Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 813  —  394. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um hjúkrunarrými.


     1.      Hversu mörg hjúkrunarrými eru nú á Íslandi?
    Í desember 2015 voru 2.646 hjúkrunarrými á Íslandi. Eru þá talin með 11 ný hjúkrunarrými sem bættust um áramótin 2015–2016 við þau 19 hjúkrunarrými sem fyrir voru á Ísafirði. Af þessum 2.646 rýmum eru 365 rekin af heilbrigðisstofnunum.

     2.      Hve mörg eru tvímenningsrými, hvar eru þau á landinu og hversu mörg á hverjum stað fyrir sig, sundurliðað eftir sveitarfélögum?
    Velferðarráðuneytið safnar ekki reglubundið upplýsingum um fjölda einbýla og fjölbýla. Því var send út fyrirspurn til rekstraraðila hjúkrunarrýma og er svarið nálgun út frá þeim upplýsingum sem bárust. Af 2.646 rýmum bárust svör vegna 2.639 rýma. Af þeim eru 2.133 einbýli, 469 rými teljast tvíbýli og 33 teljast þríbýli. Því er ljóst að um 81% íbúa í hjúkrunarrýmum eru í einbýlum. Flest fjölbýlin eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem 330 af 502 fjölbýlum eru. Af þessum 502 fjölbýlum er 33 þríbýli og af þeim eru 30 á höfuðborgarsvæðinu. Meðfylgjandi fylgiskjal sýnir nánar fjölda og staðsetningu rýma eftir sveitarfélögum.

     3.      Hver yrði kostnaðurinn við að breyta þessum tvímenningsrýmum í einmenningsrými?
    Miðað við framangreindar tölur eru 502 hjúkrunarrými á landinu öllu sem enn teljast til tví- eða þríbýla. Til að breyta þessum 502 hjúkrunarrýmum í einbýli þyrfti því að byggja um 250 ný hjúkrunarrými. Gróflega áætlað kostar hvert nýtt hjúkrunarrými í byggingu um 28 millj. kr. eða um 7 milljarða kr. að byggja þessi 250 hjúkrunarrými.

     4.      Liggur fyrir áætlun um útrýmingu tvímenningsrýma á hjúkrunarheimilum? Ef svo er, hver er tímaramminn fyrir þá áætlun?
    Framkvæmdaáætlun um byggingu nýrra hjúkrunarrýma, sem unnið hefur verið eftir síðustu ár, nær bæði til þess að fjölga hjúkrunarrýmum og bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum þó megináhersla sé lögð á fjölgun rýma enda þörfin mjög brýn. Sú krafa er gerð að allar nýjar byggingar fyrir hjúkrunarrými séu byggðar í samræmi við lágmarksviðmið ráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Í þeim viðmiðum er gerð sú krafa að hver íbúi hafi ákveðið einkarými fyrir sig. Frá því þau viðmið voru sett fram hefur einbýlum því jafnt og þétt farið fjölgandi síðustu ár. Ný framkvæmdaáætlun til ársins 2020 gerir ráð fyrir að haldið sé áfram á þeirri braut bæði við að bæta aðbúnað íbúa og fjölga rýmum.
    Kostnaður við að útrýma öllum fjölbýlum er umtalsverður og er til viðbótar við þann kostnað sem felst í að fjölga hjúkrunarrýmum í samræmi við þörf þar um. Umfang framkvæmda um byggingu nýrra hjúkrunarrýma hvort sem er til að bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum eða til að fjölga hjúkrunarrýmum byggist síðan á því fjármagni sem Alþingi veitir til málefnisins.

