Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 441  —  215. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um úttekt á aðgengi að opinberum byggingum.


     1.      Hve mikið fé hefur verið til úthlutunar á árinu 2015 í tengslum við framkvæmdaáætlun stjórnvalda í málefnum fatlaðs fólks vegna úttekta á aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að?
    Í tengslum við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks á árinu 2015 er 5 millj. kr. varið í verkefnið.

     2.      Hvaða sveitarfélög, þjónustusvæði og ferlinefndir hafa sótt um styrk til úttekta á árinu og hver hefur verið heildarupphæð styrkumsókna?
    Velferðarráðuneytið auglýsti 2. júlí sl. eftir styrkumsóknum frá sveitarfélögum, þjónustusvæðum eða ferlinefndum til að gera úttektir á aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að.
Eftirfarandi þjónustusvæði og sveitarfélög sendu inn umsóknir um samtals 30,7 millj. kr.:
          Fjallabyggð,
          þjónustusvæði fatlaðs fólks á Suðurlandi,
          Dalabyggð,
          Akureyrarbær,
          Dalvíkurbyggð,
          Sandgerðisbær,
          Ísafjarðarbær,
          Egilsstaðir,
          Sveitarfélagið Skagafjörður,
          Reykjanesbær,
          Flóahreppur,
          Reykjavíkurborg,
          Garðabær,
          Mosfellsbær,
          Seyðisfjarðarkaupstaður,
          Húnaþing vestra.

     3.      Hverjir hafa hlotið styrk og hvaða forsendur réðu úthlutun?
    Eftirfarandi þjónustusvæði og sveitarfélög fengu styrk:
          Þjónustusvæði fatlaðs fólks á Suðurlandi,
          Akureyrarbær,
          Dalvíkurbyggð,
          Sandgerðisbær,
          Ísafjarðarbær,
          Egilsstaðir,
          Sveitarfélagið Skagafjörður,
          Reykjanesbær,
          Reykjavíkurborg,
          Mosfellsbær,
          Húnaþing vestra.
    Velferðarráðuneytið setti á laggirnar sérstaka nefnd til þess að meta umsóknirnar sem borist höfðu. Í þeirri nefnd var einn fulltrúi frá velferðarráðuneytinu, einn frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og einn frá Mannvirkjastofnun. Matsnefndin mótaði sérstök viðmið við mat á umsóknum sem voru eftirfarandi:
          Eigið framlag og framlag annarra sé skilgreint.
          Raunhæft sé að verkefnið verði unnið á haustmánuðum og því lokið.
          Hámark styrkupphæðar sé 700 þús. kr. til þess að tryggja að styrkir fari til fleiri aðila.
          Ekki sé greiddur styrkur vegna nefndarstarfa og umsjónar með verkefninu.
          Útgreiðsla styrks fari fram innan ársins eftir verkefnislok og nemi aldrei hærra hlutfalli en 50% af beinum kostnaði vegna úttektarinnar.
          Verkefni sem þegar er lokið séu ekki styrkhæf.
          Sérstök úthlutun geti farið til sveitarfélaga með fleiri en 15.000 íbúa, þó með skilyrði um mótframlag.
          Leggi sveitarfélög ekki fram mótframlög á móti styrkjum ráðuneytisins verði þeim endurúthlutað.

     4.      Hversu mikið fé verður til úthlutunar árið 2016?
    Ekki liggur fyrir ákvörðun um úthlutun á árinu 2016.

     5.      Hvernig ætla stjórnvöld að sjá til þess að úttektir verði gerðar í sveitarfélögum sem ekki sækja um styrk til þeirra?
     6.      Hvernig er áætlað að standa að úrbótum í aðgengismálum þar sem úttektir sýna fram á að þeirra er þörf?

    Stjórnvöld hafa ekkert sérstakt boðvald í þessum efnum. Eins og staðan er nú, þá eru þeir fjármunir sem fást frá stjórnvöldum (ríki og sveitarfélögum) til úttektar og framkvæmda einungis hluti þess kostnaðar sem mundi falla til ef heildstæð úttekt yrði gerð á öllum opinberum byggingum og framkvæmt yrði í samræmi við niðurstöður slíkra úttekta. Ráðuneytið vekur athygli á því að allir sem eiga eða annast opinberar byggingar þurfa að láta sig málið varða til þess að tryggja að fatlað fólk njóti jafnréttis á við aðra, þ.m.t. að aðgengi þess sé tryggt.