Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1119  —  578. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um um­hverfisáhrif búvörusamninga.


     1.      Í hverju felast um­hverfisáhrif nýrra búvörusamninga?
    Samningsaðilar eru sammála um að standa fyrir verkefni um mat á gróðurauðlindum á samningstímanum. Ráðherra mun skipa faghóp sem falin verður umsjón með verkefninu. Hlutverk hans verður m.a. að draga saman rannsóknir sem fyrir liggja um efnið og beita sér fyrir frekari rannsóknum.

     2.      Stuðla búvörusamningarnir að því að loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins frá árinu 2015 verði náð og þá með hvaða hætti?
    Framleiðsla á búvöru í nálægð við neytendur mun m.a. stuðla að því að kolefnisfótsporum fækkar, enda þarf þá ekki að flytja vörur, sem hægt er að framleiða hér á landi, um langan veg. Samningarnir eru gerðir til að tryggja framleiðslu á mikilvægum vörum til framtíðar svo að ekki þurfi að flytja þær inn. Búvörusamningarnir stuðla þannig að því að loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins frá árinu 2015 verði náð. Ákvæði eru í samningunum um styrki til jarðræktar og fyrir ræktað land en að sjálfsögðu þarf samstarf fjölmargra aðila og í raun samfélagsins alls til að markmið Parísarsamkomulagsins náist.

     3.      Var beitt aðferðum vistsporsmælinga við mat á um­hverfisáhrifum og um­hverfismarkmiðum búvörusamninganna eða öðrum viðurkenndum aðferðum á því sviði og þá hvaða aðferðum?
    Ekki var beitt aðferðum vistsporamælinga við mat á um­hverfisáhrifum og um­hverfismarkmiðum búvörusamninga eða öðrum viðurkenndum aðferðum á því sviði, enda fór ekki fram mat á um­hverfisáhrifum, en eins og fram kemur í svari við 2. tölu. fyrirspurnarinnar eru ákvæði í samningunum sem ætlað er að styðja við gróðurvernd. Má nefna að í samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt er eitt af markmiðunum að efla gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og aðra þætti sem henni tengjast, þ.m.t. um­hverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu.

     4.      Hvaða gögn liggja til grundvallar markmiðum um sjálfbæra landnýtingu í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar, hvað fela þau í sér, hvernig er ætlunin að fylgja þeim eftir og hvernig verður upplýsingum um sjálfbæra framleiðslu sauðfjárafurða komið á framfæri við neytendur?
    Ekki liggja fyrir önnur gögn til grundvallar markmiðum um sjálfbæra landnýtingu en þau sem þegar er að finna hjá Landgræðslu ríkisins. Á undanförnum árum hefur Landgræðslan fengið sérstaka fjármuni úr sauðfjársamningi til að meta landbótaáætlanir og hafa eftirlit með landnýtingu þátttakenda í gæðastýringu í sauðfjárrækt á gildistíma núverandi sauðfjársamnings. Á árinu 2014 fékk Landgræðslan 5.290.000 kr. fyrir þetta verkefni og út gildistíma samningsins. Vegna sérstakra verkefna við endurskoðun á ástandsmati lands á árinu 2014, vegna nýrra landbótaáætlana skv. 4. mgr. í ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 1160/2013 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og vegna hönnunar og innleiðingar árangursmats fékk Landgræðsla ríkisins að auki eingreiðslu að fjárhæð 2.000.000 kr. árið 2014. Varðandi spurningu um hvernig áætlað sé að fylgja þeim eftir er vísað til reglugerðar nr. 1160/2013 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Ekki liggur fyrir hvernig upplýsingum um sjálfbæra framleiðslu sauðfjárafurða verður komið á framfæri við neytendur.

     5.      Hvaða þýðingu mun ákvörðun um sérstakan svæðisbundinn stuðning við framleiðslu sauðfjárafurða skv. 8. gr. samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar hafa á loftslagssjónarmið og landnýtingarsjónarmið og hvernig verður þeim markmiðum fylgt eftir?
    Ákvörðun um sérstakan svæðisbundinn stuðning við framleiðslu sauðfjárafurða skv. 8. gr. samningsins um starfsskilyrði sauðfjárræktar mun ekki hafa sérstök áhrif á loftslagssjónarmið og landnýtingarsjónarmið umfram þau sem hér hefur verið almennt lýst og svarað í fyrri töluliðum fyrirspurnarinnar, enda er þessi greiðsla fyrst og fremst hugsuð sem ákveðið álag á beingreiðslur til framleiðenda á ákveðnum landsvæðum sem háðust eru sauðfjárrækt.