Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 303  —  274. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu rannsókna á vistfræði melrakkans.


Flm.: Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að móta nýja stefnu í málefnum íslenska melrakkans sem miði að því að hætta opinberum fjárstuðningi við refaveiðar og efla þess í stað rannsóknir á vistfræði refsins. Rannsóknirnar verði grundvöllur framtíðarskipulags refaveiða og mótunar verndaráætlunar fyrir tegundina. Ráðherra kynni nýja stefnu fyrir þinginu eigi síðar en í maí 2016.

Greinargerð.

    Hið opinbera ver tugum milljóna króna árlega í refaveiðar án þess að fyrir liggi viðhlítandi rannsóknir sem sýna fram á nauðsyn þeirra. Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að látið verði af opinberum fjárstuðningi við veiðarnar og það fé sem þannig sparast verði nýtt til nauðsynlegra og löngu tímabærra rannsókna á umfangi þess tjóns sem refurinn veldur og á vistfræði refsins almennt. Á grunni slíkra rannsókna verði í kjölfarið mótuð upplýst veiðistjórnarstefna og verndaráætlun sem byggist á vísindalegum staðreyndum fremur en órökstuddum getgátum.
    
Núverandi fyrirkomulag.
    Á Íslandi lifir ein refategund villt. Tegundin nýtur friðunar skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 líkt og önnur villt dýr gera að meginreglu. Refaveiðar fara fram á grundvelli undanþáguheimildar í 7. gr. sömu laga, með þeim rökum að tegundin valdi tjóni en ráðherra skal kveða á um vernd, friðun og veiðar einstakra tegunda villtra dýra í reglugerð. Í 5. mgr. 12. gr. laganna er að auki sérstök undanþága frá friðuninni sem heimilar bændum og æðarræktendum að skjóta ref sem búfénaði eða æðarvarpi stafar hætta af.
    Með stoð í 7. gr. laganna gildir reglugerð um refa- og minkaveiðar nr. 437/1995, með síðari breytingum. Í 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að sveitarstjórnum sé skylt að ráða skotmenn til refaveiða á þeim svæðum þar sem umhverfisráðherra ákveður, með hliðsjón af tillögum veiðistjóra, að veiðar séu nauðsynlegar til að sporna við tjóni af völdum refs. Í 1. viðauka reglugerðarinnar er að finna nákvæmar útlistanir á friðlýstum svæðum þar sem veiðar eru óheimilar og í 2. viðauka eru tilgreind svæði þar sem refaveiðar skulu stundaðar.

Tölur og kostnaður.
    Náttúrufræðistofnun Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu 22. október 2014, þar sem fram kom að refum hefði fækkað talsvert á undanförnum árum. Það væri í fyrsta skipti sem slíkt gerðist síðan markvissar mælingar hófust á áttunda áratug síðustu aldar. Íslenski refastofninn mun hafa verið í sögulegu lágmarki við upphaf þeirra mælinga og dýrin hafa líklega verið rúmlega þúsund þegar minnst lét. Þá tók við þriggja áratuga samfellt vaxtarskeið refastofnsins sem náði hámarki í rúmlega 10.000 dýrum í kringum árið 2008. Nýjustu mælingar sýna að refum fækkaði um u.þ.b. þriðjung næstu tvö árin þar á eftir og er talið að stofninn hafi verið um 7.000 dýr árið 2010. 1
    Samkvæmt tölum um refaveiðar, sem aðgengilegar eru á vef Umhverfisstofnunar, hefur fjöldi veiddra refa farið stigvaxandi samhliða vaxandi stofnstærð síðustu áratugi. Þannig var árlegur fjöldi veiddra dýra um þúsund í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar en hefur verið á milli 6.000 og 7.000 undanfarin ár.
    Beinn kostnaður hins opinbera við refaveiðar nemur um 80–100 millj. kr. á ári. Sveitarfélögin ráða veiðimenn og sum þeirra greiða auk þess óráðnum veiðimönnum fyrir dýr sem þeir skila inn. Greiðslur þessar eru misjafnar eftir sveitarfélögum en samkvæmt viðmiðunartaxta Umhverfisstofnunar greiðast 7.000 kr. fyrir hvert veitt dýr. Sveitarfélög hafa jafnan getað endurkrafið ríkissjóð um hluta útlagðs kostnaðar vegna refaveiða, en ríkið greiddi ekki slíkt mótframlag til sveitarfélaga á árunum 2011–2013 vegna markmiða þáverandi ríkisstjórnar um lækkun ríkisútgjalda. Umhverfisstofnun gefur árlega út veiðidagbók, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um kostnað hins opinbera við refaveiðar. Kostnaður síðustu sex ára er eftirfarandi samkvæmt þessum upplýsingum (tölurnar eru raunfjárhæð hvers árs og hafa ekki verið uppreiknaðar að núvirði):
Ár Kostnaður
2009 89 millj. kr.
2010 87 millj. kr.
2011 67 millj. kr.
2012 61 millj. kr.
2013 79 millj. kr.
2014 88 millj. kr.

