Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 623  —  425. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um tölvutækt snið þingskjala.


Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis í samráði við forsætisnefnd að skipa vinnuhóp sem móti tillögur að innleiðingu þeirra breytinga að þingskjöl sem birta skal í Alþingistíðindum, sbr. 90. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, verði gefin út á tölvutæku sniði þannig að lög, kaflar í lögum, lagagreinar, málsgreinar, málsliðir, töluliðir o.s.frv., svo og tilvísanir til reglugerða, laga, úrskurða, dóma og annars þess háttar, verði aðgreinanleg með tölvutækum hætti. Jafnframt verði lagasafnið uppfært með sama hætti.
    Vinnuhópurinn verði skipaður þremur fulltrúum, þar af a.m.k. einum löglærðum og einum sérfræðingi á sviði tölvutækni. Forsætisráðuneytið, innanríkisráðuneytið og forsætisnefnd komi sér saman um skipan hópsins. Hópurinn verði skipaður fyrir 1. maí 2016 og kynni forseta Alþingis tillögur sínar fyrir árslok 2016.

Greinargerð.

    Með þessari þingsályktunartillögu er ætlunin að stuðla að því að þingskjöl verði tæknilega þannig úr garði gerð að unnt verði að hanna tölvuforrit sem geti aðgreint og skilið tilvísanir til einstakra lagagreina, málsgreina, málsliða o.fl. þess háttar, svo og tilvísanir til reglugerða og lagabálka, dóma, opinberra úrskurða o.s.frv. Heimildir til að setja reglur sem nýta mætti til þessa er að finna í 4. mgr. 90. gr. þingskapalaga fyrir forseta Alþingis og í 3. mgr. 7. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, fyrir innanríkisráðherra. Gert er ráð fyrir að skipaður verði vinnuhópur sem fjalli um nánari útfærslur verkefnisins, þar á meðal hvort setning nýrra reglna sé nauðsynleg og ef svo er, hvor þessara leiða sé hentugri.
    Flutningsmenn tillögunnar telja að með þessu verði stigið mikilvægt framfaraskref samfara sífelldri og örri tækniþróun í þá átt að fullnýta þá möguleika sem þróunin býður upp á. Útgáfa þingskjala á tölvutæku sniði mundi t.d. opna fyrir möguleika á hönnun tölvuforrita sem gætu með skilvirkari hætti en nú er unnt gert þeim sem vinna með þingmál kleift að taka saman, greina og meðhöndla mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi. Jafnframt yrði hægt að skrifa tölvuforrit sem gæti greint og rakið þegar gera á breytingar með breytingartillögum eða frumvörpum til laga um breytingar á gildandi rétti. T.d. yrði unnt að láta þannig forrit fylgjast með tilteknum hlutum gildandi laga og gera viðvart þegar lagt væri fram þingskjal sem hefði áhrif þar á. Þannig mætti auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum á tilteknum sviðum að fylgjast með afmörkuðum þáttum gildandi réttar sem auðsjáanlega stuðlar að auknu réttaröryggi.
    Flutningsmenn tillögunnar telja einsýnt að samhliða auknum möguleikum á nýtingu tölvutækninnar í þessa veru skapist ný tækifæri til að auka gæði lagasetningar með skilvirkari hætti en áður hefur verið unnt.