Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 861  —  243. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni
um rannsökuð mál hjá Samkeppniseftirlitinu.


    Óskað var eftir upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu. Svarið er byggt á þeim upplýsingum sem bárust.

     1.      Hversu mörg mál hefur Samkeppniseftirlitið tekið formlega til rannsóknar frá því að stofnunin tók til starfa 1. júlí 2005 og hversu margir aðilar hafa verið til rannsóknar?
    Frá stofnun Samkeppniseftirlitsins 1. júlí 2005 hafa 1.615 stjórnsýslumál komið til meðferðar, eða um 150 mál á ári. Í rúmlega helmingi málanna, eða í um 846 málum, hefur Samkeppniseftirlitið beitt heimild sinni til að kalla eftir gögnum og þar með hafið rannsókn af einhverju tagi. Hér undir eru einnig tilkynningar um samruna og rannsóknir á grundvelli þeirra.
    Í rúmlega 40% tilvika, eða í um 670 málum, hefur Samkeppniseftirlitið hafnað rannsókn og/eða svarað fyrirspurnum og veitt leiðbeiningar, án þess að til sjálfstæðrar gagnaöflunar hafi komið vegna málsins. Skv. 8. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, er Samkeppniseftirlitinu ætlað að meta hvort erindi sem berst stofnuninni gefi nægar ástæður til rannsóknar og raða málum í forgangsröð.
    Í tæplega 100 tilvikum af framangreindum heildarfjölda mála er um að ræða svokölluð eftirfylgnimál, sem stofnað er til í því skyni að fylgjast með því hvort og hvernig farið er að ákvörðunum sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar tekið. Þessi mál voru einkum stofnuð á árunum eftir hrun til þess að fylgja eftir skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti bönkum vegna yfirtöku þeirra á atvinnufyrirtækjum.

     2.      Hversu mörgum málum hefur Samkeppniseftirlitið lokið með:
                  a.      kæru til lögreglu,
                  b.      niðurfellingu,
                  c.      stjórnvaldssekt,
                  d.      sátt?

     a.      Samkeppniseftirlitið hefur í tveimur málum kært hugsanleg brot einstaklinga til lögreglu. Samkvæmt 42. gr. samkeppnislaga er það lagt á herðar Samkeppniseftirlitsins að meta með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort sá hluti máls er varðar refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Hvort sakamálarannsókn hefst í kjölfar kæru Samkeppniseftirlitsins er alfarið háð mati lögreglu.
     b.      Um 85% mála hjá Samkeppniseftirlitinu lauk án íhlutunar, eða um 1.150 málum frá miðju ári 2005. Þar af hefur Samkeppniseftirlitið hafnað því að taka rúmlega 150 mál til rannsóknar. Þótt ekki hafi komið til íhlutunar í framangreindum málum hefur Samkeppniseftirlitið í mörgum tilvikum beint einhvers konar tilmælum eða leiðbeiningum til aðila.
     c.      Samkeppniseftirlitið hefur lokið 54 málum með sektum á hendur 63 fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja.
     d.      97 málum hefur lokið með sátt á grundvelli 17. gr. f. samkeppnislaga.

     3.      Hversu háar fjárhæðir hafa runnið í ríkissjóð vegna mála sem lokið hefur verið með sátt?
    Stjórnvaldssektir fyrirtækja sem gert hafa sátt við Samkeppniseftirlitið um lyktir máls nema 4.070 millj. kr.

     4.      Hversu háar sektarfjárhæðir hafa verið ákvarðaðar í þeim málum sem Samkeppniseftirlitið hefur lokið með beitingu stjórnvaldssekta og hversu mörg þeirra mála hafa verið kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála?
    Frá miðju ári 2005 hefur Samkeppniseftirlitið sektað 63 fyrirtæki eða samtök fyrirtækja fyrir brot á samkeppnislögum. Stjórnvaldssektir ákvarðaðar af Samkeppniseftirlitinu nema samtals um 8.005 millj. kr. Í 29 tilvikum hafa sektir komið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

