Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 216  —  93. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Róbert Marshall um landsnet ferðaleiða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig miðar vinnu við gerð landsnets ferðaleiða í samræmi við ályktun Alþingis um landsnet ferðaleiða, nr. 34/143, og hvenær er áætlað að vinnu við gerð þess muni ljúka?

    Með bréfi Alþingis hinn 27. maí 2014 barst innanríkisráðuneytinu þingsályktun nr. 34 frá 143. þingi 2013–2014 um gerð landsnets ferðaleiða. Þingsályktuninni var beint til þriggja ráðuneyta, innanríkisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Samkvæmt 8. tölul. 3. gr. auglýsingar um forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013, falla málefni ferðaþjónustunnar undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Tenging ályktunarinnar við innanríkisráðuneytið og verkefni þess snertir vegagerð og samgöngur. Við gerð samgönguáætlunar er tekið mið af þörfum ferðaþjónustunnar, sem þó er ekki sérstaklega aðgreind frá almennri þörf fyrir samgöngur. Í samgönguáætlun sem nú er unnið að í ráðuneytinu er þó í ríkari mæli en áður horft til ferðaþjónustunnar, enda leiðir það af gríðarlegum vexti greinarinnar á undanförnum árum.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Frumvarpið er samið í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Markmið frumvarpsins er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Það skal gert með stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára, skv. 3. gr., og þriggja ára verkefnaáætlun, skv. 4. gr., sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar. Í frumvarpinu eru sérstaklega skilgreindar ferðamannaleiðir en það geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir og skal landsáætlunin einnig taka til slíkra leiða.