Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 899  —  535. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar
verndar- og orkunýtingaráætlunar.


     1.      Frá hverjum bárust ábendingar um breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem á vefsíðu ráðuneytisins eru sagðar hafa leitt til þess að ákveðið hefur verið að leggja til breytingar á reglunum?
    Umhverfis- og auðlindaráðherra átti 17. ágúst 2015 fund með Landsvirkjun þar sem fyrirtækið lagði fram ítarlegar athugasemdir við nýsamþykktar starfsreglur verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar. Erindi Landsvirkjunar var svarað, eins og öðrum stjórnsýsluerindum, 7. desember 2015. Hinn 24. september 2015 voru fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis og formaður verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar boðaðir á fund atvinnuveganefndar Alþingis. Á þeim fundi voru gerðar athugasemdir við ákveðna þætti starfsreglnanna, bæði af öðrum fundargestum sem og nefndarmönnum. Á þeim fundi var því beint til ráðuneytisins að fara yfir þær athugasemdir sem gerðar höfðu verið og skoða hvort þörf væri á að gera breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar. Annar slíkur fundur var haldinn 6. október 2015 og voru fulltrúar ráðuneytisins auk formanns verkefnisstjórnar einnig viðstaddir hann.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vann í kjölfarið drög að breytingum á ákveðnum þáttum starfsreglna verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar. Drögin voru send verkefnisstjórn til umsagnar 11. janúar 2016 og sama dag til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, í samræmi við ákvæði 6. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011. Í kjölfarið bárust athugasemdir bæði frá verkefnisstjórn og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Lokadrög að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar voru auglýst á vef ráðuneytisins 2. febrúar 2016 til almennra umsagna, og eftir að beiðnir bárust um lengri umsagnarfrest var hann framlengdur til 22. febrúar. Á umsagnartímanum óskaði Landvernd eftir því að funda með ráðuneytinu vegna þeirra draga sem auglýst voru á heimasíðu ráðuneytisins. Sá fundur átti sér stað 17. febrúar sl.

     2.      Hafði ráðherra frumkvæði að því að ábendingarnar væru gerðar og ef svo er, við hverja var haft samband og hvernig?
    Nei, ráðherra hafði ekki frumkvæði að því að ábendingar væru gerðar.

     3.      Hvenær og hvernig bárust umræddar ábendingar? Eru til skrifleg og rafræn gögn um þær og feril þeirra í ráðuneytinu og hvaða gögn eru það, hver er sendandi þeirra og hver viðtakandi? Er verkefnisstjórn meðal þeirra sem fengu ábendingarnar eða var gert viðvart um þær?
    Skriflegar athugasemdir bárust frá Landsvirkjun 17. ágúst 2015. Að auki bárust skriflegar athugasemdir frá Samorku 7. október 2015 í kjölfar fundar atvinnuveganefndar Alþingis 24. september 2015. Formaður verkefnisstjórnar var viðstaddur fyrrnefnda fundi atvinnuveganefndar. Skriflegar athugasemdir sem borist hafa ráðuneytinu hafa ekki verið sendar formlega til verkefnisstjórnar en þær hafa verið ræddar á upplýsingafundum ráðherra og formanns verkefnisstjórnar.