Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 535  —  306. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur
um breytingar með tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála.


     1.      Hvernig breytist yfirlitsmyndin á bls. 4–5 í ritinu Vegvísir í ferðaþjónustu (útgefið í október 2015) með tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála?
    Yfirlitsmyndin sýnir hversu víðtæk ferðaþjónustan er sem atvinnugrein. Hún sýnir stöðuna eins og hún er í dag og hve margir snertifletir ferðaþjónustunnar eru við hina ýmsu aðila, innan stjórnsýslunnar og utan, sem og hversu flókin lagaumgjörðin er. Hún er ekki tæmandi eins og fram kemur á bls. 4.
    Ferðaþjónustan hérlendis, eins og annars staðar í heiminum, mun alltaf vera afar víðtæk atvinnugrein, víðtækari en flestar. Stjórnstöð ferðamála er samræmingarvettvangur stjórnvalda og atvinnugreinarinnar og er ætlunin m.a. sú að tengja betur saman þá fjölmörgu þræði sem sjá má á myndinni á bls. 4–5. Leiða saman þann breiða fjölda aðila sem að ferðaþjónustu koma, hvort sem það er beint eða óbeint, til þess að leysa með skilvirkum hætti þau verkefni og markmið sem sett eru fram í Vegvísinum til næstu fimm ára svo leggja megi traustan grunn fyrir greinina. Þá er sérstaklega mikilvægt að fá öll ráðuneytin, sem helst koma að ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti, saman að borðinu. Fjöldi snertiflata ferðaþjónustunnar breytist þess vegna ekki endilega en vinnan á milli þeirra verður samhæfðari með tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála.
    Á bls. 12–13 í Vegvísinum er fjallað um samhæfingu stofnana, einföldun verklags, einföldun og samræmingu laga og reglugerða, samhæfingu verkferla og umbætur í stjórnsýslunni. Þar kemur fram að eitt af markmiðunum sé aukin skilvirkni stjórnsýslunnar.
    Frá því að ríkisstjórnin tók til starfa hefur verið unnið markvisst að því af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að einfalda lagaumhverfi ferðaþjónustunnar og gera það skilvirkara. Eins og fram kemur Vegvísinum þá er eitt af forgangsmálum í verkefnaáætlun 2016–17 að „einfalda regluverk í ferðaþjónustu enn frekar …“. Í framhaldinu og í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður unnið að einföldun regluverks sem heyrir undir önnur svið.

     2.      Hvernig breytist verksvið Ferðamálastofu, ferðamálaráðs og Íslandsstofu með tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála?
    Stjórnstöð ferðamála er samræmingarvettvangur stjórnvalda og ferðaþjónustunnar. Með Vegvísi í ferðaþjónustu og tilkomu Stjórnstöðvar ferðamála er ekki verið að breyta verksviði þeirra stofnana sem að ferðaþjónustu koma. Ekki er útilokað að breytingar kunni að verða lagðar til eftir því sem vinnu Stjórnstöðvar vindur fram til þess að tryggja megi bætt verklag, samstarf allra aðila og vinnubrögð. Um það er of snemmt að fullyrða þar sem vinnan er á byrjunarstigi.