Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1090  —  662. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum (tilkynning atvika í almenningsflugi).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Í stað 47. og 47. gr. a laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Tilkynning atvika í almenningsflugi, með fimm nýjum greinum, 47. gr. og 47. gr. a – 47. gr. d, svohljóðandi:

    a.     (47. gr.)

Tilkynningarskylda.

    Öll atvik í almenningsflugi, sem geta stofnað flugöryggi í umtalsverða hættu, þ.m.t. þau sem tilkynna ber til rannsóknarnefndar sam­gönguslysa, sbr. lög um rannsókn sam­gönguslysa, skulu tilkynnt Sam­göngustofu í samræmi við ákvæði þessa kafla. Með atviki er átt við atburð sem tengist öryggi, einkum flugslys eða alvarlegt flugatvik, sem stofnar eða, ef ekki er gripið til aðgerða eða gerðar úrbætur, gæti stofnað loftfari, farþegum eða öðrum einstaklingum í hættu.
    Tilkynningarskylda samkvæmt ákvæði þessu hvílir á flugstjóra eða næstráðanda um borð í loftfari ef flugstjóra er eigi unnt að sinna þeirri skyldu. Jafnframt hvílir hún á þeim sem koma að hönnun og framleiðslu loftfars eða tækjabúnaðar eða einhverjum hluta þess, þeim sem koma að útgáfu lofthæfisstaðfestingarvottorðs eða viðhaldsvottorðs, flugumferðarstjórum og öðrum starfsmönnum í flugleiðsöguþjónustu, viðhaldsaðilum, þeim sem sinna starfi tengdu afgreiðslu loftfars á jörðu niðri og öðrum starfsmönnum í öryggistengdum störfum.
    Fyrirtæki skulu koma á tilkynningarkerfi til að auðvelda söfnun upplýsinga um tilkynningarskyld atvik.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um tilkynningarskylduna, m.a. um til hvaða atvika tilkynningarskylda skuli ná, að skyldan taki til fleiri aðila en taldir eru upp í þessari grein, um form úrvinnslu, um öryggisáhættuflokkun, greiningu atvika og eftirfylgni, tímamörk og birtingu skýrslna á grundvelli tilkynninga og annað er máli kann að skipta til að rekja megi orsakir atvika.

    b.     (47. gr. a.)

Valfrjálsar tilkynningar.

    Fyrirtæki skulu koma á tilkynningakerfi fyrir valfrjálsar tilkynningar, m.a. til að auðvelda söfnun upplýsinga um atvik sem ekki er skylt að tilkynna og um atvik sem tilkynnt eru af einstaklingum sem ekki eru tilkynningarskyldir skv. 47. gr.
    Ráðherra er heimilt að útfæra tilkynningakerfi skv. 1. mgr. í reglugerð.

    c.     (47. gr. b.)

Gagnagrunnur Sam­göngustofu um tilkynnt atvik, miðlægt
evrópskt gagnasafn og gagnagrunnar fyrirtækja.

    Tilkynningar og upplýsingar um atvik sem safnað er af Sam­göngustofu skal varðveita í sérstökum gagnagrunni til að auðvelda úrvinnslu upplýsinga til eflingar flugöryggi. Óheimilt er að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingum eða tilkynningum. Þetta á þó ekki við um upplýsingar sem veittar eru:
     a.      erlendum ríkjum, stofnunum eða samtökum á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga, ef tilgangurinn er að vinna að auknu flugöryggi,
     b.      hagsmunaaðilum sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi.
    Sam­göngustofa tekur þátt í samstarfi um miðlægt evrópskt gagnasafn og skal stofnunin flytja í gagnasafnið allar upplýsingar um öryggi sem geymdar eru í gagnagrunni Sam­göngustofu. Einnig skal flytja upplýsingar um flugslys og alvarleg flugatvik í miðlæga evrópska gagnasafnið.
    Óheimilt er að skrá persónuupplýsingar í gagnagrunn Sam­göngustofu og hið miðlæga evrópska gagnasafn.
    Fyrirtæki skulu geyma tilkynningar um atvik sem safnað er samkvæmt þessum kafla í sérstökum gagnagrunni, einum eða fleiri eftir því sem við á.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um gagnagrunn Sam­göngustofu, aðgengi að upplýsingum úr gagnagrunninum, miðlæga evrópska gagnasafnið og gagnagrunna fyrirtækja.

    d.     (47. gr. c.)

