Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 735  —  395. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um nefndir sem unnu að undirbúningi millidómstigs.


     1.      Hversu margar nefndir, skipaðar af ráðherra, unnu að undirbúningi að millidómstigi?
     2.      Hverjir skipuðu þær og hvenær?
    Lengi hafa verið uppi hugmyndir um að koma á fót þriðja dómstiginu á Íslandi. Hafa nokkrar nefndir verið skipaðar til að skoða nauðsyn á slíku dómstigi og kosti þess og galla. 30. nóvember 2007 skipaði Björn Bjarnason, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd til að fjalla um hvernig tryggja mætti milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála. Skilaði nefndin skýrslu sinni í október 2008 og var niðurstaða hennar sú að komið yrði á fót millidómstigi þar sem leyst yrði úr sakamálum og sönnunarfærsla færi fram á nýjan leik. Þessi nefnd var skipuð Rögnu Árnadóttur, þáverandi skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Ragnheiði Harðardóttur, þáverandi vararíkissaksóknara, Símoni Sigvaldasyni, þáverandi dómara við héraðsdóm Reykjavíkur, og Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni. Í desember 2010 skipaði Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, vinnuhóp til að taka til skoðunar þörf á að setja á fót millidómstig hér á landi sem tæki bæði til sakamála og einkamála, kosti þess og galla og hvernig millidómstigi væri best fyrir komið auk þess að leggja mat á kostnað því samfara. Skilaði nefndin skýrslu sinni í júní 2011. Vinnuhópinn skipuðu Sigurður Tómas Magnússon prófessor, Ása Ólafsdóttir lektor, Benedikt Bogason, þáverandi héraðsdómari, og Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs. Í ágúst 2013 skipaði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, nefnd til að semja reglur um skipan og starfsemi dómstóla, upptöku millidómstigs og fyrirkomulag við skipan dómara. Skilaði nefndin ráðherra drögum að lagafrumvörpum í febrúar 2015. Nefndina skipuðu Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður, Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari og Hafsteinn Þór Hauksson dósent. Frumvarpsdrögin voru tekin til áframhaldandi vinnslu í ráðuneytinu og var Sigurður Tómas Magnússon prófessor fenginn til verksins ásamt starfsmanni ráðuneytisins auk rýnihóps ýmissa hagaðila. Frumvarpsdrög voru birt á vef ráðuneytisins til umsagnar 15. janúar sl.

     3.      Hver var kostnaður við nefndirnar, hverja fyrir sig?
    Kostnaður við nefnd sem skipuð var árið 2007 var kr. 441.936.
    Kostnaður við nefnd sem skipuð var árið 2011 var kr. 702.000.
    Kostnaður við nefnd sem skipuð var árið 2013 var kr. 7.304.885.

     4.      Hver var kostnaður við aðkeypta ráðgjafaþjónustu, skipt eftir nefndum?
    Sigurður Tómas Magnússon fékk greitt kr. 1.800.000 fyrir sína vinnu við gerð frumvarpa um millidómstig sem nú eru til umsagnar.