Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 505  —  372. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um stefnu um nýfjárfestingar.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að efla skuli nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestinga. Í því skyni verði lögð áhersla á nýfjárfestingarverkefni:
     1.      sem byggjast á styrkleikum Íslands og sérstöðu,
     2.      sem stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi,
     3.      sem ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar,
     4.      sem styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið,
     5.      sem skapa innlendan virðisauka og hafa margföldunaráhrif, t.d. með samstarfi við starfandi íslensk fyrirtæki og með fjárfestingum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum,
     6.      sem skila sem mestum virðisauka og innleiða nýja þekkingu.
    Tryggt verði að markaðs- og kynningarstarfsemi stjórnvalda, tengd nýfjárfestingum, sé í samræmi við þær áherslur sem fram koma í ályktun þessari.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Auknar nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi eru ein af forsendum fyrir langtímahagvöxt. Með nýfjárfestingum er átt við fjárfestingar sem auka fjölbreytni atvinnulífsins, koma með nýja þekkingu og tækni og efla samkeppnishæfni landsins. Bæði getur verið um að ræða upp­setningu nýs verkefnis eða nýrrar starfsemi hér á landi, svo og sjálfstæða viðbót við eldra verkefni. Þá skiptir ekki máli hvort fjárfestingin er erlend eða af innlendum uppruna. Fjár­festing sem kemur í stað eldri fjárfestingar telst ekki nýfjárfesting, né heldur samruni eða yfirtaka.
    Nýfjárfestingar efla íslenska alþjóðageirann sem er samnefni um fyrirtæki sem ekki eru bundin við heimamarkað, samkeppnisvernd eða takmarkaðar auðlindir. Efling alþjóðlega samkeppnishæfra fyrirtækja er forsenda þess að ná viðunandi hagvexti, en miðað við önnur Norðurlönd ætti að vera unnt að tvöfalda virði alþjóðageirans með réttum aðgerðum. Nýfjár­festingar stuðla að aukinni samkeppnishæfni en þær bera m.a. með sér nýjungar í framleiðslu og stjórnun sem geta stuðlað að aukinni framleiðni, öflugri útflutningi og hærra þekkingar­stigi.
    Áherslur þær sem fram koma í stefnu þessari byggjast á þeim samhljómi sem er á milli efnahagsstefnu stjórnvalda, sbr. áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá maí 2013, skýrslu McKinsey um sóknarfæri Íslands til framtíðar, vinnu Samráðsvettvangs um aukna hagsæld og skyldra áherslna aðila vinnumarkaðarins. Stefnan byggist á eftirfarandi sex áhersluatriðum sem talin eru mikilvæg til að ná auknum ávinningi fyrir íslenskt samfélag til viðbótar við þann beina ávinning sem af fjárfestingunni sjálfri leiðir.

1.     Styrkleikar Íslands og sérstaða.
    Atvinnustarfsemi sem byggist á styrkleikum landsins er líklegri til að verða samkeppnis­hæfari en atvinnustarfsemi sem fetar aðrar slóðir. Í alþjóðlegum samanburði eru styrkleikar Íslands talsverðir og ljóst að fjárfestar sækja hingað vegna þeirra. Aðgerðir til að efla ný­fjárfestingar þurfa að tengjast styrkleikum landsins og hafa að markmiði að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Reynsla fjárfestingarsviðs Íslandsstofu bendir til að helstu styrkleikar landsins felist einkum í eftirfarandi meginþáttum:
     a.      Endurnýjanlegri orku, einkum vatnsorku og jarðhita til rafmagnsframleiðslu og jarðgufu til iðnaðarnota, auk mikils magns af heitu og köldu vatni til almennra nota.
     b.      Hreinu umhverfi, svölu loftslagi, jarðfræðilegri sérstöðu og norðlægu sérkenni sem fer vel með orkugjöfunum til að skapa fyrirtækjum eftirsóknarverða ímynd.
     c.      Miklu landrými, en landrými er víðast hvar annars staðar orðið takmarkað, einkum í nálægð við alþjóðaflugvelli og útflutningshafnir.
     d.      Traustum innviðum, eins og flutningskerfi raforku, nettengingum við útlönd og sam­göngum í lofti og á sjó.
     e.      Mannauði, háu menntunarstigi og öflugri frumkvöðlastarfsemi.
     f.      Hagstæðri legu landsins, einkum með tilliti til markaða beggja vegna Atlantshafsins og út frá framtíðarmöguleikum á siglingum um Norður-Íshafið.
     g.      Aðild að innri markaði Evrópu og hagstæðum viðskiptasamningum við önnur lönd, t.d. nýlegum samningum við Kína.