Vinnsla upplýsinga.

    Fyrirtæki skulu greina upplýsingar um atvik í því skyni að auðkenna öryggishættur. Á grundvelli greiningarinnar skulu fyrirtæki ákveða og framkvæma aðgerðir til úrbóta ef við á.
    Fyrirtæki, sem í kjölfar greiningar skv. 1. mgr. auðkennir raunverulega eða hugsanlega áhættu í tengslum við flugöryggi, skal tilkynna Sam­göngustofu um bráðabirgðaniðurstöður greiningarinnar og hugsanlegar aðgerðir sem fyrirtækið hyggst grípa til. Fyrirtæki skulu tilkynna Sam­göngustofu um lokaniðurstöður greiningar um leið og þær liggja fyrir.
    Vinnsla persónuupplýsinga skal aðeins fara fram eftir því sem nauðsyn þykir í þágu flugöryggis.
    Sam­göngustofa getur heimilað litlum fyrirtækjum að koma á einföldu fyrirkomulagi við söfnun, vinnslu og varðveislu upplýsinga.
    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um vinnslu og greiningu upplýsinga, um söfnun og vinnslu persónuupplýsinga og gæðaeftirlit fyrirtækja og um eftirfylgni með framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein.

    e.     (47. gr. d.)

Sanngirnismenning.

    Tilkynning atvika miðar að því bæta flugöryggi með það að markmiði að koma í veg fyrir flugslys og flugatvik en ekki að skipta sök eða ábyrgð. Óheimilt er að nota upplýsingar í öðrum tilgangi en þeim sem að framan greinir.
    Fyrirtækjum er óheimilt að láta starfsfólk sem tilkynnir um atvik eða er tilgreint í tilkynningu sæta neinum viðurlögum á grundvelli upplýsinganna nema um sé að ræða:
     a.      ásetning,
     b.      greinilega, grófa og alvarlega vanrækslu í tengslum við augljósa áhættu og algera vanrækslu varðandi þá faglegu ábyrgð að grípa ekki til aðgerða sem augljóslega er þörf á við aðstæður sem fyrirsjáanlega skaða einstaklinga eða eignir eða stofna flugöryggi í alvarlega hættu,
     c.      neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.
Einnig er óheimilt að beita starfsfólk viðurlögum ef það beinir kvörtun til Sam­göngustofu vegna meintra brota fyrirtækis, sbr. 4. mgr.
    Fyrirtæki skulu, í samráði við fulltrúa starfsmanna, samþykkja innri reglur sem lýsa hvernig fyrirtækið tryggir meginreglur um sanngirnismenningu innan þess.
    Telji starfsmaður að brotið hafi verið gegn 1.–3. mgr. þessarar greinar og 2. mgr. 141. gr. getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Sam­göngustofu um að hún láti málið til sín taka.
    Berist Sam­göngustofu slík kvörtun skal hún m.a. leita álits viðkomandi fyrirtækis á kvörtuninni, ganga úr skugga um að upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt.
    Náist ekki samkomulag skv. 5. mgr. skal Sam­göngustofa ljúka málinu með rökstuddu áliti. Áliti Sam­göngustofu verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 141. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „47. gr.“ í 2. mgr. kemur: V. kafla A.
     b.      Í stað orðanna „flug- eða flugumferðaratviks“ í 2. mgr. kemur: flugatviks, sem og þeim aðilum sem getið er í tilkynningunni.
     c.      Við 3. mgr. bætist: eða hún notuð í máli sem kann að varða stjórnsýsluviðurlögum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu í samvinnu við Sam­göngustofu, stjórnsýslustofnun sam­göngumála. Með því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum, í tengslum við væntanlega innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014, frá 3. apríl 2014, um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem og greiningu og eftirfylgni með þeim. Frumvarpið miðar að því að búa til viðeigandi lagastoð svo að innleiða megi framangreinda EES-gerð með stjórnvaldsfyrirmælum ráðherra.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á grundvelli skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum ber að tryggja þeim gerðum Evrópusambandsins sem teknar eru upp í samninginn sömu stöðu og réttaráhrif hér á landi. Um upptöku slíkra gerða er fjallað í 7. gr. EES-samningsins en þar segir að gerðir sem vísað er til í viðaukum við samninginn, eða ákvörðunum sam­eigin­legu EES-nefndarinnar, skuli teknar upp í landsrétt sem hér segir:
     a.      Gerð sem samsvarar reglugerð ESB skal sem slík tekin upp í landsrétt.
     b.      Gerð sem samsvarar tilskipun ESB skal veita yfirvöldum aðildarríkjanna val um form og aðferð við framkvæmdina.
    Mikill meiri hluti EES-gerða er innleiddur hér á landi sem stjórnvaldsfyrirmæli frá ráðherra. Við það þarf að gæta að því að fyrir þeim sé nægileg stoð í almennum lögum.
    Af samanburði reglugerðar (ESB) nr. 376/2014 og laga um loftferðir var það mat ráðuneytisins og Sam­göngustofu að ekki væri hægt að innleiða reglugerðina hér á landi nema að breyttum lögum. Eru það m.a. ákvæði hennar sem kveða á um auknar skyldur fyrirtækja að því er varðar greiningu og eftirfylgni vegna atvika og vernd heimildarmanna og þeirra sem getið er í tilkynningum, auk annarra atriða. Nauðsynlegt er að mæla fyrir um þessi ákvæði í lögum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að búin sé til fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 376/2014, um tilkynningu atvika í almenningsflugi. Verður hér gerð nánari grein fyrir meginefni þessarar gerðar og hvaða breytingar felast í frumvarpi þessu.

