Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 415  —  135. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um stöðu friðlýsingar á svæðum og virkjunarkostum í verndarflokki.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staðan á friðlýsingu svæða og virkjunarkosta í verndarflokki í samþykktri áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti yfir stöðu friðlýsingar út frá hverjum möguleika fyrir sig. Einnig er óskað eftir tímaáætlun um friðlýsingu hvers svæðis fyrir sig.

    Eins og fram hefur komið í fyrri svörum við sambærilegri fyrirspurn hóf Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar á svæðum í verndarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða í framhaldi af samþykkt Alþingis á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða 14. janúar 2013.
    Ráðuneytið telur rétt að endurtaka formála um forsendur þessarar vinnu.
    Í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun), sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2013, eru tilgreind þau svæði sem flokkuð voru í verndarflokk í 2. áfanga áætlunarinnar. Samkvæmt lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, skulu stjórnvöld hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, og eftir atvikum lög um menningarminjar, nr. 80/2012. Í samræmi við ákvæði þetta hefur Umhverfisstofnun það hlutverk að vinna að friðlýsingu, sbr. 58. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, en þar segir m.a. að stofnunin annist undirbúning friðlýsingar, geri drög að friðlýsingarskilmálum og leggi fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.
    Umhverfisstofnun hefur hafið undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd eins og lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um. Þessi undirbúningsvinna er mislangt á veg komin.
    Ekki liggur fyrir tímaáætlun fyrir hvert svæði fyrir sig. Ráðuneytið telur rétt að benda á að vinna við friðlýsingu svæða er umfangsmeiri en talið var í fyrstu þar sem ekki liggja fyrir nákvæmar landfræðilegar afmarkanir á þeim landsvæðum sem friðlýsa þarf til að ná fram verndarmarkmiðum.
    Ráðuneytið bendir jafnframt á að því barst fyrirspurn sama efnis á 143. löggjafarþingi (85. mál) og aftur á 144. löggjafarþingi (394. mál). Í svari við fyrirspurnunum koma fram ítarlegri upplýsingar um undirbúning hvers verkefnis fyrir sig og eru þær ekki endurteknar hér heldur vísast til fyrri svara ráðuneytisins um stöðu friðlýsinga í samræmi við rammaáætlun.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir stöðu vinnu við friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar.

Orkukostir í verndarflokki.
    Unnið er að skoðun á möguleikum þess að stækka Vatnajökulsþjóðgarð og er hluti þess í tengslum við friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar, sem liggja að þjóðgarðinum. Sú vinna tengist a.m.k. eftirfarandi fjórum orkukostum:
     Norðausturland: Jökulsá á Fjöllum, 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun.
    Suðurland: Djúpá, Fljótshverfi, 14 Djúpárvirkjun.
    Suðurland: Tungnaá og 24 Tungnaárlón.


    Sameigendum ríkisins á Geysissvæðinu hafa verið kynntir friðlýsingarskilmálar sem ná til hverasvæðisins auk jarðarinnar Laugar. Viðræður milli fulltrúa ríkisins og sameigenda á Geysissvæðinu standa yfir og koma að því bæði fjármála- og efnahagsráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið (1 orkukostur).
    Suðurland: Geysissvæðið, 78 Geysir.

    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í júlí síðastliðnum vinnuhóp um málefni Friðlands að fjallabaki sem m.a. er ætlað að fjalla um endurskoðun með tilliti til friðlýsingarflokks, breytingar á mörkum og rekstur svæðisins. Hópurinn starfar undir stjórn Umhverfisstofnunar og eru fulltrúar í vinnuhópnum frá Rangárþingi eystra, Rangárþingi ytra, Náttúrufræðistofnun Íslands, forsætisráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Hópurinn mun, ásamt öðru, skoða möguleika þess að eftirfarandi svæði í verndarflokki rammaáætlunar geti orðið hluti af stækkuðu Friðlandi að fjallabaki (3 orkukostir).
    Suðurland: Markarfljót, 22 Markarfljótsvirkjun A, 23 Markarfljótsvirkjun B og 25 Bjallavirkjun.