2.     Aukin fjölbreytni og afleidd innlend starfsemi.
    Nýfjárfesting getur stuðlað að aukinni fjölbreytni atvinnulífsins og leitt til enn frekari afleiddrar starfsemi sem byggist á nýsköpun og tækniþróun. Beinar erlendar fjárfestingar geta haft mikil áhrif á yfirfærslu þekkingar, nýrra viðmiða og tækni og þannig haft mikil áhrif á framleiðni. Þær hafa einnig óbein jákvæð áhrif vegna samskipta erlendra fjárfesta við inn­lenda sérfræðinga.
    Erlendar fjárfestingar síðustu áratuga hafa að miklu leyti beinst að nýtingu orkulindanna og uppbyggingu orkufreks stóriðnaðar sem um langt árabil hefur verið ein af meginútflutn­ingsgreinum á Íslandi. Auk þeirra er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til að skapa fjölbreytt framtíðarstörf sem höfða til stærri hóps ungs fólks sem býr yfir þekkingu og menntun á ólíkum sviðum. Hafa þarf í huga að í kringum nýfjárfestingar geta sprottið upp afleidd þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem ná að þróast út frá þeirri frumstarfsemi sem fjárfestingin leggur grunn að. Lengi hafa vonir t.d. verið bundnar við að úrvinnsluiðnaður gæti skapast í kringum áliðnaðinn en minna hefur orðið um það en að var stefnt. Á grundvelli þessa ætti að leita sérstaklega að fjárfestingum sem falla vel að ímynd Íslands og:
     a.      geta af sér sjálfstæða afleidda atvinnustarfsemi,
     b.      mynda hátt hlutfall verðmætra starfa sem styrkja innlendan þekkingargrunn,
     c.      laða til sín vel menntað starfsfólk, t.d. á tæknisviðum, sem sækist eftir krefjandi og vel launuðum störfum,
     d.      vilja tengjast innlendu vísinda- og nýsköpunarumhverfi, t.d. með þróunarsamstarfi,
     e.      geta styrkt fyrirliggjandi atvinnustarfsemi, t.d. með útvistun verkefna,
     f.      stuðla að sjálfbærri þróun.

3.     Alþjóðageirinn.
    Nýfjárfestingar hafa áhrif á þróun samfélags og atvinnulífs. Þær hafa t.d. áhrif á uppbygg­ingu innviða, menntun og þróun þekkingar. Hagvöxtur mun að miklu leyti byggjast á vexti alþjóðageirans sem er þekkingariðnaður og keppir á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Mikilvægt er því að beina athygli að sóknarfærum fyrirtækja í alþjóðageiranum í tengslum við nýfjárfestingar. Það hefur t.d. nýlega verið gert með stofnun álklasans sem er veigamikið skref í þá átt að til verði fleiri þekkingarfyrirtæki sem tengjast áliðnaðinum, eins og gert hefur verið með Íslenska sjávarklasanum og jarðhitaklasanum. Eðli máls samkvæmt eru nýfjárfestingar misvel til þess fallnar að stuðla að framgangi fyrirtækja í alþjóðageiranum og þar með að auka fjölda sóknarfæra til aukins hagvaxtar.
    Nýfjárfestingar þekkingarfyrirtækja eru sérstaklega líklegar til að geta eflt alþjóðageirann. Í alþjóðageiranum er að finna stærstu vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs. Þar eru fyrirtæki af öllum stærðum og úr öllum starfsgreinum. Þau eiga það sameiginlegt að byggja á hugviti frumkvöðla og framsækinni þekkingu og ná oft árangri vegna þess að þau geta vaxið hratt og þannig skipað sér í fremstu röð í alþjóðlegri samkeppni. Meðal fyrirtækja sem tilheyra alþjóðageiranum eru Íslensk erfðagreining, Actavis, Nox Medical, Mentis Cura, Marel, 66°N og Plain Vanilla.
    Samkvæmt greiningu McKinsey & Company, sem birt var í tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, kemur fram að alþjóðageirinn stóð á árinu 2012 undir 12% af vergri landsframleiðslu, sem er tiltölulega lágt miðað við önnur Norðurlönd. Í tillögum samráðs­vettvangsins kemur fram að framlegð alþjóðageirans þurfi að vaxa í 18% til að standa undir 3,5% hagvexti fram til 2030, sem samsvarar framlagi alþjóðageirans í Danmörku árið 2009. Til að ná þessum vexti þarf útflutningur alþjóðageirans að þrefaldast til 2030, en heildar­útflutningur að aukast um 90%. 1

4.     Besta fáanleg tækni.
    Nýfjárfestingar þurfa að vera vettvangur fyrir yfirfærslu nýrrar þekkingar, tæknilausna og umhverfisviðmiða. Sú hefur reyndin verið í flestum stærri fjárfestingarverkefnum á Íslandi. Þannig hefur stóriðjan orðið fyrirmynd fyrir önnur íslensk fyrirtæki sem séð hafa ávinning nýjunganna og innleitt þær í eigin starfsemi, eins og umbætur í umhverfis-, aðbúnaðar- og öryggismálum. Notkun bestu fáanlegu tækni í fjárfestingarverkefnum skapar hvata hjá öðrum frumkvöðlum til að nýta hana til nýrra verkefna og eigin ávinnings. Mikilvægt er að halda á lofti kröfu um innleiðingu bestu fáanlegra lausna með sérhverri nýrri fjárfestingu, m.a. til að efla nýsköpun og hækka almennt þekkingarstig.

5.     Innlendur virðisauki og margföldunaráhrif.
    Mikilvægt er að efla starfandi fyrirtæki á Íslandi. Fjárfestar hafa ávinning af því að tengj­ast innlendu þekkingarumhverfi, t.d. starfandi fyrirtækjum og rannsóknum stofnana og háskóla á fagsviði fjárfestisins. Hér er um gagnkvæman ávinning að ræða því að fjárfestar leita þangað sem þekkingar- og tæknistig er hátt og þar sem til eru fyrirtæki sem geta stutt við hina nýju starfsemi. Þannig verða til margföldunaráhrif af fjárfestingunni. Ein birtingar­mynd þessa er að til geta orðið klasar fyrirtækja á afmörkuðum sviðum. Einnig getur þekking á íslenskum sprotafyrirtækjum leitt til fjárfestinga í þeim.
    Til þess að auka innlendan virðisauka þarf að bæta upplýsingar um innlenda möguleika fyrir erlenda fjárfesta. Nefna má að upplýsingabanka um íslensk sprotafyrirtæki sem leita fjárfestingasamstarfs við erlenda fjárfesta væri ekki erfitt að setja upp. Sömuleiðis væri unnt að efla samstarf við landshlutasamtök sveitarfélaga um hagnýtar upplýsingar sem fjárfestar sækjast eftir.
    Til að auka árangurslíkur þyrfti að skýra betur hlutverk og samstarf hlutaðeigandi aðila, t.d. fjárfestingasviðs Íslandsstofu, sveitarfélaga, Nýsköpunarmiðstöðvar og annarra opinberra aðila eins og við á. Hlutverk sveitarfélaganna væri að gera styrkleikagreiningu út frá eigin sérstöðu og mikilvægi annarra þátta sem áhrif hafa á mat á svæðinu fyrir nýfjárfestingar. Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar væri að hafa tiltækar upplýsingar um tæknisamstarf og nýsköpunarfyrirtæki sem styrkt geta áhuga fjárfesta á nýfjárfestingum og fjárfestingum í starfandi íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að á grundvelli stefnu þessarar verði gerðir samstarfssamningar við þar til bæra aðila um nánari útfærslur einstakra þátta hennar.

6.     Verkefni skili sem mestum virðisauka og innleiði nýja þekkingu.
    Mikilvægt er að opinber stuðningur við nýfjárfestingar skili ávinningi fyrir þjóðarbúið. Þær eiga að efla atvinnulíf sem boðið getur eftirsóknarverð störf fyrir vel menntað fólk og laun og kjör á borð við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Nýfjárfestingar eiga að leiða til nýrrar framleiðslu og þjónustu til útflutnings sem skapa trygga markaðsstöðu á alþjóð­legum samkeppnismarkaði. Þannig verður til virðisauki í frumframleiðslu sem aftur leiðir til annarrar nýrrar afleiddrar starfsemi í stoðgreinum.
    Nýfjárfestingar eru mikilvægar fyrir framþróun þekkingar og margs konar hæfni. Þær eru oft á nýjum sviðum sem eru lítt eða ekki þekkt í íslensku atvinnulífi. Þeim getur fylgt ný framleiðslutækni eða krafa um verkþekkingu sem er ný fyrir íslenskan vinnumarkað. Yfir­færsla þekkingar er ein af grunnstoðum framfara í atvinnulífinu og uppspretta nýsköpunar. Reynslan hefur sýnt að mörg þeirra fjárfestingarverkefna sem notið hafa opinberrar fyrir­greiðslu hafa verið uppspretta fyrir ný fyrirtæki og framleiðslu sem á eigin forsendum hafa reynst mikilvægir vaxtarbroddar fyrir samfélagið. Innleiðing nýrrar þekkingar er því nátengd nýfjárfestingum.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Samráðsvettvangur um aukna hagsæld: Hagvaxtartillögur verkefnisstjórnar, maí 2013.