Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 195  —  190. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt.
    Reglugerð (ESB) nr. 167/2013 hefur það markmið að styrkja reglur og auka samræmingu við setningu EB-gerðarviðurkenninga dráttarvéla og er áhersla lögð á að öryggis- og umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi. Reglugerðin kemur í stað tilskipunar 2003/37/EB og afleiddra gerða hennar.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES- samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt.
    Markmið reglugerðar (ESB) nr. 167/2013 er, eins og áður segir, að styrkja reglur og auka samræmingu við setningu EB-gerðarviðurkenninga dráttarvéla. Hún mælir fyrir um grundvallarákvæði um notkunaröryggi, öryggi á vinnustað og vistvænleika og felur framkvæmdastjórn ESB vald til að mæla fyrir um tækniforskriftir í framseldum gerðum, eins og fram kemur í 3. mgr. inngangsorða gerðarinnar. Reglugerð (ESB) nr. 167/2013 kemur, frá 1. janúar 2016, í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/37/EB frá 26. maí 2003 um gerðarviðurkenningu á dráttarvélum fyrir landbúnað eða skógrækt, eftirvögnum þeirra og útskiptanlegum, dregnum tækjum ásamt kerfum þeirra, íhlutum og aðskildum tæknieiningum, og afleiddum gerðum hennar, en sú tilskipun kom á fót heildstæðu kerfi fyrir EB- gerðarviðurkenningar. Með reglugerð 167/2013 er því kerfi skipt út fyrir gerðarviðurkenningaraðferð Sambandsins sem byggir, skv. 2. mgr. inngangsorða gerðarinnar, á meginreglunni um algjöra samhæfingu og um leið að tekið sé tilhlýðilegt tillit til sjónarmiða sem tengjast kostnaðarávinningi með sérstaka áherslu á lítil eða meðalstór fyrirtæki.
    Með reglugerð (ESB) nr. 167/2013 er regluverk einfaldað með það fyrir augum að ekki þurfi stöðugt að uppfæra gildandi löggjöf Sambandsins um tækniforskriftir. Þess í stað vísar gerðin, eins og fram kemur í 5. mgr. inngangsorða hennar, til gildandi alþjóðlegra staðla og reglna sem eru aðgengilegar almenningi án þess að þær séu birtar innan lagaramma Sambandsins. Jafnframt eru allar sértilskipanir felldar úr gildi án þess að dregið sé úr verndarstigi, með því að tilvísanir eru gerðar í samsvarandi reglugerðir efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, sem Sambandið hefur samþykkt eða gengist undir, og koma í þeirra stað. Hægt verður að vísa í framseldum gerðum ESB í reglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, ISO-staðla eða staðla Staðlasamtaka Evrópu/Rafstaðlasamtaka Evrópu sem eru aðgengilegir öllum, enda bæti aðgengi að stöðluðum upplýsingum starfsemi innri markaðarins. Þá er aðildarríkjunum falið að mæla fyrir um reglur og viðurlög við brotum framleiðenda og rekstraraðila gegn ákvæðum reglugerðarinnar.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 167/2013 hér á landi kallar á breytingar á umferðarlögum, nr. 50 frá 30. mars 1987.
    Í 72. gr. reglugerðarinnar er aðildarríkjum gert að kveða á um sektir fyrir framleiðendur eða rekstraraðila sem gerast brotlegir við atriði sem eru talin upp í 2. mgr. greinarinnar. Þetta ákvæði gerir nauðsynlegt að breyta umferðarlögum, nr. 50/1987. Er hér um að ræða brot á borð við það að framvísa röngum yfirlýsingum sem leitt geta til innköllunar ökutækja, framvísun falsaðra prófunarniðurstaðna og þess að gögnum sem varða tækniupplýsingar er leynt eða neitað er að afhenda þau.
    Gert er ráð fyrir því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum á yfirstandandi þingi.
    Búist er við að áhrif hér á landi af setningu gerðarinnar verði einungis óbein þar sem hún snýr eingöngu að framleiðendum dráttarvéla.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 9/2015

frá 25. febrúar 2015

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun)
við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt ( 1 )

