Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 439  —  292. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni
um framtíð ART-verkefnisins.


     1.      Hvað líður samningi velferðarráðuneytisins við sveitarfélög á Suðurlandi um framhald ART-verkefnisins?
    ART var fyrst sett á laggirnar á Suðurlandi 2006 og í umsóknarferli við undirbúning að gerð sóknaráætlana landshluta á árinu 2011 var ákveðið að verkefnið yrði hluti þeirrar áætlunar fyrir landshlutann. Markmiðið með gerð sóknaráætlana var m.a. að beina samskiptum Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga í tiltekinn farveg og færa þannig aukin völd og ábyrgð á forgangsröðun og skiptingu ríkisfjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar til landshlutanna. Þannig mætti ná betri nýtingu fjármuna, byggða á svæðisbundnum áherslum og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum.
    Samskipti ríkis og einstakra landshluta um verkefnafé og áherslur hafa áður fyrr verið bundnar samningum eða skyndisamráði um sértækar aðgerðir. Með sóknáráætlunum landshluta var gerð tilraun til þess að ráðstafa fjármagni til verkefna á grundvelli stefnumótunar og áætlanagerðar í hverjum landshluta þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga eru ábyrgðaraðilar.
    Í lok árs 2011 fengu 11 verkefni í öllum landshlutunum fjármagn til næstu fjögurra ára. Í öllum landshlutum voru myndaðir samráðsvettvangar heimamanna sem komu að mótun áætlana og forgangsröðun verkefna. Samráðsvettvangarnir voru ólíkir eftir landshlutum bæði hvað varðaði samsetningu og fjölda þátttakenda. Í öllum tilfellum voru þar fulltrúar sveitarstjórna, atvinnulífs og stoðstofnana og eftir atvikum aðrir. Ábyrgð á vinnunni var í öllum tilvikum hjá stjórnum landshlutasamtaka sveitarfélaga.
    Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa á grundvelli sóknaráætlananna borið ábyrgð á útfærslu og framkvæmd ART-verkefnisins (Aggression Replacement Training). ART er hugræn atferlismeðferð sem bætir félagsfærni, reiðistjórnun og eflir siðferðisþroska með því að breyta hugsun og hegðun barna og unglinga. Hún er talin henta vel sem meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga með tilfinninga- og hegðunarraskanir en hefur einnig reynst börnum vel sem eru að takast á við félagsfælni.
    Velferðarráðuneytið hefur gert tvo samninga vegna ART-verkefnisins alls að upphæð 68 millj. kr. sem deilist á fjögur ár.

ART – yfirlit (millj. kr.) skv. samn. I skv. samn. II
2012 7,0
2013 7,0
2014 27,0
2015 27,0

    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 er ekki gert ráð fyrir frekari fjármögnun ART-verkefnisins en frumvarpið er nú í höndum Alþingis og ef þingið tekur ákvörðun um að fjármagna verkefni áfram mun velferðarráðuneytið að sjálfsögðu ganga frá samningum um verkefnið.

     2.      Standa yfir viðræður um samning og hvenær er gert ráð fyrir að þeim ljúki?
    Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga hafa komið þeim óskum á framfæri við velferðarráðuneytið að samningurinn um ART-verkefnið verði endurnýjaður. Velferðarráðuneytið hefur ekki geta orðið við þeirri málaleitan þar sem fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið tryggð.

     3.      Hver eru áætluð framlög til verkefnisins og lengd samnings um það?
    Velferðarráðuneytið vísar til svara við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar.