Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 981  —  332. mál.
Formbreyting.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um fullnustu refsinga.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein og Hinriku Söndru Ingimarsdóttur frá innanríkisráðuneytinu og Hafdísi Gísladóttur og Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur frá Félagi heyrnarlausra. Umsögn barst frá Félagi heyrnarlausra.
    Nefndin fjallaði nokkuð um betrunarstefnu og þau sjónarmið að hún gæti skilað miklum árangri, bæði fyrir framtíð þeirra sem afplána dóma og einnig fyrir samfélagið í heild. Nefndin leggur til að hugtakið betrun verði eitt af meginmarkmiðum laganna og leggur einnig til skilgreiningu á hugtakinu á þann veg að betrun eigi að miða að því að gera fanga kleift að auka færni sína og lífsgæði og sporna þannig við frekari brotastarfsemi og endurkomu í fangelsi.
    Nefndin ræddi tilhögun leyfa, náms og starfs utan fangelsis, sbr. ákvæði V. kafla frumvarpsins. Það er álit nefndarinnar að rétt sé að skoða hvort ástæða sé til að auka sveigjanleika þessara úrræða og beinir nefndin því til innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að koma slíkri vinnu í formlegan farveg. Í þeirri vinnu verði öll tilhögun námsúrræða í fangelsum skoðuð, að hvaða marki verði hægt að stunda nám innan fangelsa og hvaða nám þurfi að stunda utan þeirra. Mikilvægt er að öll umgjörð námsleyfa verði skýr þannig að sem minnst verði um matskenndar ákvarðanir Fangelsismálastofnunar þar að lútandi. Samhliða þessu ræddi nefndin réttarstöðu fanga sem eru heyrnarlausir og áréttar mikilvægi þess að tryggt verði ákveðið svigrúm til mats á því til hvaða sérstöku ráðstafana þurfi að grípa áður en heyrnarlaus fangi hefur afplánun og meðan á henni stendur. Í þessu sambandi þurfi að líta til samskipta á táknmáli, táknmálstúlkunar og þeirra atriða sem varða vistunarstað, meðferðaráætlun, vinnu fanga og náms- og starfsþjálfun, sbr. III. kafla frumvarpsins. Nefndin beinir því til innanríkisráðuneytisins að tryggja að þessum atriðum verði haldið til haga og þau skoðuð nánar.
    Fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar við 2. umræðu að rétt sé að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga en meiri hlutinn lagði til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að ráðherra skuli í samráði við hlutaðeigandi aðila setja á laggirnar starfshóp. Nefndin telur rétt að þeirri vinnu verði flýtt til 1. júní 2016 og leggur jafnframt til orðalagsbreytingar á ákvæðinu.
    Nefndin fjallaði nánar um innheimtu sekta og sakarkostnað og þá hvort heimila ætti launaafdrátt. Ljóst er að árangur við innheimtu sekta og sakarkostnaðar hér á landi er afleitur en afar mikilvægt er að mati nefndarinnar að hækka hlutfall innheimtra sekta. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2009, um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar, kemur fram að kanna þurfi hvort lögfesta beri heimild til að draga sektarfjárhæðir frá launum, hvort úrræði innheimtuaðila til að kanna fjárhagsstöðu sektarþola séu fullnægjandi og hvort þörf sé á öflugri lagalegum úrræðum til þess að hindra að eignum eða fjármunum sé skotið undan þegar sakfelling liggur fyrir og háar fjársektir blasa við.
    Telur nefndin rétt í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru að leggja til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem feli í sér að ráðherra setji á laggirnar starfshóp sem endurskoði úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar með það að markmiði að bæta innheimtuhlutfall. Starfshópurinn skuli skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. október 2016.
    Nefndin leggur til tvær breytingar lagatæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Á undan orðinu „aðlögun“ í 2. mgr. 1. gr. komi: betrun og.
     2.      Á eftir 5. tölul. 2. gr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Betrun: Það sem miðar að því að gera fanga kleift að auka færni sína og lífsgæði og sporna við frekari brotastarfsemi og endurkomu í fangelsi.
     3.      Í stað orðsins „og“ í 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. komi: eða.
     4.      Í stað orðsins „Dómþola“ í 2. málsl. 84. gr. komi: Þeim sem sætir eftirliti.
     5.      Við bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (II.)
                      Ráðherra skal setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga. Starfshópurinn skal greina hvaða afleiðingar það kunni að hafa á framkvæmd fullnustu refsinga samkvæmt gildandi lögum að fangi eigi þann kost að sæta rafrænu eftirliti í stað afplánunar í fangelsi, sé hann dæmdur til refsivistar í styttri tíma, með hliðsjón af varnaðaráhrifum refsinga, betrun og lækkaðri endurkomutíðni. Starfshópurinn skal skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. júní 2016.
                  b.      (III.)
                      Ráðherra skal setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar með það að markmiði að bæta innheimtuhlutfall. Starfshópurinn skal skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. október 2016.

    Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rita undir álitið með fyrirvara um heildarsamhengi frumvarpsins.
    Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir ritar undir álitið með fyrirvara um heildarsamhengi frumvarpsins og um innheimtu sekta og sakarkostnaðar.

Alþingi, 9. mars 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson,
með fyrirvara.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Karl Garðarsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,
með fyrirvara.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.