Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1118  —  567. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Á. Andersen
um styrki til framræslu lands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ríkissjóður á undanförnum tíu árum styrkt beint eða óbeint framræslu lands eða viðhald á framræsluskurðum sem þegar hafa verið grafnir? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

    Síðasta áratuginn hefur ríkissjóður ekki styrkt nýja framræslu lands beint eða óbeint. Mögulegt var að sækja um styrki til viðhalds framræslu frá 2006–2010. Þeir styrkir voru ekki í boði árin 2011 og 2012 vegna niðurskurðar. Með nýjum búnaðarlagasamningi árið 2013 var aftur opnað fyrir styrki en skilyrði þrengd verulega og varð þá einungis mögulegt að fá styrki til hreinsunar affallsskurða.
    Styrkirnir hafa allan tímann verið greiddir á grundvelli ákvæða búnaðarlagasamnings á milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands, sbr. búnaðarlagasamning 2006–2010, 1 búnaðarlaga­samning 2011–2012 2 og búnaðarlagasamning 2013–2017. 3
    Í núgildandi reglum um styrki til hreinsunar affallsskurða, úr viðauka II við reglugerð nr. 1221/2015, verklagsreglur um ráðstöfun framlaga til jarðræktar og hreinsunar affallsskurða, segir í 4., 5. og 7. gr.:

4. gr.

    Þá má veita framlög til hreinsunar affallsskurða. Framlög má veita til upphreinsunar á stórum affallsskurðum sem taka við vatni af stóru vatnasvæði. Skilyrði er að skurðirnir séu hreinsaðir bakka á milli og séu minnst 6 m breiðir að ofan.
    Framlag á hvern kílómetra er kr. 125.000. Greitt er út á hundruð metra og venjulegar reglur um upphækkanir gilda. Framlög má aðeins veita ef heildarlengd er a.m.k. 100 metrar.
    Á hverju ári skulu allt að kr. 10.000.000 renna til hreinsunar affallsskurða. Framlög skerðast á hvern kílómetra hlutfallslega ef fjármunir hrökkva ekki til. Ef afgangur verður skal hann ekki deilast út.

5. gr.

    Matvælastofnun annast úthlutun framlaga samkvæmt þessum reglum.

7. gr.

    Skilyrði þess að verkefni njóti framlags er að fram hafi farið úttekt. Um úttektina gilda verklagsreglur í viðauka III. […]
    Úttektir á framkvæmdum skulu berast Matvælastofnun fyrir 15. nóvember á sama ári eftir að umsókn berst og skulu styrkir greiddir fyrir árslok.

    Í viðauka III við reglugerð nr. 1221/2015 er að finna verklagsreglur um framkvæmd út­tekta.

     Greiddir styrkir til hreinsunar affallsskurða samkvæmt núgildandi reglum, eftir árum:
2015 610.000 kr.
2014 1.200.000 kr.
2013 3.975.000 kr.

    Greiddir styrkir samkvæmt eldri reglum:
Hreinsun affallskurða :
2010 706.080 kr.
2009 1.560.720 kr.
2008 3.235.500 kr.
2007 1.495.560 kr.
2006 1.113.500 kr.

Hreinsun framræsluskurða:
2010 8.974.560 kr.
2009 13.408.725 kr.
2008 10.172.316 kr.
2007 9.621.579 kr.
2006 10.519.400 kr.

Lagning pípuræsa í stað opinna skurða:
2010 196.950 kr.
2009 321.443 kr.
2008 329.925 kr.
2007 114.750 kr.
2006 285.750 kr.
    Í nýjum rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins, sem undirritaður var 19. febrúar síðastliðinn og ætlað er að leysa gildandi búnaðarlagasamning af hólmi, er ekki gert ráð fyrir neinum styrkjum til framræslu lands, til viðhalds á eldri framræslu eða til hreinsunar affallsskurða eins og gilt hefur undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að samningurinn taki gildi í ársbyrjun 2017.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=530
Neðanmálsgrein: 2
2     www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3749
Neðanmálsgrein: 3
3     www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/pdf-skjal/Bunadarlagasamningur-2017.pdf