Ferill 700. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1454  —  700. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um fundahöld.


     1.      Hversu margir hefðbundnir fundir voru haldnir í velferðarráðuneytinu árin 2014 og 2015 með starfsmönnum undirstofnana þess sem eru á landsbyggðinni?
             Að jafnaði eru haldnir 4–6 fundir með undirstofnunum á ári.

     2.      Hversu margir fjarfundir voru haldnir í ráðuneytinu umrædd ár með starfsmönnum stofnana þess sem eru úti á landi?
    Fjarfundir með heilbrigðisstofnunum voru tveir árið 2014 og fjórir árið 2015.

     3.      Hver var kostnaður stofnana ráðuneytisins vegna ferða starfsmanna þess til og frá Reykjavík vegna funda í ráðuneytinu árin 2014 og 2015?
    Óskað var eftir upplýsingum um kostnað við ferðir vegna funda í ráðuneytið frá sjö heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Fjórar svöruðu innan tilskilins frests. Samkvæmt þeim upplýsingum nemur samanlagður kostnaður rúmlega 1,1 millj. kr. árið 2014 og ríflega 900 þús. kr. árið 2015.

     4.      Hefur starfsfólk ráðuneytisins fengið þjálfun í notkun á fjarfundabúnaði, bæði hvað varðar tæknilegu hliðina og fundarstjórn?
    Haldnar hafa verið kynningar á notkun og mögleikum fjarfundabúnaðar fyrir starfsfólk ráðuneytisins. Þá var tilteknum einstaklingum á hverri skrifstofu kennd sérstaklega notkun búnaðarins. Þessir einstaklingar ásamt tölvuumsjónarmanni sjá um uppsetningu fjarfunda eða aðstoða aðra starfsmenn við að koma á fundi sé þess þörf. Leiðbeiningarit um notkun búnaðarins liggur fyrir.
    Fjarfundabúnaður ráðuneytisins getur eingöngu haft samskipti við annan fjarfundabúnað. Nú er verið að innleiða kerfi sem gerir starfsmönnum kleift að halda fjarfundi frá eigin starfsstöð og mun viðkomandi starfsmaður geta sent vefslóð um fjarfund sem haldinn er í gegnum vafra. Þátttakendur á fjarfundinum þurfa eingöngu að hafa aðgang að vafra og vefmyndavél.
    Fjölmörg námskeið hafa verið haldin fyrir starfsfólk ráðuneytisins í almennri fundarstjórn.

     5.      Telur ráðherra að unnt sé að auka skilvirkni og afköst í starfsemi ríkisins með notkun fjarfundabúnaðar og ef svo er, hvernig? Hefur ráðuneytið mótað og kynnt stefnu í þessu sambandi?
    Notkun fjarfundabúnaðar til fundahalda er um margt hagkvæmur kostur. Fundum má koma á með skemmri fyrirvara og spara þannig bæði tíma og fjármuni til lengri tíma auk þess sem samskiptaleiðir verða styttri. Til að mynda er mögulegt að deila skjölum og vinna saman í sama skjalinu í gegnum búnaðinn. Þá er notast við símafundi þegar við á. Ráðuneytið hefur ekki mótað stefnu í þessu sambandi að öðru leyti en því að nýta fjarfundabúnað þegar því verður við komið, hvort heldur innan lands eða utan. Það er hins vegar vaxandi vitund innan ráðuneytisins um þennan möguleika og starfsfólk er hvatt til að nota hann.
    Það er markmið ráðuneytisins nú að bjóða ætíð starfsfólki stofnana á landsbyggðinni upp á þann möguleika að taka þátt í fundum þess gegnum fjarfundabúnað.