Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 98  —  98. mál.




Fyrirspurn



til umhverfis- og auðlindaráðherra um viðbrögð við ábendingum í skýrslu Ríkisendurskoðunar um varnir gegn mengun sjávar frá skipum.

Frá Svandísi Svavarsdóttur.


     1.      Með hvaða hætti hyggst ráðherra bregðast við því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Alþjóðlegir samningar um varnir gegn mengun sjávar frá skipum“ frá því í nóvember 2014 að ný og endurskoðuð ákvæði alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum hafi einungis skilað sér í íslenskan rétt í litlum mæli með þeim afleiðingum að tilvísanir íslenskra laga og reglna í téða samninga séu að hluta til rangar?
     2.      Hver er afstaða ráðherra til þess að Ísland hefur ekki staðfest viðauka IV og VI við MARPOL-samninginn um varnir gegn mengun sjávar frá skipum og hvaða afleiðingar gætu fylgt því að viðaukarnir hafa ekki hlotið staðfestingu hérlendis? Hyggst ráðherra koma því til leiðar að umræddir viðaukar verði staðfestir?
     3.      Áformar ráðherra að koma því til leiðar, og þá með hvaða hætti, að brugðist verði við áskorun Ríkisendurskoðunar á bls. 5 í fyrrnefndri skýrslu um að greind verði áhætta sem stafað getur af því að Ísland framfylgi ekki staðfestum alþjóðasamningum um varnir gegn mengun sjávar frá skipum og sú áhætta sem getur falist í því fyrir Ísland að standa utan slíkra samninga?
     4.      Getur ráðherra upplýst hvaða vitneskja liggur að baki þeirri fullyrðingu umhverfis- og auðlindaráðuneytis á bls. 6 í fyrrnefndri skýrslu að mikill hluti efnis alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum öðlist stað í íslenskum lögum og regluverki með ákvæðum gerða sem teknar eru upp samkvæmt EES-samningnum? Er unnt að sýna fram á hvaða efni alþjóðasamninganna hefur hlotið staðfestingu með þessum hætti og hvað ekki?
     5.      Telur ráðherra tilefni til að gera breytingar á verka- og ábyrgðarskiptingu varðandi framkvæmd alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar og aðgerðir samkvæmt þeim?
     6.      Hyggst ráðherra stuðla að auknum fjárveitingum til verkefna er varða varnir gegn mengun hafs og stranda, m.a. til viðbragða við bráðamengun utan hafna?
     7.      Hyggst ráðherra bregðast við því, og þá með hvaða hætti, að árið 2016 verður aðildarríkjum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar skylt að sæta úttekt hennar á framkvæmd alþjóðlegra samninga sem samþykktir hafa verið á vettvangi hennar?
     8.      Hyggst ráðherra, og þá með hvaða hætti, bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar á bls. 24 í fyrrnefndri skýrslu um að Umhverfisstofnun hafi ekki verið gert kleift að annast eftirlit með eftirfylgni við ákvæði staðfestra alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum? Hyggst ráðherra gera ráðstafanir til að tryggja nægilega innlenda sérfræðiþekkingu á staðfestum alþjóðasamningum um varnir gegn mengun sjávar frá skipum og koma því til leiðar að virk þátttaka verði af Íslands hálfu í alþjóðastarfi sem byggist á þessum samningum?


Skriflegt svar óskast.