Ferill 268. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 479  —  268. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni
um breikkun hringvegarins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mikið mundi kosta að breikka allan hringveginn, annars vegar ef hann yrði 2+1- vegur með aðskilnaði akreina, hins vegar ef hann yrði tvær akreinar í hvora átt?
    
    Svar við þessari fyrirspurn er þríþætt. Í fyrsta lagi er skoðað hvert er alþjóðlegt notkunarsvið hinna ýmsu vegtegunda, í öðru lagi hversu mikil umferð er um hringveginn og í þriðja lagi hver kostnaður hefur verið við gerð nokkurra langra vegarkafla hér á landi á undanförnum árum.

Afköst mismunandi þversniða vegar.
    Í þýskum veghönnunarreglum er gert ráð fyrir almennu notkunarsviði mismunandi vegbreidda sem hér segir:

Breidd vegar í metrum Fjöldi akreina Notkunarsvið ÁDU* bílar/sólarhring
29,5 2 + 2 20.000–65.000
26,0 2 + 2 19.000–63.000
20,0 2 + 2 14.000–20.000
15,5 2 + 1 7.000–23.000
10,5 1 + 1 7.000–20.000
9,5 1 + 1 0–15.000
* Ársdagsumferð – meðalumferð á dag yfir árið

    Afköst vega geta síðan takmarkast af ýmsum orsökum eins og t.d. bratta, kröppum beygjum, hlutfalli þungra bíla, hraða o.fl. Breiðustu vegirnir í töflunni hér að ofan eru yfirleitt með mislægum gatnamótum og einnig er tiltölulega langt á milli vegamóta.

Umferð á hringveginum.
    Umferð á hringveginum er almennt frekar lítil í samanburði við aðalvegi í nágrannalöndunum. Það er helst að hægt sé að tala um verulega umferð á milli Reykjavíkur og Selfoss, frá höfuðborgarsvæðinu um Vesturland og um Egilsstaði og Akureyri. Eftirfarandi tafla gefur yfirsýn um umferð á völdum stöðum á hringveginum:
Vegur Kafli Heiti kafla Umferð ÁDU bílar/sólarhring
1 d8 Biskupstungnabraut – Þorlákshafnarvegur 6.493
1 d2 Skeiðavegur – Gaulverjabæjarvegur 3.722
1 d1 Þjórsá – Skeiðavegur 2.757
1 c0 Bakkavegur – Hvolsvöllur 1.611
1 b2 Hjörleifshöfði – Vík 875
1 a4 Foss – Klausturvegur 676
1 v6 Hornsvegur – Hafnarvegur 520
1 u6 Urðarteigsvegur – Djúpavogsvegur 360
1 t1 Skógarhlíðarvegur – Fellabær 579
1 r5 Dettifossvegur – Jökulsá 357
1 q5 Fnjóskadalsvegur eystri – Norðausturvegur 1.148
1 q3 Grenivíkurvegur – Illugastaðavegur 1.229
1 p2 Öxnadalsá – Þverá 980
1 m7 Sauðárkróksbraut – Siglufjarðarvegur 1.204
1 m2 Skagastrandarvegur – Hvammsvegur 890
1 k1 Innstrandavegur – Hrútatunguvegur 1.210
1 h4 Norðurá við Fornahvamm – sýslumörk 1.150
1 g9 Hvítárvallavegur – Borgarfjarðarbraut 1.828
1 g3 Hvalfjarðarvegur – Hafnarvegur 3.806
1 f6 Brautarholtsvegur – Hvalfjarðarvegur 5.918

    Vegin meðalumferð á hringveginum frá Selfossi austur um til Þingvallavegar er um 950 bílar á sólarhring og er þá umferð á þéttbýlisstöðum á leiðinni ekki meðtalin.

Kostnaður við gerð vega.
    Kostnaður við gerð vega er mjög breytilegur og er hann háður ýmsum þáttum. Má þar t.d. nefna landslag, fjarlægð í námur, fjölda og gerð tenginga, gerð brúa og ræsa, breidd vega, hæð yfir landi vegna snjóa og gerð hliðarvega ef þörf er á þeim. Eftirfarandi eru dæmi um kostnað við áætlaða eða raunverulega gerð nokkurra vega:

61 Djúpvegur um Þröskulda 70 millj. kr./km
61 Djúpvegur Reykjanes–Hörtná 151 millj. kr./km
85 Norðausturvegur, Hófaskarðsleið 62 millj. kr./km
427 Suðurstrandarvegur 50 millj. kr./km
862 Dettifossvegur 49 millj. kr./km
1 Hringvegur, Hveragerði–Skíðaskáli, breikkun 130 millj. kr./km
41 Reykjanesbraut, Hvassahraun–Njarðvík, tvöföldun 244 millj. kr./km
41 Reykjanesbraut, Hvassahraun–Njarðvík, tvöföldun + mislæg gatnamót 317 millj. kr./km

Kostnaður við að gera Hringveginn að 2+2 vegi og 2+1 vegi.
    Vegagerðin hefur ekki gert áætlanir um að gera Hringveginn að 2+2-vegi eða 2+1-vegi, enda gefa framangreindar upplýsingar greinilega til kynna að ekki sé tilefni til þess vegna umferðarmagns. Framangreindar kostnaðartölur um gerð vega gefa einnig til kynna, eins og áður segir, að þær eru afar breytilegar og háðar ýmsum breytum.
    Enda þótt ekki sé tilefni til að ráðast í þá framkvæmd sem spurt er um má gefa lauslega hugmynd, eða kannski fremur ágiskun, um kostnaðinn sem af mundi hljótast. Hér er gengið út frá því að dæmið sé reiknað frá Selfossi og hringinn austur um að vegamótum Þingvallavegar og þéttbýlisköflum vegarins sleppt enda er þar oftast um sértækar lausnir að ræða. Gert er ráð fyrir að tvöföldun vegarins kosti 150–200 millj. kr./km en gerð 2+1-vegar kosti 100–130 millj. kr./km. Miðað er við óbreytta legu vegarins og að núverandi vegur sé fullgerður sem er þó ekki alltaf raunin. Horft er t.d. fram hjá dýrri framkvæmd eins og gerð brúar á Ölfusá, gerð vegar um Hornafjarðarfljót, gerð brúar yfir Lagarfljót og Jökulsá á Fjöllum o.fl. Einnig er litið fram hjá jarðgöngum en þau eru tvö á þessari leið, um Almannaskarð og undir Hvalfjörð. Hringvegurinn er um 1.331 km að lengd en hér er reiknað með 1.300 km þegar þéttbýliskaflar hafa verið dregnir frá.
    Niðurstöður miðað við framangreint eru því eftirfarandi:
         Hringvegurinn sem 2+2 vegur, 200–260 milljarðar kr.
        Hringvegurinn sem 2+1 vegur, 130–170 milljarðar kr.

    Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst um rökstudda ágiskun að ræða. Frekari nákvæmni kallar á tímafreka og mjög kostnaðarsama gerð á frumdrögum verks en þau hefðu lítið hagnýtt gildi eins og sjá má af umfjölluninni hér að framan. Þær tölur sem settar eru fram hér verður að skoða sem lágmarkstölur, t.d. er ekki horft sérstaklega til margra einbreiðra brúa á leiðinni sem alfarið þyrfti að endurgera og þá oftast í tvöfaldri breidd.