Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 478  —  280. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um undirbúning að gerð nýs kennslu- og einkaflugvallar.


     1.      Hvernig stendur undirbúningur að gerð nýs kennslu- og einkaflugvallar af hálfu Isavia og innanríkisráðuneytis, sbr. samkomulag ráðherra og borgarstjórnar Reykjavíkur frá 25. október 2013?
    Fjármunir til rekstrar, uppbyggingar og viðhalds flugvallakerfisins innan lands hafa verið mjög takmarkaðir undanfarin ár og er forgangsraðað í þágu öryggis flugvalla sem þjóna áætlunarflugi. Hingað til hafa því ekki verið veittir fjármunir til að byggja upp sérstakan æfinga- og einkaflugvöll og undirbúningur því ekki hafinn.

     2.      Hvaða starfsemi mun áformaður flugvöllur nýtast?
    Áformaður flugvöllur yrði fyrst og fremst nýttur til æfinga-, kennslu- og einkaflugs. Ef notkun flugvallarins yrði umfangsmikil gætu opnast möguleikar fyrir flugtengda þjónustu, svo sem viðhald einkaflugvéla og eldsneytissölu.

     3.      Hvaða staðir hafa verið teknir til athugunar sem vallarstæði?
    Ekki hefur verið unnin úttekt á mögulegum staðsetningum fyrir kennslu- og einkaflugvelli en árið 2012 vann Isavia greinargerð um mögulegan flugvöll á Keilisnesi fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug. Greinargerðin fjallaði eingöngu um landfræðilegar forsendur en veðurfræðilegar upplýsingar liggja t.d. ekki fyrir. Keilisnes er því möguleg staðsetning fáist fjármunir til frekari uppbyggingar á flugvelli fyrir kennslu- og einkaflug.
    Þá var flugvöllurinn á Stóra-Kroppi byggður upp og er í dag nýttur fyrir kennslu-, æfinga- og einkaflug. Flugvöllur á Selfossi er ekki í eigu ríkisins en til hans hafa verið veittir styrkir gegn því að hann verði almennt opinn fyrir kennslu-, æfinga- og einkaflug.
    Flugvöllurinn á Sandskeiði var einnig byggður upp og er hann í dag notaður fyrir svifflug og snertilendingar flugvéla í æfinga- og kennsluflugi. Nýlega voru kannaðir möguleikar á að koma þar fyrir aðstöðu fyrir kennslu- og einkaflug en heilbrigðisyfirvöld á svæðinu lögðust gegn því vegna nálægðar við vatnsból höfuðborgarsvæðisins.

     4.      Hvenær er gert ráð fyrir því að framkvæmdir við gerð flugvallarins hefjist?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.