Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1226  —  704. mál.




Svar


innanríkis­ráð­herra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um flutning verk­efna til sýslumannsembætta.


     1.      Hvernig miðar fram­kvæmd aðgerða­áætlunar um flutning verk­efna til embætta sýslumanna sem gerð var samkvæmt ákvæði til b­ráðabirgða I í lögum nr. 50/2014? Telur ráð­herra að markmið áætlunarinnar hafi náðst?
    Í aðgerða­áætlun um flutning verk­efna til embætta sýslumanna, sem unnin var í samræmi við ákvæði til b­ráðabirgða III í lögum nr. 50/2014, voru tilgreind 19 verkefni sem þá var talið fýsilegt að flytja til sýslumanna. Öll komu þau af málefnasviði innanríkisráðu­neytisins og stofnana þess en önnur ráðuneyti töldu engin verkefni á málefnasviðum sínum henta til flutnings. Níu þeirra verkefna sem tilgreind voru í aðgerða­áætluninni kalla á breytingar á lögum og hefur eitt þeirra þegar verið flutt (afgreiðsla beiðna um nauðungarvistanir á sjúkrahúsum). Þá er frumvarp um flutning annars verkefnis nú til meðferðar á Alþingi (afgreiðsla gjafsóknarleyfa). Flutningur annarra verkefna sem tilgreind voru í áætluninni er til nánari skoðunar hjá ráðuneytinu þar sem m.a. er unnið að því að greina nánar fýsileika flutnings. Er það meginástæða þess að fram­kvæmd áætlunarinnar hefur tekið lengri tíma en til stóð.

     2.      Hyggst ráð­herra brydda upp á nýjum verk­efnum sem sinnt verður af sýslumannsembættum eða stuðla að því með öðrum hætti að sýslumannsembættin fái víðtækari og styrkari verkefnagrundvöll?
    Innanríkis­ráðu­neytið hefur um árabil unnið að eflingu embætta sýslumanna, m.a. með flutningi stjórnsýsluverk­efna úr ráðuneytinu til sýslumanna. Má þar sem dæmi nefna afgreiðslu umsókna um leyfi til ættleiðinga, afgreiðslu leyfisbréfa til lögmanna, afgreiðslu happdrættisleyfa og útgáfu Lögbirtingablaðsins. Hyggst ráðuneytið áfram vinna að því að efla grundvöll sýslumannsembættanna með þessum hætti í samræmi við eitt meginmarkmiða hinna nýju laga að efla stjórnsýslu embættanna og gera þau betur í stakk búin til að taka að sér aukin verkefni. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á Alþingi á næsta vetri um frekari flutning stjórnsýsluverkefna til sýslumanna, þ.m.t. þau verkefni sem tilgreind voru í aðgerða­áætluninni og sem talin eru henta embættunum. Er mikilvægt að önnur ráðuneyti komi einnig að því verki til að það markmið laganna náist að sýslumannsembættin verði miðstöðvar stjórnsýslu ríkisins í héraði.