Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 632  —  293. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni
um framtíð starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni.

    Við frágang svars við fyrirspurninni leitaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Háskóla Íslands, enda er málið á hans forræði.

     1.      Hver eru áform stjórnvalda um framtíð starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni?
     2.      Eru uppi hugmyndir um að flytja starfsemina í burtu?

    Síðastliðið vor ákvað þáverandi rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, að fela nefnd sem skipuð var starfsmönnum stjórnsýslu Háskóla Íslands að fara yfir málefni grunnnáms í íþrótta- og heilsufræði að Laugarvatni, en aðsókn að náminu hefur minnkað mikið undanfarin ár og mikilvægt að brugðist verði við þeirri þróun. Nefndin hefur í starfi sínu rætt m.a. við stjórnendur, kennara og fulltrúa nemenda námsbrautarinnar, auk sveitarstjórnarfólks á svæðinu og skilað greinargerð til rektors og háskólaráðs. Í framhaldi af greinargerð nefndarinnar samþykkti háskólaráð Háskóla Íslands eftirfarandi á fundi 3. september sl.:
    „Samþykkt einróma að fela rektor að skipa starfshóp til að fara yfir þá valkosti sem tilgreindir eru í skýrslunni varðandi framtíð náms, kennslu og rannsókna í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands ásamt framkomnum athugasemdum. Í þessu felst að greina faglegar og fjárhagslegar forsendur, staðsetningu og þörf fyrir húsnæði, búnað og aðstöðu. Starfshópurinn hafi samráð við fræðasvið Háskólans og fulltrúa nemenda og hraði vinnunni eins og kostur er og geri grein fyrir stöðunni á næsta fundi háskólaráðs. Formaður hópsins verði Guðmundur R. Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs.“
    Núverandi rektor, Jón Atli Benediktsson, skipaði hópinn og í honum eru:
     1.      Guðmundur R. Jónsson, formaður,
     2.      Ástríður Stefánsdóttir, dósent og deildarforseti íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar,
     3.      Björg Gísladóttir, rekstrarstjóri á Menntavísindasviði,
     4.      Hafþór B. Guðmundsson. lektor við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild,
     5.      Janus F. Guðlaugsson, lektor við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild,
     6.      Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild,
     7.      Andri Rafn Ottesen, fulltrúi nemenda,
     8.      Sigurlaug Lövdahl, framkvæmda- og tæknisviði, ritari nefndarinnar.
    Að auki hefur Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, setið fundi nefndarinnar í fjarveru Hafþórs B. Guðmundssonar.
    Ekki liggur fyrir hvenær hópurinn nær að ljúka störfum en lögð er áhersla á að það verði fyrir næstu áramót. Í kjölfarið mun háskólaráð taka ákvörðun um framtíðarskipulag grunnnáms íþrótta- og heilsufræði innan Háskóla Íslands, þar á meðal staðsetningu þess.

     3.      Standa yfir viðræður við Háskólafélag Suðurlands um samstarf um átaksverkefni til að efla starfsemi HÍ á Laugarvatni?
    Ekki standa yfir viðræður á milli Háskóla Íslands og Háskólafélags Suðurlands um samstarf um átaksverkefni til að efla starfsemi Háskóla Íslands að Laugarvatni, en Háskóli Íslands mun fagna öllum raunhæfum hugmyndum í þá veru. Háskóli Íslands hefur áður lýst yfir áhuga á samstarfi við Háskólafélag Suðurlands um sameiginleg verkefni á ýmsum sviðum, m.a. í samtali við sveitarstjórnarfólk á Suðurlandi.