Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 903  —  480. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um beitingu
lagaákvæða um heimild til að krefja útlendinga um greiðslu kostnaðar.


     1.      Hefur á undanförnum fimm árum verið beitt ákvæði í 4. mgr. 34. gr. laga um útlendinga, um að krefja skuli útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða öllu leyti ef hann hefur ráð á því, og ef svo er, hversu oft hefur ákvæðinu verið beitt og hversu háar upphæðir er um að ræða samtals og í hverju tilviki fyrir sig?
    Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Útlendingastofnun um beitingu ákvæðisins. Svar stofnunarinnar er að ákvæði 4. mgr. 34. gr. laga um útlendinga hafi ekki verið beitt á undanförnum fimm árum.

     2.      Hefur á undanförnum fimm árum verið beitt ákvæði 3. mgr. 47 gr. b laga um útlendinga, um að Útlendingastofnun geti krafið hælisleitanda um endurgreiðslu kostnaðar vegna fyrirgreiðslu við hann ef í ljós kemur að hann hafi ekki haft þörf fyrir hana, og ef svo er, hversu oft hefur ákvæðinu verið beitt? Um hversu háar upphæðir er að ræða samtals og í hverju tilviki fyrir sig og hvaða aðferðum er beitt við innheimtu slíkra krafna?
    Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Útlendingastofnun um beitingu ákvæðisins. Svar stofnunarinnar er að ákvæði 3. mgr. 47. gr. b laga um útlendinga hafi ekki verið beitt á undanförnum fimm árum.

     3.      Eru uppi áform um að breyta framangreindum lagaákvæðum eða fella þau brott?
    Vinna við heildarendurskoðun laga um útlendinga er á lokastigum í ráðuneytinu en hún fór fram á vegum sérfræðinga ráðuneytisins og þverpólitískrar þingmannanefndar um útlendingamál. Ekki hafa verið gerðar efnislegar breytingar á framangreindum ákvæðum við þá vinnu. Stefnt er að því frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á næstunni.