Ferill 727. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1177  —  727. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (móðgun við erlenda þjóð­höfðingja).

Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.


1. gr.

    95. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Heimurinn hefur upp á síðkastið fylgst með fregnum af þeirri ákvörðun þýskra yfirvalda að heimila málaferli gegn skemmtikraftinum Jan Böhmermann. Tilefnið var að Böhmermann bakaði sér reiði stjórnvalda í Tyrklandi með því að lesa upp ljóð í þýskum sjónvarpsþætti þar sem Erdogan Tyrklandsforseti var teygður sundur og saman í háði. Ákvörðun þessi er almennt talin mikill álitshnekkir fyrir þýsku ríkisstjórnina og ótíðindi fyrir tjáningarfrelsið.
    Ákvörðun þýsku stjórnarinnar byggist á lögum sem gilda þar í landi og fela í sér refsingar við því að smána erlenda þjóð­höfðingja eða ríki. Slík ákvæði er raunar einnig að finna í íslenskum hegningarlögum og er markmið frumvarpsins að afnema þau.
    95. grein hegningarlaganna felur í sér afar hörð viðurlög við því að smána erlend ríki, þjóð­höfðingja eða þjóðartákn á borð við fána. Þá er tiltekið að óheimilt sé að ráðast gegn sendierindrekum með ofbeldi eða valda eignarspjöllum á sendiráðum eða lóðum þeirra.
    Að mati flutningsmanna felur fyrri hluti greinarinnar í sér óþarfa og óæskilega skerðingu á tjáningarfrelsi en varðandi seinni hlutann eru nú þegar önnur lög í gildi sem gera ákvæðið óþarft.
    Lagaákvæðum sem standa eiga vörð um sóma erlendra þjóð­höfðingja hefur sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar fallið dómar á grunni þeirra. Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr dóm fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot.