Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 77  —  77. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að styrkja samstarf við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sjávarútvegsmál til að nýta til fulls þá sérstöðu sem Vestur-Norðurlönd hafa sem sjávarútvegssvæði. Ríkisstjórnir landanna kanni hvernig löndin geti aukið samstarf sitt á sviði sjávarútvegsmála og leggi niðurstöðurnar fram í sameiginlegri greiningu sem send verði til Vestnorræna ráðsins. Greiningin fjalli m.a. um:
a.      samstarf á sviði sjávarútvegsmála,
b.      samstarfsmöguleika á sviði fiskveiðistjórnunar,
c.      möguleika á sameiginlegu vestnorrænu vörumerki og sameiginlegri markaðssetningu fiskafurða,
d.      samstarfsmöguleika á sviði hafrannsókna,
e.      stöðu umhverfismála og sjálfbærni,
f.      kosti og galla aukins samstarfs um betri aðgang að mörkuðum, þar á meðal markaði Evrópusambandsins,
g.      möguleika á sameiginlegri stefnu og samningagerð á sviði sjávarútvegsmála,
h.      svið þar sem löndin þrjú standa sterkari saman en ein sér þegar kemur að sjávarútvegsmálum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2015 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í Færeyjum 12. ágúst 2015.
    Ísland, Grænland og Færeyjar eru í margvíslegu samstarfi á sviði sjávarútvegsmála, bæði á vegum opinberra aðila og atvinnulífs. Það er þó erfitt að átta sig á heildarmynd samstarfsins.
    Vestur-Norðurlönd ráða yfir einu stærsta fiskveiðisvæði heims en löndin þrjú hafa ekki sameiginleg landfræðipólitísk markmið um hvernig þau nýti auðlindir hafsins. Vestnorræna ráðið telur að þessi þrjú lönd geti styrkt efnahag sinn til lengri tíma litið með því að hefja aukið samstarf, þar á meðal á sviði sjávarútvegs. Tekjur af fiskveiðum eru mun stærri hluti hagkerfa landanna þriggja en annarra landa á norðurslóðum. Fiskur og fiskafurðir eru 88% af útflutningi Grænlands, 41% af útflutningi Íslands og 94% af útflutningi Færeyja (tölur frá 2012).
    Að mati Vestnorræna ráðsins geta Vestur-Norðurlönd aukið samstarf sitt um sjávarútvegsmál á marga vegu en ráðið telur rétt að leggja áherslu á sameiginlega markaðssetningu, rannsóknir og þróun sjálfbærra fiskveiða á svæðinu og á fullnýtingu fisksins, bæði með nýrri framleiðslutækni og samnýtingu auðlinda. Á hinum auðuga heimsmarkaði eru næg tækifæri til vaxtar, sér í lagi fyrir lönd sem geta tryggt rekjanleika og MSC-vottun (e. Marine Stewardship Council) um sjálfbærni og góða fiskveiðistjórnun, selja gæðafiskafurðir úr Norður- Atlantshafi og Norður-Íshafi og hafa yfir hátæknilegu fiskeldi að ráða. Framangreindar áherslur ættu allar að gagnast sjávarútvegi hvers lands fyrir sig, en yfirfærsla þekkingar og færni getur gagnast svæðinu í heild verulega.
    Að mati Vestnorræna ráðsins er þörf á að kanna möguleika þess að löndin þrjú móti sér sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu á sviði sjávarútvegs þar sem svæðið á mikilla hagsmuna að gæta.
    Breytingar á sjávarhita vegna loftslagsbreytinga og Norður-Atlantshafssveiflunnar (e. North Atlantic Oscillation) hafa haft þær afleiðingar að uppsjávarfisktegundir flytja sig til á vestnorræna hafsvæðinu þvert á fiskveiðimörk. Aukið vestnorrænt samstarf um skiptingu uppsjávarfiskstofna gæti falið í sér mikinn ávinning fyrir svæðið. Slík skipting yrði að byggjast á vísindalegri ráðgjöf og þekkingu, t.d. hafrannsóknastofnana landanna þriggja, sem og alþjóðlegu samstarfi, t.d. vinnuhópi Norðvesturhópsins innan Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar (ICES). Svæðið í heild hefur yfir dýrmætum lifandi auðlindum að ráða og Vestur- Norðurlönd geta hagnast af því að tala einni röddu í samningaviðræðum um skiptingu uppsjávarfiskstofna, t.d. við Evrópusambandið og Noreg.
    Vestnorræna ráðið ákvað á ársfundi sínum í Vestmannaeyjum árið 2014 að skipa sameiginlega nefnd forsætisnefndar ráðsins og eins þingmanns til viðbótar frá hverju landi. Nefndin hittist tvisvar árið 2015 til að greina þau svið þar sem löndin þrjú eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og gætu aukið samstarf sitt. Niðurstöður nefndarinnar er hægt að lesa í skýrslu ráðsins „Strategisk vurdering af det regionale samarbejde i Arktis“ 1 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í ágúst 2015. Skýrslan getur verið innlegg í vinnu aðildarlanda ráðsins að sameiginlegri vestnorrænni norðurslóðastefnu á sviðum þar sem löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Eitt af þeim sviðum snýr að sjávarútvegsmálum.
Neðanmálsgrein: 1
1     Á dönsku:
     www.vestnordisk.is/wp-content/uploads/2015/09/WNC-Strategic-Assessment-_DANSK_%C3%85rsm%C3%B8de-2015-FINAL-20082015.pdf
    Á ensku:
     www.vestnordisk.is/wp-content/uploads/2015/09/WNC-Strategic-Assesment_ENGELSK_endelig_udgave-FINAL-20082015.pdf