     5.      Hversu mörgum þeirra mála sem kærð hafa verið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála hefur nefndin lokið með því að:
                  a.      staðfesta ákvörðun Samkeppniseftirlitsins,
                  b.      breyta sektarfjárhæð,
                  c.      fella ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi?
    91 mál hefur verið kært til áfrýjunarnefndar, sum oftar en einu sinni, einkum þegar ágreiningur er um meðferð málsins undir rekstri þess. Endanleg niðurstaða máls (efni máls) hefur verið kærð til áfrýjunarnefndar í 82 málum.
     a.      Af framangreindum 82 málum hefur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið staðfest að öllu leyti í 49 tilvikum.
     b.      Í 15 tilvikum hefur sektarfjárhæðum verið breytt. Í fjórum málum hefur kæru verið vísað frá.
     c.      Þá hefur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið felld úr gildi í 14 málum.

     6.      Hversu háar sektarfjárhæðir hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákveðið þegar hún hefur úrskurðað um þær og hvaða fjárhæðir hafði Samkeppniseftirlitið ákveðið upphaflega?
    Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fjallað um stjórnvaldssektir að fjárhæð samtals 4.153 millj. kr. í 29 tilvikum á tímabilinu. Heildarfjárhæð viðkomandi sekta eftir úrskurði nefndarinnar nemur 2.579 millj. kr. Hefur nefndin staðfest óbreyttar sektir í 13 tilvikum, en lækkað eða fellt niður sektir í 16 tilvikum.
    Í svörum Samkeppniseftirlitsins sem bárust ráðuneytinu er sektum ekki raðað eftir því hvenær ákvörðun var tekin heldur miðað við upphafsár rannsóknar. Þannig teljast mál sem hófust t.d. 2009 og lauk 2012 hafa verið tekin fyrir á árinu 2009. Neðangreind sundurliðun miðast við þessa forsendu:
          Árið 2005 voru engar sektir ákvarðaðar.
          Árið 2006 voru sektir Samkeppniseftirlitsins sem bornar voru undir áfrýjunarnefnd 1.230 millj. kr. en sektir eftir endurskoðun voru 887 millj. kr.
          Árið 2007 voru sektir Samkeppniseftirlitsins 282 millj. kr. en sektir eftir endurskoðun áfrýjunarnefndarinnar voru 151 millj. kr.
          Árið 2008 voru sektir ákvarðaðar af Samkeppniseftirlitinu 466 millj. kr. en þær voru lækkaðar í 408 millj. kr.
          Árið 2009 voru sektir Samkeppniseftirlitsins og áfrýjunarnefndarinnar jafnháar, 745 millj. kr.
          Árið 2010 voru sektir Samkeppniseftirlitsins 40 millj. kr. en 8 millj. kr. eftir endurskoðun áfrýjunarnefndarinnar.
          Árið 2011 voru sektir Samkeppniseftirlitsins 720 millj. kr. en þær voru lækkaðar í 80 millj. kr.
          Árið 2012 voru sektir jafnháar, eða 300 millj. kr.
          2013 voru sektir Samkeppniseftirlitsins 370 millj. kr. en eftir endurskoðun voru þær 0 kr.
          Engar sektir voru lagðar á 2014 og 2015.

     7.      Hve oft hafa mál verið höfðuð fyrir dómstólum um ógildingu úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála, hve mörg þeirra höfðaði Samkeppniseftirlitið og hver var niðurstaða dómstóla í þessum málum?
    Svör óskast sundurliðuð eftir árum. Svör við 6. og 7. tölul. óskast jafnframt sundurliðuð eftir einstökum málum.

    Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt 18 dóma þar sem efnisniðurstaða í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála var prófuð. Aðeins í einu tilviki hefur Samkeppniseftirlitið höfðað slíkt mál fyrir dómi, í öllum öðrum tilvikum hefur mál verið höfðað af viðkomandi fyrirtæki sem var til rannsóknar eða því fyrirtæki sem lagði fram upphaflega kvörtun í málinu.
    Í tíu tilvikum hefur úrskurður áfrýjunarnefndar verið staðfestur að öllu leyti og í einu tilviki var máli vísað frá dómi. Í þremur tilvikum var úrskurður staðfestur að hluta. Í fjórum tilvikum var úrskurður áfrýjunarnefndar felldur úr gildi.
    Hæstiréttur Íslands hefur fellt 16 dóma þar sem niðurstaða héraðsdóms í framangreindum málum var prófuð. Í einu tilviki var máli vísað frá, í sjö tilvikum var dómur héraðsdóms staðfestur að öllu leyti og í fjórum tilvikum var dómur staðfestur að hluta. Hæstiréttur hefur fellt dóm héraðsdóms úr gildi í þremur tilvikum.
    Ef horft er sérstaklega til stjórnvaldssekta sem fengið hafa prófun fyrir dómstólum, kemur í ljós að heildarfjárhæð sekta sem borin hefur verið undir héraðsdóm nemur 1.461 millj. kr., gagnvart 13 fyrirtækjum. Heildarfjárhæð viðkomandi sekta samkvæmt dómum héraðsdóms nemur 1.050 millj. kr. Voru sektir áfrýjunarnefndar staðfestar í sjö tilvikum en lækkaðar eða felldar niður í sex tilvikum.
    Stjórnvaldssektir að fjárhæð 580 millj. kr. gagnvart átta fyrirtækjum hafa verið bornar undir Hæstarétt Íslands. Heildarfjárhæð sekta hefur hækkað í meðförum Hæstaréttar, í samtals 765 millj. kr. Þannig hafa sektir hækkað hjá fjórum fyrirtækjum, verið staðfestar hjá þremur fyrirtækjum og lækkaðar hjá tveimur.
          Árið 2005 var fjórum málum skotið til héraðsdóms, í tveimur þeirra var úrskurður áfrýjunarnefndar staðfestur og í einu máli var hann staðfestur að hluta og í því síðasta var úrskurðurinn felldur úr gildi.
          Árið 2006 var þremur málum skotið til héraðsdóms, í tveimur málum var niðurstaða áfrýjunarnefndar staðfest en felld úr gildi í einu máli.
          Árið 2007 fóru þrjú mál fyrir héraðsdóm, tvisvar sinnum var staðfest niðurstaða áfrýjunarnefndar og eitt sinn var hún staðfest að hluta.
          Árið 2008 fóru tvö mál fyrir héraðsdóm, einn úrskurður var staðfestur og annar felldur úr gildi.
          Árið 2009 reyndi á úrskurð í fjórum málum, tvisvar var úrskurður staðfestur, einu sinni var úrskurður staðfestur að hluta og einu sinni var úrskurður felldur úr gildi.
          Árið 2010 reyndi ekki á efnisniðurstöðu máls fyrir héraðsdómi.
          Árið 2011 var eitt mál lagt fyrir dóm og í því máli var úrskurðurinn staðfestur.
          Árin 2012–2015 reyndi ekki á efnisniðurstöðu máls fyrir héraðsdómi ef frá er talið að einu máli var vísað frá dómi árið 2013.
    Á sama tímabili og greinir hér að framan reyndi með eftirfarandi hætti á mál fyrir Hæstarétti:
          Árið 2005 fóru fjögur mál fyrir Hæstarétt, einu máli var frávísað, dómur héraðsdóms var staðfestur í öðru, dómur var staðfestur að hluta í því þriðja og í því fjórða var dómur héraðsdóms felldur úr gildi.
          Árið 2006 var dómi héraðsdóms áfrýjað þrisvar sinnum, tvisvar sinnum var dómur staðfestur og einu sinni var hann staðfestur að hluta.
          Árið 2007 var fjórum dómum áfrýjað og þrír voru staðfestir og sá seinasti var staðfestur að hluta.
          Árið 2008 var einu máli áfrýjað til Hæstaréttar og sá dómur var felldur úr gildi.
          Árið 2009 var tveimur málum áfrýjað og eitt var staðfest að hluta og í hinu var dómur felldur úr gildi.
          Árið 2010 var engin dómur sem varðaði efnisniðurstöðu í samkeppnismáli.
          Árið 2011 var einu máli áfrýjað og sá dómur var staðfestur.
          Árið 2012 var engin dómsniðurstaða sem varðaði efnisniðurstöðu í samkeppnismáli.
          Árið 2013 var kveðinn upp einn dómur og þar var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
          Árin 2014–2015 var ekki kveðin upp dómur sem varðar efnisniðurstöðu í samkeppnismáli.