Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1082  —  654. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011 (skipting skatts).

Flm.: Kristján L. Möller.


1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Gistináttaskattur nemur 750 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu í íbúð, húsi eða herbergi á hóteli eða gistiheimili. Gistináttaskattur nemur 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu í herbergi í íbúð, á tjaldstæði, stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi og í annars konar húsnæði eða svæði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Greinargerð.

    Markmið laga um gistináttaskatt er að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða sem og að afla tekna til að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að skatturinn hækki og verði tvískiptur og nemi 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu fyrir ákveðna teg­und gistingar en 750 kr. fyrir aðra. Verði frumvarpið að lögum munu tekjur ríkissjóðs aukast sem hækkun nemur og því unnt að sinna betur uppbyggingu ferðamannastaða hér á landi, vernda náttúruna og ekki síst tryggja öryggi ferðamanna.
    Í pistli sem birtist nýlega á vefsíðunni Túristi (www.turisti.is) kom fram að sérstakur hótelskattur sé aðferð sem notuð sé í mörgum löndum til að fjármagna ferðaþjónustu á ýmsa vegu. Slíkt gjald sé lagt á gistingu víðs vegar í Bandaríkjunum, Frakklandi, Sviss, Þýskalandi og á Ítalíu. Bent er á í pistlinum að gistináttaskatturinn hér á landi sé lægri en tíðkist annars staðar en þó sé virðisaukaskattur á gistingu hærri hér en víða annars staðar. Jafnframt er vísað til þeirrar aðferðar að leggja ákveðið gjald á hvern næturgest þannig að fjárhæðin ráðist af gæðum gistingar. Fullyrt er að ef þetta fyrirkomulag hefði verið við lýði hér síðan árið 2012 og gjaldið verið það sama og innheimt er á þriggja stjörnu hótelum í París hefðu tekjurnar verið ríflega 2,3 milljarðar kr. sl. fjögur ár. Hér hefðu tekjurnar af gistináttaskatti skilað um 905 millj. kr. frá því skatturinn var settur á árið 2012. Þá bendir Túristi á að umsvif Airbnb hefðu meira en tvöfaldast sl. ár, þar væru um 4 þúsund íslenskar eignir á skrá og draga mætti þá ályktun að gistinætur hefðu verið um 140 þúsund á síðasta ári. Fullyrt er að ef gistináttagjald væri lagt á gistingu í eignum sem eru leigðar með milli­göngu Airbnb hefði gjaldið skilað um 17 millj. kr. í tekjur fyrir ríkissjóð í fyrra.
    Nokkrar leiðir eru færar til að leggja gjald á gistirými fyrir ferðamenn, t.d. að miða gjald við ákveðið hlutfall af verði gistingar líkt og víða erlendis, en með þessu frumvarpi er lagt til að gera sem minnstar breytingar aðrar en á fjárhæð gjaldsins.
    Flutningsmaður lítur svo á að verði frumvarpið að lögum sé komin sé ein gjaldtökuleið og einn tekjustofn sem deilir út fé til að byggja upp innviði fyrir ferðamannastaði og koma þar með til móts við þá miklu þörf. Með þessari leið er ekki þörf á því að ríkissjóður leggi fram beint af fjárlögum eins og fyrirhugað er.
    Í fjárlögum fyrir árið 2016 var gert ráð fyrir 310 millj. kr. í tekjur af gistináttaskatti og með því að hækka skattinn og tvískipta gjaldinu má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af skattinum verði í kringum 1,9 milljarður kr. miðað við að um það bil 70% ferðamanna gisti á hótelum, gistiheimilum og í íbúðum.
    Flutningsmaður gerir ráð fyrir að tekjum af gjaldinu verði annars vegar ráðstafað til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og hins vegar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Með því að sveitarfélögin fái hluta af gjaldinu í gegnum Jöfnunarsjóðinn er komið til móts við þau bæði hvað varðar útgjöld og kostnað vegna ferðamanna og fjármögnun á þeirra hluta í uppbyggingu innviða ferðamannastaða.