3.1 Reglugerð um tilkynningu atvika.
3.1.1 Forsaga málsins.
    Tilkynning atvika er mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir flugslys og alvarleg flugatvik. Reynslan hefur leitt í ljós að áður en flugslys ber að höndum verða oft flugatvik og aðrir annmarkar á öryggi. Upplýsingar um slík atvik og aðra annmarka stuðla að bættum forvörnum innan fyrirtækja og stofnana innan EES.
    Lengi hefur verið mælt fyrir um tilkynningarskyldu í íslenskum lögum og reglum og má sem dæmi nefna 50. gr. eldri laga um loftferðir, nr. 34/1964. Árið 2005 voru svo samþykkt lög nr. 75/2005 sem fólu í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/42/EB, um tilkynningarskyldu í almenningsflugi. Með tilskipuninni var aðildarríkjum EES gert að koma á laggirnar kerfum fyrir tilkynningu atvika.
    Í kjölfarið setti framkvæmdastjórnin upp miðlægt evrópskt gagnakerfi (e. European Central Repository) sem inniheldur allar upplýsingar um atvik sem aðildarríkin hafa tekið saman. Sam­göngustofa, áður Flugmálastjórn Íslands, heldur úti slíku kerfi fyrir Íslands hönd og er tengiliður við miðlæga evrópska gagnakerfið.
    Árið 2012 lagði framkvæmdastjórnin fram tillögu að nýrri gerð um tilkynningu atvika. Nokkrar ástæður voru nefndar fyrir því að nauðsynlegt þótti að setja nýja gerð um málið. Í fyrsta lagi var söfnun upplýsinga um atvik á Evrópska efnahagssvæðinu talin ófullnægjandi. Að mati framkvæmdastjórnarinnar mátti rekja það til mismunandi útfærslu ákvæða tilskipunarinnar meðal aðildarríkjanna. Þá var enn fremur talið að vernd heimildarmanna væri ekki nægilega rík sem leiddi til þess að einstaklingar veigruðu sér við að tilkynna, sérstaklega ef um var að ræða atvik sem þeir báru ábyrgð á eða áttu þátt í.
    Í öðru lagi höfðu lagalegar og stofnanalegar ástæður leitt til þess að erfiðlega gekk að fá aðgang að upplýsingum úr miðlæga evrópska gagnasafninu.
    Að lokum var ekki mælt fyrir um það í tilskipuninni hvernig aðildarríkin ættu að nota þau gögn sem safnað hafði verið. Hafði það leitt til mismunandi framkvæmdar milli aðildarríkjanna.