Öldrunarheimili og stofnanir Sveitarfélög Fjöldi hjúkrunarrýma Einbýli Tvíbýli Þríbýli
Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins
Droplaugarstaðir, hjúkrunarheimili Reykjavík 82 82 0 0
Eir, hjúkrunarheimili Reykjavík 173 91 58 24
Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili Reykjavík 181 147 28 6
Hrafnista, dvalar- og hjúkrunarheimili Reykjavík 197 171 26 0
Seljahlíð, hjúkrunarheimili Reykjavík 20 18 2 0
Skjól, hjúkrunarheimili Reykjavík 107 69 38 0
Skógarbær, hjúkrunarheimili Reykjavík 81 61 20 0
Sóltún, hjúkrunarheimili Reykjavík 92 92 0 0
Mörk, hjúkrunarheimili Reykjavík 113 113 0 0
Hrafnista, dvalar- og hjúkrunarheimili Hafnarfjörður 158 118 40 0
Sólvangur, hjúkrunarheimili Hafnarfjörður 58 4 54 0
Ísafold, Garðabæ Garðabær 60 60 0 0
Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili Kópavogur 70 36 34 0
Boðaþing, hjúkrunarheimili Kópavogur 44 44 0 0
Roðasalir, hjúkrunar og dagvist hb Kópavogur 11 11 0 0
Hjúkrunarheimilið, Hamrar Mosfellsbær Mosfellsbær 30 30 0 0
Heildarfjöldi rýma: 1.477 1.147 300 30
Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Víðihlíð, Grindavík Grindavíkurbær 20 10 10 0
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Keflavík Reykjanesbær 5 5 0 0
Nesvellir, Reykjanesbæ Reykjanesbær 60 60 0 0
Hlévangur, hjúkrunarheimili Reykjanesbær 30 30 0 0
Heildarfjöldi rýma: 115 105 10 0
Heilbrigðisumdæmi Vesturlands
Höfði, dvalar- og hjúkrunarheimili, Akranesi Akranes 56 56 0 0
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi Borgarbyggð 35 35 0 0
Jaðar, hjúkrunar- og dvalarheimili, Ólafsvík Snæfellsbær 12 12 0 0
Fellaskjól, hjúkrunar- og dvalarheimili, Grundarfirði Grundarfjarðarbær 10 10 0 0
Dvalarheimili aldraðra, Stykkishólmi Stykkishólmur 13 13 0 0
Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Stykkishólmi Stykkishólmur 7 7 0 0
Silfurtún, hjúkrunar- og dvalarheimili, Dalabyggð Dalabyggð 10 10 0 0
Fellsendi, hjúkrunarheimili, Dalabyggð Dalabyggð 26 26 0 0
Barmahlíð, dvalar- og hjúkrunarheimili Reykhólahreppur 14 14 0 0
Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hólmavík Strandabyggð 10 8 2 0
Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hvammstanga Húnaþing vestra 18 18 0 0
Heildarfjöldi rýma: 211 209 2 0
Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða
Heilbrigðisstofnun Patreksfirði Vesturbyggð 11 6 2 3
Heilbrigðisstofnun Þingeyri Þingeyri 6 2 4 0
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði Ísafjarðarbær 30 30 0 0
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Bolungarvík Bolungarvík 10 10 0 0
Heildarfjöldi rýma: 57 48 6 3
Heilbrigðisumdæmi Norðurlands
Heilbrigðisstofnun Blönduósi Blönduóssbær 22 6 16 0
Sæborg, dvalar- og hjúkrunarheimili Sveitarfélagið Skagaströnd 7 7 0 0
Heilbrigðisstofnun Sauðárkróki Sveitarfélagið Skagafjörður 45 37 8 0
Heilbrigðisstofnun Fjallabyggð, Siglufirði Fjallabyggð 20 18 2 0
Hornbrekka, hjúkrunar- og dvalarheimili, Ólafsfirði Fjallabyggð 18 8 10 0
Dalbær, hjúkrunar- og dvalarheimili, Dalvík Dalvíkurbyggð 25 25 0 0
Sjúkrahúsið á Akureyri Akureyri 7 - - -
Öldrunarheimili Akureyrar Akureyri 169 169 0 0
Grenilundur, Grenivík Grýtubakkahreppur 6 6 0 0
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga Norðurþing 23 7 16 0
Hvammur, hjúkrunar- og dvalarheimili, Húsavík Norðurþing 27 27 0 0
Naust, dvalar- og hjúkrunarheimili, Þórshöfn Langanesbyggð 10 10 0 0
Heildarfjöldi rýma: 379 320 52 0
Heilbrigðisumdæmi Austurlands
Sundabúð, Vopnafirði Vopnafjarðarhreppur 10 4 6 0
Heilbrigðisstofnun Austurlands, Egilsstöðum Fljótsdalshérað 30 30 0 0
Heilbrigðisstofnun Austurlands, Seyðisfirði Seyðisfjörður 18 18 0 0
Hulduhlíð, hjúkrunar- og dvalarheimili, Eskifirði Fjarðabyggð 20 20 0 0
Heilbrigðisstofnun Austurlands, Neskaupstaður Fjarðabyggð 12 2 10 0
Uppsalir, hjúkrunar- og dvalarheimili, Fáskrúðsfirði Fjarðabyggð 15 3 12 0
Heildarfjöldi rýma: 105 77 28 0
Heilbrigðisumdæmi Suðurlands
Ás/Ásbyrgi, hjúkrunar- og geðrými Hveragerði 77 57 20 0
Sólvellir, hjúkrunar- og dvalarheimili, Eyrabakka Sveitarfélagið Árborg 5 5 0 0
Kumbaravogur, hjúkrunar- og dvalarheimili, Stokkseyri Sveitarfélagið Árborg 34 19 15
Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Selfossi Sveitarfélagið Árborg 40 40 0 0
Blesastaðir, hjúkrunar- og dvalarheimili, Skeiðum Skeiða- og Gnúpverjahreppur 5 5 0 0
Lundur, hjúkrunar- og dvalarheimili, Hellu Rangárþing ytra 30 16 12 0
Kirkjuhvoll, hjúkrunar- og dvalarheimili, Hvolsvelli Rangárþing eystra 24 24 0 0
Hraunbúðir, hjúkrunar- og dvalarheimili Vestmannaeyjar 28 24 2 0
Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyjum Vestmannaeyjar 7 7 0 0
Hjallatún, hjúkrunar- og dvalarheimili í Vík Mýrdalshreppur 12 12 0 0
Klausturhólar, hjúkrunar- og dvalarheimili, Kirkjubæjarklaustri Skaftárhreppur 16 16 0 0
Heilbrigðisstofnun Suð-Austurlands Sveitarfélagið Hornafjörður 24 2 22 0
Heildarfjöldi rýma: 302 227 71 0
Heildarfjöldi allra rýma: 2.646 2.133 469 33