Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 900  —  532. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um endurskoðun starfsreglna verkefnisstjórnar um rammaáætlun.


     1.      Hefur verið lagt á það lögfræðilegt mat hvort auglýst drög að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar eigi sér nægilega stoð í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða hvort þær kunni á einhvern hátt að ganga í berhögg við lögin?
    Lagastoð starfsreglna verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingáætlunar er að finna í 6. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í athugasemdum við 10. gr. í því frumvarpi, er varð að lögum nr. 48/2011, segir að reglurnar geti til að mynda lotið að upplýsingaöflun, bæði umfangi og málsmeðferð, viðmiðum og matsaðferðum. Þar segir að að fengnum tillögum verkefnisstjórnar setji ráðherra, í samráði við þann ráðherra er fer með orkumál, reglur um hvernig verkefnisstjórn skuli starfa, þ.m.t. um upplýsingaöflun, viðmið og matsaðferðir. Drög að breytingum, sem nú er að finna á vefsíðu ráðuneytisins og eru í almennu umsagnarferli, voru unnin í ráðuneytinu. Þegar fyrstu drög lágu fyrir voru þau send til verkefnisstjórnar og lítur ráðuneytið á að tillögur hennar felist í þeirri umsögn. Á sama tíma voru sömu drög send til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis eins og ákvæði 6. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011 gerir ráð fyrir. Í því umsagnarferli sem nú er í gangi hefur verið bent á að hugsanlega sé orðalag nýrrar 8. gr. með þeim hætti að það gefi til kynna nýja efnisreglu. Að auki hefur verið bent á að orðlag hæfnisreglna gangi lengra en almennar hæfisreglur stjórnsýslulaga. Þessar athugasemdir, ásamt öðrum athugasemdum sem fram hafa komið í umsagnarferli, verða teknar til skoðunar. Að mati ráðuneytisins er fyrir hendi lagastoð fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til í drögum að breytingum á starfsreglum en athugasemdir þar að lútandi verða jafnframt teknar til skoðunar. Um meðferð málsins vísast til svars við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur í 535. máli.

     2.      Hver er lagastoð þeirrar reglu sem lögð er til í 2. mgr. 8. gr. í drögunum, þ.e. að verkefnisstjórn skuli taka virkjunarkost til nýrrar umfjöllunar hafi hann tekið breytingum? Er breytingin lögð til svo að endurmeta skuli Norðlingaölduveitu sem flokkuð var í verndarflokk, sbr. 6. gr. laganna, í verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var af Alþingi í janúar 2013?
    Í 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 kemur fram að verkefnisstjórn geti að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni endurmetið virkjunarkosti og landsvæði sem gildandi áætlun nær til og lagt til breytingar á henni. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/2011 segir að hvað varði endurskoðun á virkjunarkostum, sem þegar hafi verið tekin afstaða til í gildandi verndar- og nýtingaráætlun, sé „haft í huga að nýjar og betri upplýsingar um einstaka virkjunarkosti, breytt tækni og aðrir breytilegir þættir geta haft áhrif á flokkun virkjunarkosta“. Í 10. gr. laganna er svo fjallað um verklag og málsmeðferð. Í athugasemdum við frumvarpið kemur hvergi fram að málsmeðferð kosta, sem óskað er eftir endurskoðun á, sé öðruvísi en málsmeðferð annarra virkjunarkosta sem lagðir eru fram skv. 2. mgr. 9. gr. laganna. Ráðuneytið hefur metið það sem svo að lögin séu skýr um að það sé undir verkefnisstjórn komið hvort hún endurskoði flokkun virkjunarkosta sem gildandi áætlun nái til. Hins vegar er ekki ljóst hvaða málsmeðferð þurfi að eiga sér stað áður en verkefnisstjórn tekur ákvörðun um að endurmeta kost eða ekki. Þar sem faglegt mat verkefnisstjórnar grundvallast á vinnu faghópa, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna, er eðlilegt að málsmeðferð sé með slíkum hætti að fyrir liggi mat faghópa á þeim breytingum sem orðið hafa á viðkomandi virkjunarkosti. Breytingartillagan snýr því ekki að því að taka ákvörðunarvald um endurmat frá verkefnisstjórn, enda væri slíkt ekki í samræmi við lög nr. 48/2011, heldur að skýra málsmeðferðarreglurnar eins og starfsreglurnar eiga að gera. Bent hefur verið á það í umsögnum að orðalag ákvæðisins sé með þeim hætti að hægt sé að túlka það á þá vegu að nóg sé að gera litlar breytingar á virkjunarkosti til að fá hann endurmetinn í faghópum. Ekki er verið að leggja til slíkar breytingar í drögunum, enda kemur það skýrt fram í fyrrnefndri greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 48/2011 að við það sé miðað að nýjar og betri upplýsingar um kostinn liggi fyrir, breytt tækni og aðrir breytilegir þættir sem geta haft áhrif á flokkun virkjunarkostsins. Orðalag ákvæðisins þarf því að endurskoða með þetta í huga.
    Tillaga að nýrri 8. gr. um endurmat virkjunarkosta er eingöngu lögð fram til að skýra þá málsmeðferð sem þarf að eiga sér stað áður en verkefnisstjórn tekur ákvörðun um endurmat og bendir ráðuneytið á að starfsreglurnar eru að sjálfsögðu ekki afturvirkar.

