Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 232  —  130. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur
um meðferð við augnsjúkdómi.


     1.      Hversu margir hafa greinst hérlendis með augnsjúkdóminn „vot hrörnun í augnbotni“ og hvernig skiptast þeir eftir landsvæðum?
    Áætlaður fjöldi þeirra sem hafa greinst með augnsjúkdóminn „vot hrörnun í augnbotni“ er ríflega 800 einstaklingar og skiptast þeir eftir landsvæðum í samræmi við íbúafjölda hvers svæðis og aldurssamsetningu. Algengi sjúkdómsins eykst með hækkandi aldri og er algengasta orsök lögblindu á Íslandi eftir sextugt. Algengi votrar hrörnunar í augnbotnum meðal einstaklinga eldri en 50 ára er um 0,7% samkvæmt Augnrannsókn Reykjavíkur, eða 730 einstaklingar miðað við íbúafjölda í september 2015 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Heildarfjöldi sjúklinga sem fengið hafa inndælingu á Landspítala í auga vegna votrar hrörnunar í augnbotnum á árinu er 823 og skiptist þannig að 69% þeirra komu frá höfuðborgarsvæðinu, 5% frá Suðurnesjum, 5% frá Vesturlandi, 1% frá Vestfjörðum, 8% frá Norðurlandi, 3% frá Austurlandi og 8% frá Suðurlandi.

     2.      Hvaða lyf eru gefin við sjúkdómnum?
    Á undanförnum árum hafa lyfin Avastin og Lucentis verið notuð með góðum árangri við sjúkdómnum. Nýlega var einnig tekið í notkun lyfið Eylea sem hefur sambærilega lyfjaverkun og Lucentis og Avastin en þarf að gefa sjaldnar.

     3.      Hvernig er meðferð sjúkdómsins háttað og hvar er þjónustan veitt?
    Lyfjainndælingar í glerhlaup auga eru gerðar við augndeild Landspítala og við Sjúkrahúsið á Akureyri. Greining og eftirlit vegna sjúkdómsins fer hins vegar fram við augndeild Landspítala og á stofum augnlækna á höfuðborgarsvæðinu þar sem unnt er að gera svokallaða sneiðmyndatöku (OCT-myndgreining) af augnbotnum og sérfræðingar í sjúkdómum sjónhimnunnar starfa. Lyfjagjafir í glerhlaup eru framkvæmdar á skurðstofu með sérþjálfuðu starfsfólki, hjúkrunarfræðingum og læknum. Hver sjúklingur kemur í lyfjainndælingu á fjögurra vikna fresti í þrjá mánuði og fer að því loknu í myndatöku þar sem árangur er metinn og áframhaldandi meðferð veitt ef ástæða þykir til.

     4.      Telur ráðherra ástæðu til að breyta núverandi fyrirkomulagi við meðferð sjúkdómsins og þá hvernig?
    Heilbrigðisráðherra hefur ekki í hyggju að breyta núverandi fyrirkomulagi enda er það ekki hans hlutverk.