun nýs framhaldsskóla í Kópavogi. Haft verði að markmiði að bjóða upp á nám til stúdentsprófs auk þess sem skólinn sérhæfi sig á sviði íþrótta.
    Ráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi ráðherra, sem veiti hópnum forustu, fulltrúar Kópavogsbæjar, einn eða fleiri, og fulltrúar íþróttahreyfingarinnar, einn eða fleiri. Starfshópurinn skili skýrslu fyrir 1. maí 2016.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 144. löggjafarþingi (681. mál).
    Fjölgun íbúa í Kópavogi kallar á byggingu nýs framhaldsskóla í bæjarfélaginu. Reynsla nágrannalandanna í að samþætta nám og íþróttir við sérhæfða íþróttaskóla hefur gefist afar vel. Því er ráðlegt að grípa tækifærið til þess að koma á fót slíkum skóla hér á landi. Þar spilar inn í sú íþróttaaðstaða sem er að finna í Kórnum í Kópavogi.
    Skólinn yrði opinber framhaldsskóli, sbr. 4. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, og boðið yrði upp á nám til stúdentsprófs. Skólinn yrði stofnaður í samstarfi við Kópavogsbæ og fulltrúa íþróttahreyfingarinnar. Fulltrúar þessara aðila ættu auk fulltrúa ráðherra sæti í starfshópi sem ynni að stofnun skólans. Ráðherra mæti hversu margir fulltrúar koma frá Kópavogsbæ og íþróttahreyfingunni. Hópurinn tæki mið af reynslu Dana og Norðmanna af íþróttaframhaldsskólum.

Um staðsetningu hins nýja skóla.
    Kópavogur er næststærsta bæjarfélag landsins. Íbúar hans eru um 32 þúsund, en þeim hefur fjölgað um 10 þúsund frá aldamótum. Þessi hraða uppbygging hefur kallað á hraða uppbyggingu á grunnþjónustu, þ.m.t. byggingu sjö nýrra leikskóla og þriggja grunnskóla á tímabilinu.
    Menntaskólinn í Kópavogi, sem stofnaður var árið 1973, er eini framhaldsskólinn í bæjarfélaginu með um það bil 1.400 nemendur. Síðast var byggt við skólann árið 2003 og ljóst er að ekki verður unnt að bæta þar við rými og bekkurinn því fullsetinn. Ef mið er tekið af þeirri fjölgun sem átt hefur sér stað á leik- og grunnskólastigi og stöðu Menntaskólans í Kópavogi blasir við að þörf er fyrir nýjan framhaldsskóla í Kópavogi. Þá kveður 32. gr. framhaldsskólalaga á um rétt nemenda til að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs.
    Í Kórnum er að finna fjölnota íþróttahöll og stutt er í sundlaugar. Því er hægt að nýta þá aðstöðu sem nú þegar er fyrir hendi við starfrækslu skólans.

Um sérhæfingu hins nýja skóla.
    Óþarfi er að fjölyrða um þjóðfélagslegt vægi íþrótta. Íþróttir hafa forvarnagildi og stuðla að jafnt líkamlegum sem andlegum þroska. Í samræmi við áhuga og frjálst val hvers og eins geta einstaklingar á framhaldsskólaaldri viljað leggja áherslu á að stunda íþróttir af kappi. Mikilvægt er að það komi ekki niður á námi þeirra og þar með framtíðarmöguleikum. Þvert á móti er æskilegt að samþætting íþrótta og náms ýti undir árangur á hvoru sviði. Þá segir í 1. mgr. 2. gr. framhaldsskólalaga að hlutverk framhaldsskóla sé m.a. að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.
    Fyrir þjóðina í heild getur íþróttaframhaldsskóli lagt grunn að bættri umgjörð og aðbúnaði fyrir afreksíþróttir en sveigjanleiki í námi vegna æfinga og keppnisferða og aðgangur að góðri þjálfunaraðstöðu getur orðið stökkpallur til afburða árangurs í íþróttum.
    Tillagan miðar að því að hinn nýi skóli yrði íþróttaskóli en ráðlegt er að veita starfshópi svigrúm til þess að móta hvaða hlutverki sú sérhæfing mundi gegna í starfi skólans. Þar kemur til greina að skólinn ætti náið samstarf við ÍSÍ um afreksstefnu. Þrátt fyrir að tillagan leggi áherslu á íþróttir er ekkert því til fyrirstöðu að hinn nýi skóli legði við mótun námsbrauta einnig áherslur á aðrar greinar, svo sem lýðheilsu, skapandi listir, upplýsingatækni og margmiðlun.