2)          Samkvæmt ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 167/2013 falla úr gildi, frá og með 1. janúar 2016, tilskipun ráðsins 76/432/EBE ( 2 ), tilskipun ráðsins 76/763/EBE ( 3 ), tilskipun ráðsins 77/537/EBE ( 4 ), tilskipun ráðsins 78/764/EBE ( 5 ), tilskipun ráðsins 80/720/EBE ( 6 ), tilskipun ráðsins 86/297/EBE ( 7 ), tilskipun ráðsins 86/298/EBE ( 8 ), tilskipun ráðsins 86/415/EBE ( 9 ), tilskipun ráðsins 87/402/EBE ( 10 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/25/EB ( 11 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/37/EB ( 12 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/57/EB ( 13 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/58/EB ( 14 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/59/EB ( 15 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/60/EB ( 16 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/61/EB ( 17 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/63/EB ( 18 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/64/EB ( 19 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/66/EB ( 20 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/68/EB ( 21 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/75/EB ( 22 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/76/EB ( 23 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/144/EB ( 24 ), en þær gerðir hafa verið felldar inn í EES-samninginn og ber því að fella þær úr EES-samningnum.

3)          II. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Ákvæði II. kafla II. viðauka við EES-samninginn breytist sem hér segir:

     1.      Eftirfarandi liður bætist við á eftir 39. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/68/EB:

        „40.     32013 R 0167: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt (Stjtíð. ESB L 60, 2.3.2013, bls. 1).“

     2.      Texti 8. liðar (tilskipun ráðsins 76/432/EBE), 9. liðar (tilskipun ráðsins 76/763/EBE), 11. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/57/EB), 12. liðar (tilskipun ráðsins 77/537/EBE), 13. liðar (tilskipun ráðsins 78/764/EBE), 17. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/75/EB), 18. liðar (tilskipun ráðsins 80/720/EBE), 19. liðar (tilskipun ráðsins 86/297/EBE), 20. liðar (tilskipun ráðsins 86/298/EBE), 21. liðar (tilskipun ráðsins 86/415/EBE), 22. liðar (tilskipun ráðsins 87/402/EBE), 23. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/144/EB), 28. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/37/EB), 29. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/25/EB), 31. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/64/EB), 32. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/63/EB), 33. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/66/EB), 34. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/76/EB), 35. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/58/EB), 36. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/59/EB), 37. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/60/EB), 38. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/61/EB) og 39. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/68/EB) falli brott frá og 1. janúar 2016.

2. gr.

Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 1c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/42/EB) í XXIV. kafla II. viðauka við EES-samninginn:

„–         32013 R 0167: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 (Stjtíð. ESB L 60, 2.3.2013, bls. 1).“

3. gr.

Íslenskur og norskur texti reglugerðar (ESB) nr. 167/2013, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 26. febrúar 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

5. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 25. febrúar 2015.
Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Gianluca Grippa
formaður.



Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013
frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit
með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt.


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0195-f_II.pdf

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 60, 2.3.2013, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 122, 8.5.1976, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 126, 14.5.1976, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 220, 29.8.1977, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 255, 18.9.1978, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 194, 28.7.1980, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 186, 8.7.1986, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 186, 8.7.1986, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. EB L 240, 26.8.1986, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Stjtíð. EB L 220, 8.8.1987, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Stjtíð. EB L 173, 12.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Stjtíð. ESB L 171, 9.7.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(13)    Stjtíð. ESB L 261, 3.10.2009, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(14)    Stjtíð. ESB L 198, 30.7.2009, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 15
(15)    Stjtíð. ESB L 198, 30.7.2009, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 16
(16)    Stjtíð. ESB L 198, 30.7.2009, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 17
(17)    Stjtíð. ESB L 203, 5.8.2009, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 18
(18)    Stjtíð. ESB L 214, 19.8.2009, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 19
(19)    Stjtíð. ESB L 216, 20.8.2009, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 20
(20)    Stjtíð. ESB L 201, 1.8.2009, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 21
(21)    Stjtíð. ESB L 203, 5.8.2009, bls. 52.
Neðanmálsgrein: 22
(22)    Stjtíð. ESB L 261, 3.10.2009, bls. 40.
Neðanmálsgrein: 23
(23)    Stjtíð. ESB L 201, 1.8.2009, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 24
(24)    Stjtíð. ESB L 27, 30.1.2010, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 25
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.