Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 298  —  270. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (fíkniefnabrot og peningaþvætti).

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Brynjar Níelsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Róbert Marshall, Heiða Kristín Helgadóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „12 árum“ í 1. mgr. 173. gr. a laganna kemur: 10 árum.

2. gr.

    Í stað orðanna „12 árum“ í 3. mgr. 264. gr. laganna kemur: 10 árum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að refsimörk 173. gr. a almennra hegningarlaga verði lækkuð úr allt að 12 árum í 10 ár. Þá er og lagt til að refsimörk 264. gr. sömu laga verði til samræmis einnig lækkuð úr allt að 12 árum í allt að 10 ár.
    Neysla löglegra og ólöglegra fíkniefna hefur aukist jafnt og þétt um áratugaskeið samkvæmt tölum meðferðarstofnana, lögreglu, neyslukannana og annarra rannsókna. Reynslan af hertum viðurlögum og þyngri dómum í fíkniefnamálum hefur ekki dregið úr neyslu eða fjölda brota. Á sama tíma hefur neysla ólöglegra vímuefna minnkað hjá þeim þjóðum sem fylgja frjálslyndari stefnu í fíkniefnamálum, en ekki þeirri hörðu refsistefnu sem hér er fylgt, ekki síst eftir að refsiramminn í ávana- og fíkniefnamálum var hækkaður úr 10 árum í 12 árið 2001 með lögum nr. 32/2001.
    Dómar yfir svokölluðum „burðardýrum“ hafa kallað fram viðbrögð í samfélaginu og spurningar vakna um þyngd refsinga samanborið við önnur brot, t.d. kynferðisbrot og alvarlegar líkamsárásir. Vissulega á það ekki að vera háð tískubylgjum eða dómstóli götunnar hvaða refsingu fólk hlýtur fyrir alvarleg brot, en flutningsmenn telja mikilvægt að horfa til þess hvaða árangur næst með þungum refsingum við fíkniefnabrotum. Ekki er gert lítið úr alvarleika þeirrar glæpastarfsemi sem ólöglegur innflutningur fíkniefna er. Hins vegar eru mörg dæmi um að burðardýr, sem oft og tíðum er ungt fólk sem á við mikinn fíknivanda að stríða og hvorki fjármagnar innflutninginn né græðir stórar fjárhæðir á honum, sé dæmt til þungrar refsingar. Þeir sem standa raunverulega að baki innflutningnum og græða mest á honum nást ekki og hringrásin heldur áfram.
    Öflug meðferðarúrræði hafa sýnt sig vera vænlegri leið til að vinna gegn eymd og ömurlegum ástæðum fíkniefnaneytenda, ekki síður en þvinguð meðferð sem hluti af dómaúrræði.
    Það er mat flutningsmanna að refsistefnan í fíkniefnamálum hafi gengið of langt, refsiramminn nýttur í óhófi og allt of langt sé gengið í refsingum án þess að merkjanlegur árangur náist nema síður sé. Mannúð og mildi eiga að ráða för þegar kemur að úrræðum í vímuefnamálum. Öflugar forvarnir, hóflegir refsidómar og fyrirtaksmeðferðarúræði eiga að koma í stað refsistefnu sem inntak og kjarni nýrra úrræða í fíkniefnamálum. Samhliða lækkun refsirammans í ávana- og fíkniefnamálum er mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á stefnu stjórnvalda í fíkniefna- og forvarnamálum.