Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 583  —  195. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um brot á banni við kaupum á vændi.


     1.      Telur ráðherra að breyta þurfi löggjöf svo að meginreglan um að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála, verði virt í málum vegna brota á 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga? Ef ekki, hvað þarf þá til að meginreglan sé virt af dómstólum? Ef svo er, hyggst ráðherra leggja til slíka breytingu á lögum?
    Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar skal dómþing háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Regla þessi er áréttuð og nánar útfærð í 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála, en þar kemur m.a. fram að dómari geti ákveðið, að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola, að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta, ef það er háð utan reglulegs þingstaðar, sakborningur er yngri en 18 ára, eða dómari telur það annars nauðsynlegt af nánar tilgreindum ástæðum, þar á meðal ef hann telur það nauðsynlegt til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála.
    Löggjafinn hefur þannig fengið dómara heimild til að víkja frá meginreglunni um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði. Eðli málsins samkvæmt verður ákvörðun dómara um það hvort loka eigi þinghaldi ávallt undirorpin mati í ljósi atvika þess máls sem til meðferðar er hverju sinni. Það er svo í valdi æðsta dómstóls ríkisins, Hæstaréttar, að endurskoða ákvörðun héraðsdómara um hvort þinghald skuli fara fram fyrir luktum dyrum en úrskurði héraðsdóms um að þinghald skuli vera lokað verður skotið til Hæstaréttar Íslands. Rétt er að árétta í því sambandi að Hæstiréttur hefur kveðið á um að undantekningar frá meginreglunni um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði beri að skýra þröngt. Með þessum hætti er eftirlit með því að meginreglan um opin þinghöld sé virt af dómstólum.

     2.      Hefur lögreglan fullnægjandi rannsóknarheimildir til að rannsaka brot á 1. mgr. 206. gr. hegningarlaga? Ef ekki, hyggst ráðherra leggja til breytingar á lögum svo að lögreglu sé gert kleift að rannsaka með fullnægjandi hætti brot af þessu tagi?
    Brot gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, varða sektum eða fangelsi allt að einu ári. Dómar hafa verið kveðnir upp í tugum mála vegna þessara brota samkvæmt upplýsingum embættis ríkissaksóknara. Í öllum tilvikum hefur dæmd refsing verið sekt.
    Heimildir lögreglu til að rannsaka brot gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga eru þær sömu og varðandi önnur brot sem ekki liggja þungar refsingar við. Símhlustun og önnur sambærileg úrræði, sbr. XI. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eru þar undanskilin nema um ríka almanna- eða einkahagsmuni sé að ræða, en brot sem rannsókn beinist að samkvæmt þeim kafla þurfa annars að varða 8 ára fangelsi.

     3.      Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að afla upplýsinga um umfang vændis á Íslandi?
    Af hálfu ráðuneytisins hafa ekki verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að afla upplýsinga um umfang vændis á Íslandi. Ríkislögreglustjóri gefur hins vegar reglulega út afbrotatölfræði þ.m.t. vegna brota á ákvæðum 206. gr. almennra hegningarlaga.