Um rök fyrir refaveiðum.
    Sem fyrr segir fara refaveiðar fram á grundvelli undanþágu frá meginreglunni um friðun villtra dýra. Forsendan hefur verið að veiðar séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir tjón. Í aðalatriðum má greina rökin sem jafnan eru færð fyrir nauðsyn refaveiða í fernt.
    Í fyrsta lagi er nefnt að veiðar séu nauðsynlegar til að sporna við offjölgun í refastofninum. Í þingsályktunartillögu um framtíðarskipan refaveiða sem lögð var fram á 141. löggjafarþingi (84. mál) var þess getið að stofninn hefði tífaldast á undangengnum 30 árum og að líkur væru á að sú öra fjölgun héldi áfram ef ekki yrði gripið inn í. Nú hafa nýjustu mælingar sýnt að svo var ekki heldur varð tilfinnanleg fækkun í stofninum milli áranna 2008 og 2010 án þess að til aukinna veiða kæmi.
    Í annan stað eru refaveiðar sagðar nauðsynlegar vegna umfangsmikils tjóns sem refir valdi á sauðfé ár hvert. Óumdeilt er að sauðfé verður fyrir refaárásum í einhverjum mæli og dýrbitið fé finnst að hausti ár hvert. Umfang þess tjóns sem refur veldur sauðfé er hins vegar umdeilt og hefur ekki verið rannsakað. Á það hefur verið bent í þessu samhengi að lambadauði sé lítill á Íslandi eða innan við 3% en í Noregi sé hann hins vegar um 9%. Jafnframt hefur verið bent á að óveruleg aukning hafi orðið í lambadauða á síðustu þremur til fjórum áratugum, þrátt fyrir að fjöldi refa á Íslandi hafi margfaldast á tímabilinu. 2
    Í þriðja lagi er refnum jafnan kennt um eyðingu fuglalífs þar sem hann fari í hreiður og ræni þau eggjum og ungum. Um þetta gildir hið sama og framangreint: lítið er til af vísindalegum rannsóknum á áhrifum refsins á fuglalíf. Hins vegar er óútskýrt hvernig fuglar komust af áður en mannsins naut við til að halda refnum í skefjum. Jafnframt má benda á að stofnar þeirra fugla sem helst verða refum að bráð uxu samhliða vexti refastofnsins á síðustu áratugum síðustu aldar. Þá eru athyglisverðar niðurstöður rannsóknar Borgnýjar Katrínardóttur, sem birtar voru í maí 2012 þar sem mófuglahreiður voru vöktuð með myndavélum. 3 Alls náðust myndir af 13 eggjaránum og reyndist sauðfé ábyrgt fyrir sjö þeirra en refur aðeins fyrir einu.
    Í fjórða lagi eru refaveiðar taldar nauðsynlegar til öflunar rannsóknarsýna. Ljóst má telja að þeim tilgangi mætti ná fram með umfangs- og kostnaðarminni hætti en með núverandi fyrirkomulagi.

Um frekari rannsóknir og verndaráætlun.
    Flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu telur að nýjustu mælingar, sem sýna mikla fækkun í refastofninum á milli áranna 2008 og 2010, kalli á að gripið sé í taumana. Ekki sé lengur unnt að réttlæta að tugum milljóna króna af opinberu fé sé varið til veiða á ref án þess að fyrir liggi sterkari rök fyrir nauðsyn og tilgangi veiðanna en getgátur og sögusagnir. Nær lagi væri að verja a.m.k. hluta þessara fjármuna í að efla vistfræðirannsóknir með það fyrir augum að móta upplýsta veiðistjórnunarstefnu og verndaráætlun fyrir tegundina. Rökin fyrir því eru einkum tvenn: betur verði farið með fé skattgreiðenda og komið verði í veg fyrir að illa fari fyrir stofni íslenska melrakkans vegna illa ígrundaðrar ofveiði.
    Segja má að umræðan um íslenska refastofninn og refaveiðar hafi hingað til einkennst af vanþekkingu og skoðanir manna fremur byggst á getgátum en á traustum grunni vísindalegra staðreynda. Hér er lagt til að slíkur grunnur verði reistur til að umræða um málefnið geti orðið upplýstari héðan í frá en hingað til.

Neðanmálsgrein: 1
1     Mælingar á stofnstærð refs eru þess eðlis að einungis er unnt að reikna út og áætla stærð stofnsins 3–5 ár aftur í tímann. Því gefa nýjustu mælingar upplýsingar um stærð stofnsins árið 2010.
Neðanmálsgrein: 2
2     Hálfdán Helgason, Ancin F. Javier og Ester Unnsteinsdóttir: „Estimation of lamb (Ovis aries) mortality during summer in Iceland, a step towards estimating costs and benefits of arctic fox (Vulpes lagopus) culling.“
Neðanmálsgrein: 3
3     Borgný Katrínardóttir: „The importance of Icelandic riverplains as breeding habitats for Whimbrels Numenius phaeopus.“