Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 456  —  193. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um greiðslur þrotabúa í tengslum við losun fjármagnshafta.


     1.      Hversu háar fjárhæðir munu þrotabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans greiða til íslenska ríkisins, svokölluð „stöðugleikaframlög“, á grundvelli samninga sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera við þau í tengslum við losun fjármagnshafta?
    Í greinargerð Seðlabanka Íslands frá 27. október 2015 kemur fram að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir slitabúanna þriggja í tengslum við undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, vegna fyrirhugaðra nauðasamninga við kröfuhafa og lok slitameðferðar nema nærri 660 milljörðum kr. Kaupþing hf., Glitnir hf. og LBI hf. greiða samtals 490 milljarða kr. til stjórnvalda í formi stöðugleikaframlags, skattgreiðslna auk endurheimta ESÍ frá umræddum þremur aðilum. Þær endurheimtur renna að lokum til ríkissjóðs í samræmi við reglur um fjárhagsleg samskipti Seðlabanka Íslands og ríkisins. Þar af er stöðugleikaframlag slitabúanna þriggja metið á ríflega 379 milljarða kr. Endurheimtur ESÍ frá umræddum þremur aðilum nema ríflega 81 milljarði kr. sem gætu að lokum runnið til ríkissjóðs í samræmi við reglur um fjárhagsleg samskipti Seðlabanka Íslands og ríkisins. Ráðstöfun krónueigna innan lands í skatta er í greinargerð Seðlabankans metin á ríflega 29 milljarða kr. Ráðstöfun í innlendan kostnað og fleira nemur ríflega 16 milljörðum kr. og skuldalengingar og uppgreiðsla lánafyrirgreiðslu nema 151 milljarði kr. Munur á nafnvirði og bókfærðu virði framseldra eigna er 720 milljarðar kr. Ef lágt metnar eignir reynast verðmætari en þær eru metnar nú mun stöðugleikaframlagið og þar með mótvægisaðgerðir í heild nema hærri fjárhæð.
    Rétt er að árétta að undanþágubeiðnir slitabúanna byggjast á nauðasamningum þeirra við kröfuhafa en ekki á samningum við ríkisstjórnina.

     2.      Hversu háar fjárhæðir má áætla að þrotabúin greiði á grundvelli laga um stöðugleikaskatt standi þau ekki við samningana?
    Ástæða er til að taka fram að skattskylda samkvæmt lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, hvílir á lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og sæta slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, eða hafa lokið slitameðferð, sbr. 103. gr. a sömu laga, vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þeir skuli teknir til gjaldþrotaskipta. Hið sama á við um lögaðila sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og hafa lokið slitameðferð, sbr. 103. gr. a sömu laga, með nauðasamningi en hafa ekki getað efnt greiðslur samkvæmt nauðasamningi eða skuldagerningum sem gefnir voru út í tengslum við nauðasamning vegna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa samkvæmt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
    Að teknu tilliti til nýjustu uppgjöra slitabúa þriggja stærstu viðskiptabankanna mundi stöðugleikaskattur samkvæmt lögum um stöðugleikaskatt nema 770 milljörðum kr. í heild en 620 milljörðum kr. að teknu tilliti til frádráttarliða. Þetta er um 50 milljörðum kr. lægri fjárhæð en sú sem miðað var við þegar stöðugleikaskattur var kynntur sem liður í heildstæðri áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta fyrr á árinu. Styrking krónunnar síðustu mánuði skýrir þessa breytingu en hún hefur leitt til lækkunar á heildareignum slitabúanna þar sem hluti þeirra er í erlendum gjaldmiðlum. Komi til álagningar stöðugleikaskatts verður hann reiknaður af heildareignum slitabúanna eins og þær standa um næstu áramót.
    Sá munur sem er á fjárhæðum stöðugleikaskatts og stöðugleikaframlags endurspeglar það að leið nauðasamninga á grundvelli stöðugleikaskilyrða er talin áhættuminni, m.a. með tilliti til hættu á dómsmálum og stöðugleika á fjármálamarkaði. Ágreiningur um skattinn kynni að tefja fyrir bata á öðrum sviðum, t.d. bættu lánshæfismati ríkissjóðs. Greiðsla stöðugleikaframlags bindur enda á þátt slitabúanna þriggja í þeim greiðslujafnaðarvanda sem stendur í vegi fyrir losun hafta og greiðir fyrir því að hægt sé að ráðast í næstu þætti afnámsáætlunar stjórnvalda. Það er mat Seðlabankans að bæði fjármálastöðugleika og greiðslujafnaðarstöðugleika sé betur borgið ef kröfuhafar ganga til nauðasamninga sem uppfylla stöðugleikaskilyrði á grundvelli fyrirliggjandi frumvarpa en ef kæmi til skattlagningar.