Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 989  —  483. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur
um hrefnuveiðar.


     1.      Hversu margar hrefnur hafa alls verið veiddar á Faxaflóamiðum frá byrjun árs 2007 og hversu mörg dýr veiddust á ári hverju?
    Á árunum 2007–2015 voru veiddar 335 hrefnur á Faxaflóasvæðinu og skiptist veiðin eftir árum þannig: 2007 veiddust 5 hrefnur, 2008 veiddust 36 hrefnur, 2009 veiddust 74 hrefnur, 2010 veiddust 59 hrefnur, 2011 veiddust 54 hrefnur, 2012 veiddust 43 hrefnur, 2013 veiddust 11 hrefnur, 2014 veiddust 24 hrefnur og 2015 veiddust 29 hrefnur. Upplýsingar um hvar ein hrefna til viðbótar var veidd árið 2007 liggja ekki fyrir.

     2.      Hversu margar hrefnur hafa á sama tíma alls verið veiddar í Faxaflóa innan línu milli Garðskagavita og Arnarstapa á Snæfellsnesi og hversu mörg dýr veiddust á ári hverju?
    Á árunum 2007–2015 var 321 hrefna veidd á Faxaflóasvæðinu innan línu milli Garðskagavita og Arnarstapa á Snæfellsnesi og skiptist veiðin eftir árum þannig: 2008 veiddust 34 hrefnur, 2009 veiddust 70 hrefnur, 2010 veiddust 59 hrefnur, 2011 veiddust 54 hrefnur, 2012 veiddust 42 hrefnur, 2013 veiddust 8 hrefnur, 2014 veiddust 20 hrefnur og 2015 veiddust 29 hrefnur. Upplýsingar um hvar ein hrefna til viðbótar var veidd árið 2007 liggja ekki fyrir.

     3.      Hversu hátt hlutfall hefur verið nýtt af þeim hrefnum sem veiddar voru á tímabilinu og hversu hátt var nýtingarhlutfallið á ári hverju?
    Ekki er sérstakt eftirlit með því hversu stórum hluta hverrar veiddrar hrefnu er kastað í sjó áður en aflanum er landað og því liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um nýtingarhlutfall. Á vísindaveiðum Hafrannsóknastofnunar á árunum 2001–2007 var hins vegar reiknuð út meðalþyngd hrefnu. Í kjölfar þessarar fyrirspurnar óskaði ráðuneytið eftir áætlun Hafrannsóknastofnunar á nýtingu hrefnu á árunum 2011–2015 miðað við meðalþyngd hrefnu og meðalþyngd við vigtun á lönduðum hrefnuafla. Ekki var gerð krafa um vigtun hrefnuafla á hafnarvog fyrr en árið 2011. Niðurstaða Hafrannsóknastofnunar varð sú að ætla mætti að nýtingarhlutfall hrefnu væri að meðaltali 39% árin 2011 og 2012, 43% árið 2013, 51% árið 2014 og 44% árið 2015. Hafrannsóknastofnun benti jafnframt á að til samanburðar við aðrar veiðar væri nærtækast að líta til nýtingarhlutfalls hreindýraveiða sem væri innan við 25% með sömu reikningsaðferðum.

     4.      Hvað hefur orðið um þá hluta hrefnanna sem ekki voru nýttir og hvernig og hvar hefur þeim verið fargað?
    Þeim hlutum hrefnanna sem ekki eru nýttir er varpað fyrir borð. Það er í samræmi við heimild 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og 2. gr. reglugerðar nr. 468/2013, um nýtingu afla og aukaafurða, en þar segir: „Heimilt [er] að varpa fyrir borð innyflum, hausum og öðru slíku sem fellur til við verkun og vinnslu afla um borð í veiðiskipum, en ávallt skal nýta þetta hráefni eftir því sem kostur er.“ Í 5. gr. leyfa til hrefnuveiða kemur fram að óheimilt er að varpa í hafið hrefnuleifum á þeim svæðum þar sem það kann að trufla veiðar eða verða að öðru leyti til truflunar eða sjónmengunar. Fiskistofa hefur eftirlit með því að þetta sé virt.

     5.      Hvaða fyrirtæki hafa stundað hrefnuveiðar á þessum sama tíma og hver hefur starfstími hvers þeirra um sig verið?
    Samtals 11 fyrirtæki gerðu út til veiða á hrefnu árin 2007–2015:
Útgerðarfélagið Fjörður ehf. Kennitala: 700309-1420 Starfstími: 2009–2014
Kjölur ehf. Kennitala: 490272-5349 Starfstími: 2007–2010
Hafnarnes VER hf. Kennitala: 590169-5959 Starfstími: 2009
Frækinn ehf. Kennitala: 560205-1200 Starfstími: 2009
Ósnes ehf. Kennitala: 470896-2059 Starfstími: 2009
Sigurbjörg Jónsdóttir ehf. Kennitala: 601198-3479 Starfstími: 2007–2010
Hrefnuveiðimenn ehf. Kennitala: 640506-1800 Starfstími: 2010
Útgerðarfélagið Kjölur ehf. Kennitala: 650909-0380 Starfstími: 2011–2013
Hrafnreyður ehf. Kennitala: 420311-1170 Starfstími: 2011
IP Útgerð ehf. Kennitala: 711012-0870 Starfstími: 2012–2015
Skutull ehf. Kennitala: 590698-2539 Starfstími: 2007–2009

     6.      Hver hefur árleg arðsemi þessara fyrirtækja verið?
    Ráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um aðsemi þessara fyrirtækja.

     7.      Hefur eitthvert þessara fyrirtækja orðið gjaldþrota? Ef svo er, hvaða fyrirtæki voru það og hvenær urðu þau gjaldþrota?
    Tvö fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota af fyrrgreindum fyrirtækjum samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Fyrirtækið Hrefnuveiðimenn ehf. varð gjaldþrota árið 2012 og fyrirtækið Hrafnreyður ehf. varð gjaldþrota árið 2014.