    Umhverfisstofnun hefur upplýst ráðuneytið að til standi að halda áfram viðræðum við Hrunamannahrepp um friðlýsingu Kerlingarfjallasvæðisins í samræmi við verndarflokk rammaáætlunar. Vinna var hafin við þrjár tillögur í samstarfsnefnd varðandi friðlýsingu á Kerlingarfjallasvæðinu í lok árs 2013. Ekki liggur því fyrir niðurstaða um afmörkun svæðisins en byggja má á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram.Tillagan sem er til skoðunar er m.a. að tengja svæðin fjögur þannig að um eitt verndarsvæði verði að ræða (4 orkukostir).
     Suðurland: Kerlingarfjallasvæðið, 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell.

    Brennisteinsfjallasvæðið sem er í verndarflokki rammaáætlunar er innan tveggja verndarsvæða, þ.e. Reykjanesfólkvangs og friðlandsins í Herdísarvík. Umhverfisstofnun hefur í samstarfi við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila unnið að breytingum á friðlýsingarskilmálum fólkvangsins og friðlandsins (1 orkukostur).
     Reykjanesskagi: Brennisteinsfjallasvæðið, 68 Brennisteinsfjöll.

    Óskað var endurmats á þessum orkukosti til verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar sem nú stendur yfir. Verkefnisstjórn hefur haft þá ósk til skoðunar og er beðið niðurstöðu hennar.
     Suðurland: Þjórsá, 27 Norðlingaölduveita, 566–567,5 m yfir sjávarmáli.

    Strax í upphafi vinnu við friðlýsingu Gjástykkissvæðisins kom fram mikil andstaða heimamanna og bárust Umhverfisstofnun formlegar bókanir frá sveitarstjórnum og Landeigendafélagi Reykjahlíðar um slit viðræðna. Staða friðlýsingar er því í ákveðinni biðstöðu (1 orkukostur).
     Norðausturland: Gjástykkissvæðið, 100 Gjástykki.

    Staða eftirtalinna orkukosta í verndarflokki er sem hér segir (5 orkukostir):
Suðurland: Hólmsá, 20 Hólmsárvirkjun við Einhyrning.
    Umhverfisstofnun hefur átt samskipti við sveitarstjórn með að vinna að friðlýsingu svæðisins, semja friðlýsingarskilmála og ákveða mörk fyrirhugaðs verndarsvæðis. Hvorki lög um verndar-og orkunýtingaráætlun né þingsályktunin gera grein fyrir því hver ytri mörk þeirra svæða sem friðlýsa skal skulu vera. Sveitarfélagið frestaði að skipa fulltrúa í vinnuhóp til að vinna að friðlýsingu svæðisins og bíður þess að niðurstaða þriðja áfanga rammaáætlunar liggi fyrir.

Suðurland: Jökulfall í Árnessýslu, 32 Gýgjarfossvirkjun, Hvítá í Árnessýslu, 33 Bláfellsvirkjun.
    Umhverfisstofnun hefur átt í samskiptum við sveitarfélögin Bláskógabyggð og Hrunamannahrepp varðandi undirbúning friðlýsingar á þessum orkukostum.

Reykjanesskagi: Hengilssvæðið, 74 Bitra og 77 Grændalur.
    Ljóst þykir að svæðið sem fyrirhugað er að friðlýsingin nái til er undir miklu álagi af völdum ferðamanna og aðgerða er þörf til að viðhalda og endurheimta verndargildi svæðisins. Umhverfisstofnun hefur átt í samskiptum við landeigendur, sveitarfélög og hagsmunaaðila á svæðinu varðandi undirbúning að friðlýsingu.
    Umhverfisstofnun hefur óskað eftir því að sveitarfélagið tilnefni fulltrúa í samstarfsnefnd um friðlýsingu svæðisins.