3.1.2 Tilkynningarskylda.
    Í frumvarpinu er skerpt á ákvæði um tilkynningarskyldu og það fært nær ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 376/2014. Hugtakið „atvik“ er nánar skýrt og mælt fyrir um á hverjum þessi skylda hvílir. Þá er þar einnig að finna ákvæði sem mælir fyrir um skyldu fyrirtækja til að koma á tilkynningarkerfi til að auðvelda söfnun upplýsinga um tilkynningarskyld atvik en meginreglan er sú að starfsmenn fyrirtækja skulu beina tilkynningum sínum þangað.

3.1.3 Valfrjálsar tilkynningar.
    Til að fá sem besta heildarmynd yfir atvik er lagt til að fyrirtæki komi á laggirnar tilkynningarkerfi fyrir valfrjálsar tilkynningar til viðbótar kerfi vegna atvika sem eru tilkynningarskyld. Með því geta aðilar, sem ekki falla undir tilkynningarskyldu, komið upplýsingum á framfæri um atvik sem þeir verða varir við. Auk þess geta þeir sem venjulega bera tilkynningarskyldu komið upplýsingum á framfæri um önnur atvik sem ekki eru tilkynningarskyld.

3.1.4 Gagnagrunnar.
    Upplýsingar um atvik sem fyrirtæki safna saman skulu sendar áfram til gagnagrunns Sam­göngustofu. Upplýsingarnar sem þar eru geymdar skulu ekki vera persónugreinanlegar. Sem fyrr segir er Sam­göngustofa tengiliður við miðlæga evrópska gagnasafnið og flytur hún upplýsingar sem henni berast áfram í það.

3.1.5 Vinnsla upplýsinga.
    Markmið tilkynningarskyldunnar er sem fyrr segir að koma í veg fyrir flugslys og alvarleg flugatvik. Skulu fyrirtæki, stofnanir og Flugöryggisstofnun Evrópu vinna að því að greina upplýsingar í því skyni að auðkenna öryggishættur. Á grundvelli þessarar greiningar skulu fyrirtæki ákveða og framkvæma aðgerðir til úrbóta.

3.1.6 Sanngirnismenning.
    Tilkynning atvika byggist á svokallaðri sanngirnismenningu (e. „Just Culture“). Sanngirnismenning er skilgreind sem menning þar sem aðilum í framvarðarlínu rekstrar eða öðrum er ekki refsað fyrir athafnir, yfirsjónir eða ákvarðanir sem þeir hafa tekið og samrýmast reynslu þeirra og þjálfun, en þar sem vítavert gáleysi, brot af ásetningi og skaðlegar athafnir líðast ekki.
    Til að undirbyggja sanngirnismenningu er skýrt mælt fyrir um það í frumvarpi þessu að fyrirtækjum sé óheimilt að láta starfsfólk sem tilkynnir um atvik eða er tilgreint í tilkynningu sæta neinum viðurlögum á grundvelli upplýsinganna, nema ákveðnar undantekningar eigi við. Einnig er lagt til að óheimilt sé að beita starfsfólk viðurlögum ef það leitar til Sam­göngustofu vegna meintra brota fyrirtækis. Þá skulu fyrirtæki samþykkja innri reglur sem lýsa því fyrir starfsfólki hvernig fyrirtækið hyggst tryggja meginreglur um sanngirnismenningu.

4. Samráð.
    Frumvarpið var birt á vef innanríkisráðuneytisins og hagsmunaaðilum og öðrum gefinn kostur á að koma með umsagnir. Umsögn barst frá Isavia ohf. Laut hún að ákvæði e-liðar 1. gr. frumvarpsins (47. gr. d), nánar tiltekið 2. mgr. sem fjallar um viðurlagaheimildir fyrirtækja gagnvart starfsfólki. Að mati Isavia ohf. er starfsmönnum veitt ríkari vernd en nauðsynlegt er samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 376/2014. Ráðuneytið og Sam­göngustofa töldu svo ekki vera og leggja því ekki til breytingar á því ákvæði.

5. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs og hefur það því ekki áhrif á útgjaldaramma þessa málaflokks innanríkisráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum.
    Sam­göngustofa vinnur að uppsetningu öryggisstjórnunarkerfis vegna væntanlegrar innleiðingar á nýrri reglugerð (ESB) um sam­eigin­legar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu (Celex nr. 52015PC0613). Gert er ráð fyrir að það kerfi muni nýtast við framkvæmd tilkynningarskyldu í flugi. Því mun frumvarp þetta, og væntanleg innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 376/2014, ekki hafa bein fjárhagsleg áhrif á Sam­göngustofu.
    Verði frumvarpið að lögum mun það hafa þau áhrif á fyrirtæki í flugrekstri að þau þurfa að breyta verklagi sem snýr að greiningarvinnu í kjölfar tilkynninga og vinna eykst í tengslum við aukna greiningu. Ekki er þó gert ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins muni hafa mikil áhrif á hagsmunaaðila þar sem mörg fyrirtæki hafa þegar komið upp öryggisstjórnunarkerfum sem munu nýtast við framkvæmd tilkynningarskyldunnar. Auk þess mun Sam­göngustofa geta heimilað litlum og meðalstórum fyrirtækjum að koma á einföldu tilkynningarkerfi.
    Verði frumvarpið samþykkt mun það bæta öryggi í almenningsflugi og sanngirnismenning er undirbyggð með ríkari vernd heimildarmanna. Upplýsingar sem fást úr tilkynningum eru notaðar til að greina veikleika í öryggi og bregðast við áður en til óhappa og slysa kemur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