     3.      Átti Landsvirkjun, Suðurorka eða aðrir hagsmunaaðilar einhverja aðkomu að gerð þeirra breytingartillagna sem birtar eru í drögunum?
    Drög að þeim breytingum sem nú liggja fyrir voru unnar af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samráði við verkefnisstjórn og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Við vinnslu draganna hafði umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki samráð við Landsvirkjun, Suðurorku eða aðra hagsmunaaðila en þess skal getið að 17. ágúst 2015 átti ráðherra fund með Landsvirkjun þar sem gerðar voru ítarlegar athugasemdir við starfsreglurnar sem þá höfðu nýlega tekið gildi. Erindi Landsvirkjunar var svarað 7. desember 2015 eins og öðrum stjórnsýsluerindum. Að auki voru fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins boðaðir á tvo fundi í atvinnuveganefnd, 24. september 2015 og 6. október 2015. Á þeim fundum voru athugasemdir gerðar við ákveðna þætti starfsreglnanna bæði af öðrum fundargestum sem og nefndarmönnum. Þeir þættir sem einkum voru gerðar athugasemdir við voru staða verkefnisstjórnar í stjórnsýslulegu tilliti, hæfisreglur og endurmat virkjunarkosta sem gildandi áætlun nær til. Við endurskoðun á starfsreglunum var m.a. horft til þeirra athugasemda.

     4.      Hver telur ráðherra að sé verndarstaða svæðis sem sett hefur verið í verndarflokk ef friðlýsingu er ekki lokið? Telur ráðherra að endurmeta skuli slíka virkjunarkosti, sbr. 2. mgr. 8. gr. draga að breyttum starfsreglum verkefnisstjórnarinnar?
    Staða svæðis sem flokkað hefur verið í verndarflokk í gildandi áætlun kemur fram í 6. gr. laga nr. 48/2011. Þar segir í 1. mgr. að í verndarflokk falli virkjunarkostir sem ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu að teknu tilliti til sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. Stjórnvöldum ber að vinna að friðlýsingu þeirra svæða og óheimilt er að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki. Þá eru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar. Að mati ráðuneytisins er það ljóst af orðalagi ákvæðisins, og öðrum lögskýringargögnum, að svæði í verndarflokki ber að friðlýsa. Að mati ráðuneytisins er einnig ljóst að ef óskað er eftir endurmati á slíkum virkjunarkostum og svæðum þarf að liggja fyrir að verulegar breytingar hafi orðið á umræddum virkjunarkosti, enda hefur virkjunarkosturinn verið settur í verndarflokk á grundvelli hás verndargildis þess landsvæði sem virkjun hans hefði áhrif á.

     5.      Hvert er tilefni þess að sérstaklega er vikið að hæfi fulltrúa í verkefnisstjórn og faghópum, sbr. breytingu í d-lið 5. gr., og af hverju eru gerðar strangari kröfur til þess að fulltrúar í verkefnisstjórn víki sæti við afgreiðslu mála en almennt mundi leiða af hæfisreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða almennum hæfisviðmiðum sem gilda í stjórnsýslurétti þar sem gildissviði hæfisreglna stjórnsýslulaga sleppir, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúar í verkefnisstjórn taka ekki stjórnvaldsákvarðanir?
    Sérstaklega er vikið að hæfi fulltrúa í verkefnisstjórn og faghópum til að kveða skýrt á um að almennar hæfisreglur stjórnsýslulaga eigi við um þá aðila. Ábendingar hafa komið fram um að ákvæðin geri strangari kröfur til þess að fulltrúar víki sæti við afgreiðslu mála en almennt mundi leiða af hæfisreglum og verður það leiðrétt. Farið verður yfir þær athugasemdir eins og aðrar umsagnir við áframhaldandi vinnu við endurskoðun starfsreglnanna.