Ferill 595. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1178  —  595. mál.




Svar


um­hverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um aðgerðir gegn matarsóun.


     1.      Hefur innan ráðuneytisins verið brugðist við ábendingum Samkeppniseftirlitsins, sem fram koma í kafla 5.3 í skýrslu stofnunarinnar Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði, frá mars 2015, um leiðir til að draga úr matarsóun sem hlýst af einhliða skilarétti dagvöruverslana á matvörum gagnvart birgjum?
    Átak gegn matarsóun er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum þar sem það dregur úr losun gróðurhúsaloftteg­unda að minnka matarsóun. Ráðherra hefur lagt sérstaka áherslu á úrbætur til að draga úr matarsóun sem tengist kjörorðum hennar sem eru betri nýtni og góð umgengni. Síðastliðin tvö ár hefur ráðuneytið unnið markvisst að því að auka vitund fólks um afleiðingar matarsóunar. Sérstök áhersla er á málefnið fyrstu tvö ár stefnunnar sem ber heitið Saman gegn sóun. Á Degi um­hverfisins 2014 stóð ráðuneytið fyrir málþingi um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“ þar sem fjallað var um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta megi betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga megi úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem orðið hefur hjá almenningi og stjórnvöldum á þessu sviði. Til að fylgja málþinginu eftir skipaði ráðherra starfshóp um matarsóun sem skilaði tillögum til úrbóta á Degi um­hverfisins ári seinna. Aðilar í starfshópnum voru valdir með það í huga að rödd þeirra endurspeglaði sem best dreifingu á virðiskeðjunni. Starfshópurinn skilaði tillögum sem sneri að rannsóknum, fræðslu, geymslu, framleiðslu, dreifingu, stóreldhúsum og veitingahúsum. Ánægjulegt er að sjá að flest þessara verkefna hafa komist á laggirnar og ber sérstaklega að fagna framlagi frjálsra félagasamtaka, svo sem Kvenfélagasambands Íslands og Landverndar. Í því sambandi má nefna að Kvenfélagasambandið hefur í 85 ár bent á leiðir til sparnaðar og bættrar nýtingar í heimilisrekstri og hvatt framleiðendur, birgja og verslanir til að vinna sam­eigin­lega að lausnum í baráttunni gegn matarsóun. Mikilvægt er að sem flestir láti sig varða eins umfangsmikinn vanda og matarsóun er.
    Ráðuneytið fagnar skýrslu Samkeppniseftirlitsins og vonast eftir jákvæðum viðbrögðum frá birgjum og verslunum. Í skýrslunni kemur m.a. fram að lengi hafi tíðkast að dagvöruverslanir hafi skilarétt á vörum sem þær kaupa af birgjum, en í því felst að verslanir geta skilað og fengið endurgreiddar vörur sem ekki seljast fyrir síðasta söludag. Að mati eftirlitsins sé brýnt að taka til skoðunar hvort endurskoða beri núgildandi samningsákvæði um skilarétt dagvöruverslana á vörum. Samkeppniseftirlitið telur þá leið heppilegri heldur en að veita undanþágu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga frá banni við samráði sem feli í sér útfærða heimild til handa birgjum og verslunum til að finna í sameiningu lausnir sem dragi úr sóun viðkvæmra vara. Samkeppniseftirlitið útilokar þó ekki þá leið. Í lok kafla­ns hvetur Samkeppniseftirlitið birgja og verslanir til að endurskoða núverandi verklag til að koma í veg fyrir matarsóun og stuðla þannig að lækkuðu verði til neytenda. Samkvæmt ábendingum frá Samkeppniseftirlitinu hvetur ráðuneytið birgja og verslanir til að bregðast við ábendingunum.
    Við þetta má þó bæta að Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu hafa vakið athygli félagsmanna sinna á framangreindum ábendingum Samkeppniseftirlitsins og hvatt þá til að kynna sér þá möguleika sem felast í þessari yfirlýsingu eftirlitsins, til að draga úr sóun matvæla. Einnig hefur á vegum þessara samtaka verið haldinn kynningarfundur um nýja teg­und strikamerkja, sem geymt geta upplýsingar um framleiðsludag og fyrningardag vöru og hægt er að nýta í baráttunni gegn matarsóun til að veita sjálfvirkan afslátt í kassakerfi verslana.

     2.      Liggur fyrir hversu mikið af matvælum er hent vegna þessa einhliða skilaréttar?
    Um­hverfisstofnun er að fara af stað með rannsókn sem snýst um að afla upplýsinga um umfang matarsóunar til að fá heildaryfirsýn yfir hvar vandinn liggur í virðiskeðjunni eftir mismunandi atvinnugreinum. Þá hefur Um­hverfisstofnun opnað vefgátt, matarsoun.is. Unnið er að minni sóun hjá framleiðendum og verslunum með nýju kerfi strikamerkja, en að svo stöddu liggur ekki fyrir hversu miklu er hent af matvælum vegna skilaréttar verslana á matvörum til birgja og framleiðenda.

     3.      Hefur ráðherra látið framkvæma mat á því hvort lög sambærileg þeim sem nýlega voru samþykkt í Frakklandi, sem leggja bann við því að matvöruverslanir yfir ákveðinni stærð hendi mat, mundu gagnast hér á landi til að sporna gegn matarsóun? Mun ráðherra beita sér fyrir slíkri lagasetningu?
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá sendiráði Íslands í Frakklandi munu frönsk lög gegn matarsóun skylda alla í virðiskeðju matvæla frá framleiðanda til matvöruverslana til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir matarsóun. Tryggja skal að fólk eða skepnur neyti alls matar sem ekki er seldur, hann notaður til orkuframleiðslu eða jarðgerður til að nota í landbúnaði. Þá verður stórum matvöruverslunum bannað að henda óseldum mat, eyðileggja mat sem er hæfur til neyslu og þær skyldaðar til að gera samning við góðgerðafélög til að auðvelda matargjafir. Í ljósi einhliða skilaréttar verslana á matvörum til birgja er ljóst að bann við að matvöruverslanir hendi mat er ekki nægilegt heldur þyrfti það að taka til allrar virðiskeðju matvæla til að ná árangri við að sporna gegn matarsóun. Einnig þyrfti að skoða sérstaklega hver sé raunveruleg eftirspurn eftir matargjöfum frá matvöruverslunum.
    Í Danmörku er mikil vitundarvakning gagnvart matarsóun og vill ráðherra leggja áherslu á að fara sambærilega leið og er því fylgst vel með hvað hægt er að gera og því sem lagt er af mörkum til að sporna við sóun matvæla. Í ráðuneytinu er nú verið að kortleggja næstu aðgerðir gegn matarsóun og m.a. verið að kanna hvort breyting á lögum eða reglugerðum sé hentug leið til að sporna við matarsóun.