     Um a-lið (47. gr.).
    Í þessari grein er fjallað um tilkynningarskyldu í almenningsflugi, hvað beri að tilkynna, á hverjum tilkynningarskylda hvílir, tilkynningakerfi og um heimild ráðherra til að mæla nánar fyrir um tilkynningarskylduna í reglugerð.
    Í 1. mgr. segir að öll atvik, sem geta stofnað flugöryggi í umtalsverða hættu, þ.m.t. þau sem tilkynna ber til rannsóknarnefndar sam­gönguslysa, skuli tilkynnt Sam­göngustofu. Mikilvægt er að taka fram að atvik kunna því að sæta tvöfaldri tilkynningu, þ.e. þau atvik sem teljast til flugslysa eða alvarlegra flugatvika, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 18/2013, um rannsókn sam­gönguslysa.
    Skilgreiningu á hugtakinu „atvik“ er svo að finna í 2. málsl. 1. mgr. Þar segir að með atviki sé átt við atburð sem tengist öryggi, einkum flugslys eða alvarlegt flugatvik, sem stofnar eða, ef ekki er gripið til aðgerða eða gerðar úrbætur, gætu stofnað loftfari, farþegum eða öðrum einstaklingum í hættu. Skilgreiningin er fengin úr 7. tölul. 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 376/2014.
    Á grundvelli 5. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 376/2014 hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefið út framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1018 frá 29. júní 2015, um skrá þar sem atvik í almenningsflugi eru flokkuð í viðauka sem fylgir reglugerðinni. Þar er tilkynningarskyldum atvikum skipt í flokka til að gera þeim einstaklingum sem eru tilkynningarskyldir kleift að auðkenna atvik sem hverjum þeirra ber að tilkynna um. Í leiðbeiningarskjali með reglugerð (ESB) nr. 376/2014 (Guidance Material Regulation (EU) No 376/2014, desember 2015) segir að ákvæðið sé túlkað á þann hátt að ákveðnum einstaklingum beri skylda til að tilkynna um ákveðin atvik samkvæmt skiptingu viðaukans. Má nefna að flugstjóra ber skylda til að tilkynna um atvik sem falla undir I. viðauka sem ber heitið Atvik sem tengjast starfrækslu loftfarsins. Sá aðili sem kemur að framleiðslu loftfara eða íhluta ber því ekki sömu skyldu og flugstjóri.
    Í 2. mgr. er að finna upptalningu á þeim einstaklingum sem ber skylda til að tilkynna um atvik. Tilkynningarskylda hvílir á flugstjóra eða næstráðanda um borð í loftfari ef flugstjóra er eigi unnt að sinna þeirri skyldu. Jafnframt hvílir hún á þeim sem koma að hönnun og framleiðslu loftfars eða tækjabúnaðar eða einhverjum hluta þess, þeim sem koma að útgáfu lofthæfisstaðfestingarvottorðs eða viðhaldsvottorðs, flugumferðarstjórum og öðrum starfsmönnum í flugleiðsöguþjónustu, viðhaldsaðilum, þeim sem sinna starfi tengdu afgreiðslu loftfars á jörðu niðri og öðrum starfsmönnum í öryggistengdum störfum.
    Til að auðvelda þeim einstaklingum sem bera tilkynningarskyldu er lagt til að fyrirtæki skuli koma á tilkynningarkerfi til að safna saman upplýsingum um tilkynningarskyld atvik og ber framangreindum einstaklingum að tilkynna um atvik þangað.
    Að lokum er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð þar sem tilkynningarskyldan er útfærð en með því er, eins og áður hefur komið fram, gert ráð fyrir að ráðherra innleiði reglugerðina í íslenskan rétt.
     Um b-lið (47. gr. a).
    Í þessari grein er mælt fyrir um valfrjálsar tilkynningar.
    Þrátt fyrir að reglur um tilkynningarskyld atvik nái til margra atvika er ekki loku fyrir það skotið að atburðir, sem ekki teljast atvik og falla þar að leiðandi ekki undir skylduna, geti gerst og er því mikilvægt að þeir séu tilkynntir. Skulu slíkir atburðir tilkynntir á grundvelli tilkynningarkerfis sem fyrirtæki koma á laggirnar. Þá er einnig gert ráð fyrir að einstaklingar sem ekki falla undir tilkynningarskylduna geti nýtt sér valfrjálsa tilkynningarkerfið.
     Um c-lið (47. gr. b).
    Í þessari grein er mælt fyrir um gagnagrunn Sam­göngustofu um tilkynnt atvik, miðlægt evrópskt gagnasafn og gagnagrunna fyrirtækja.
    Sam­göngustofa hefur komið á laggirnar sérstökum gagnagrunni til að taka við upplýsingum frá fyrirtækjum og einstaklingum um tilkynnt atvik. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að hún hafi áfram það hlutverk en til viðbótar mun hún einnig taka við valfrjálsum tilkynningum. Mikilvægt er að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim gögnum sem þar eru geymd og er því mælt fyrir um að óheimilt sé að veita þriðja aðila slíkan aðgang. Hins vegar geta erlend ríki, stofnanir eða samtök á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga óskað eftir aðgangi, t.d. Flugöryggisstofnun Evrópu, enda sé tilgangurinn með því að fá aðgang að gögnunum að vinna að auknu flugöryggi. Að auki er gert ráð fyrir að hagsmunaaðilar, sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi, geti óskað eftir aðgengi að upplýsingum úr gagnagrunninum.
    Í 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 376/2014 segir að framkvæmdastjórnin skuli stjórna miðlægu, evrópsku gagnasafni til að geyma tilkynningar um atvik sem safnað hefur verið á Evrópska efnahagssvæðinu. Sam­göngustofa mun taka þátt í samstarfi um miðlæga evrópska gagnasafnið með því að flytja í það allar upplýsingar um öryggi sem geymdar eru í gagnagrunni Sam­göngustofu. Einnig er gert ráð fyrir að upplýsingar um flugslys og alvarleg flugatvik skuli fluttar í miðlæga evrópska gagnasafnið. Til að tryggja leynd tilkynnenda og þeirra sem greindir eru í tilkynningum er lagt til að óheimilt verði að skrá persónuupplýsingar í landsbundna gagnagrunninn og miðlæga evrópska gagnasafnið.
    Þær tilkynningar sem berast fyrirtækjum skulu geymdar í sérstökum gagnagrunni, einum eða fleiri eftir því sem við á.
     Um d-lið (47. gr. c).
    Í þessari grein er fjallað um vinnslu upplýsinga sem berast á grundvelli tilkynninga um atvik.
    Í 1. mgr. er lagt til að fyrirtæki skuli greina upplýsingar um atvik með það að markmiði að auðkenna öryggishættur. Á grundvelli slíkrar greiningar skulu fyrirtæki svo ákveða og framkvæma aðgerðir til úrbóta.
    Ef fyrirtæki, á grundvelli greiningar skv. 1. mgr., auðkennir raunverulega eða hugsanlega áhættu í tengslum við flugöryggi er lagt til í 2. mgr. að það tilkynni Sam­göngustofu um bráðabirgðaniðurstöður greiningarinnar og aðgerðir sem fyrirtækið hyggst grípa til. Þegar lokaniðurstöður greiningar liggja fyrir skulu þær umsvifalaust sendar Sam­göngustofu.
    Í 3. mgr. er fjallað um persónuupplýsingar en með því hugtaki er einkum vísað til nafna eða heimilisfanga einstaklinga. Þar segir að einungis skuli vinna persónuupplýsingar eftir því sem þurfa þykir í þágu flugöryggis. Með því er átt að fyrirtæki skulu aðeins vinna með slíkar upplýsingar svo lengi sem það vinnur að markmiði tilkynningarskyldunnar, þ.e. að bæta öryggi í flugi og koma í veg fyrir flugslys og flugatvik. Hluti af því að vinnsla persónuupplýsinga skuli einungis fara fram eftir því sem þurfa þykir felur í sér að persónuupplýsingar skulu aðeins aðgengilegar starfsfólki fyrirtækis þegar það telst nauðsynlegt í þágu framangreindra markmiða og því skal fremur dreifa órekjanlegum upplýsingum innan fyrirtækisins.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að Sam­göngustofa geti heimilað litlum fyrirtækjum að koma á einföldu fyrirkomulagi við söfnun, vinnslu og varðveislu upplýsinga. Mikilvægt er að tekið sé tillit til mismunandi stærða og starfssviða einstakra aðila innan fluggeirans og margbreytileika mismunandi teg­unda loftfara og er því lagt til að Sam­göngustofa hafi þessa heimild.
    Að lokum er lagt til í 5. mgr. að ráðherra geti mælt nánar fyrir um vinnslu og greiningu upplýsinga, um vinnslu persónuupplýsinga og gæðaeftirlit og um eftirfylgni við framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein í reglugerð.
     Um e-lið (47. gr. d).
    Í þessari grein er að finna ákvæði sem varða sanngirnismenningu.
    Í 1. mgr. er fjallað um meginmarkmið tilkynningar atvika en hún miðar að því að bæta flugöryggi með því að koma í veg fyrir flugslys og flugatvik en ekki að skipta sök eða ábyrgð. Af því leiðir að óheimilt er að nota upplýsingar í öðrum tilgangi en þeim sem að framan greinir.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um mikilvægan þátt í að undirbyggja sanngirnismenningu. Þar segir að fyrirtækjum sé óheimilt að láta starfsfólk sem tilkynnir atvik eða er tilgreint í tilkynningu sæta neinum viðurlögum á grundvelli upplýsinganna. Þá er einnig mælt fyrir um að starfsfólk verði ekki látið sæta viðurlögum ef það beinir kvörtun til Sam­göngustofu vegna meintra brota fyrirtækis, sbr. 4. mgr. greinarinnar.
    Þáttur í því að treysta í sessi ákvæði 2. mgr. er að fyrirtæki samþykki innri reglur sem lýsa hvernig það muni tryggja meginreglur um sanngirnismenningu innan fyrirtækisins. Er því lagt til í 3. mgr. að fyrirtækin setji sér slíkar reglur í samráði við fulltrúa starfsmanna.
    Í 4., 5. og 6. mgr. er svo mælt fyrir um kvörtunarferli ef starfsmenn telja að brotið hafi verið gegn 1.–3. mgr. Geta starfsmenn beint kvörtun til Sam­göngustofu um að hún láti málið til sín taka. Skal Sam­göngustofa freista þess að jafna ágreining aðila en takist það ekki skal hún ljúka málinu með rökstuddu áliti. Áliti Sam­göngustofu verður þó ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.

Um 2. gr.

    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 141. gr. laganna.
    Í a-lið er fallið frá því að vísa til 47. gr. og þess í stað vísað til ákvæða V. kafla A.
    Í b-lið er fallið frá notkun orðanna „flug- eða flugumferðaratviks“ og í staðinn tekið upp orðið „flugatvik“. Þá er einnig bætt við ákvæðið að verndin nái einnig til þeirra sem nefndir eru í tilkynningunni.
    Í c-lið er lagt til að upplýsingar sem fá má úr tilkynningum um atvik verði ekki notaðar í málum sem kunna að varða stjórnsýsluviðurlögum. Er það í samræmi við 7. mgr. 16. gr. reglugerðar (ESB) nr. 376/2014.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.