Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1458  —  522. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um kennitöluflakk.


     1.      Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að vinna gegn kennitöluflakki eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum? Hvaða tillögur hafa verið settar fram í þessu sambandi, hvaða nefndir og vinnuhópar hafa verið skipaðir, hver er skilafrestur þeirra á verkefnum?
    Mikil vinna hefur farið fram undanfarin missiri á vegum ráðherra við að leita leiða til að sporna við kennitöluflakki. Erfiðlega hefur gengið að fá greinargóðar upplýsingar um umfang kennitöluflakks og ekki er með óyggjandi hætti hægt að áætla hvert tjón samfélagsins sé vegna þess.
    Ekki liggur fyrir lagaleg skilgreining á hugtakinu „kennitöluflakk“ en það er oftast notað um ákveðna misnotkun eigenda atvinnurekstrar í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar. Felst það í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum. Tjónið felst gjarnan í því að félög eru keyrð í gjaldþrot með skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsgjalda og gjalda úr Ábyrgðasjóði launa, svo og við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega. Það skal áréttað að ætla má að einkum sé talað um kennitöluflakk þegar grunur er um ólöglegt atferli.
    Mikilvægt er að gæta meðalhófs við leit að leiðum til úrbóta. Þær aðgerðir sem ráðist er í þurfa að vera vel ígrundaðar og ekki má grípa til úrræða sem t.d. hindra frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi eða hefta eða fæla erlenda fjárfesta frá því að koma með fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf. Ekki er til nein ein töfralausn til að sporna við kennitöluflakki. Frekar er um að ræða samspil margra aðgerða sem sumar kalla á lagabreytingar en aðrar á viðhorfsbreytingu í atvinnulífinu. Allir þurfa að taka höndum saman, löggjafinn með því að sníða löggjöf með þeim hætti að reglur atvinnulífsins séu skýrar og skilvirkar og með því að tryggja eftirlit með því að þeim sé fylgt. En atvinnulífið þarf ekki síður að taka þátt t.d. með því að veita þeim sem stunda kennitöluflakk ekki fyrirgreiðslu í nýjum félögum þegar augljóst er að starfsemin hefur verið flutt á milli kennitalna og skuldir skildar eftir í eldra félagi.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, sem nú er til meðferðar á Alþingi eru stigin skref til að bæta gagnsæi í viðskiptum, þ.m.t. til að sporna við kennitöluflakki og bæta skil ársreikninga. Í því sambandi er lögð til breyting á 1. gr. laganna til að tryggt sé að öll félög sem falla undir lög um ársreikninga skili ársreikningum til ársreikningaskrár hvort sem þau stunda atvinnurekstur eða ekki. Jafnframt er lagt til að styrkt verði sektarheimild ársreikningaskrár þannig að ferlið við að knýja fram skil á ársreikningum taki styttri tíma og sé einfaldara í framkvæmd en verið hefur. Enn fremur er lagt til að ferlið varðandi slit félaga verði stytt hafi ársreikningi ekki verið skilað og að heimild til að kalla eftir slitum verði færð til ársreikningaskrár frá ráðherra. Með bættum skilum á ársreikningum fæst betri yfirsýn yfir félög og starfsemi þeirra sem auðveldar upplýsingaöflun, þ.m.t. um umfang kennitöluflakks. Þá verður félögum sem ekki hafa skilað ársreikningi slitið en við slitameðferð kemur t.d. í ljós hvort eignir hafi verið færðar með óeðlilegum hætti milli félaga og ef svo er gefst tækifæri til að rifta slíkum gjörningum.
    Þá er í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur sem lagt hefur verið fram á Alþingi að finna tillögur að minni háttar breytingum sem eru liður í því að stemma stigu við kennitöluflakki í atvinnurekstri. Breytingarnar lúta að heimild til að greiða hlutafé við stofnun hlutafélags og einkahlutafélags með kröfu á hendur stofnendum, missi hæfis stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga til setu í stjórn og til að gegna starfi framkvæmdastjóra og afskráningu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra úr hlutafélagaskrá í slíkum tilvikum, sem og að skráning stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skuli standa óbreytt í hlutafélagaskrá eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú félagsins verði tekið til skipta. Með þessum breytingum, auk þeirra breytinga sem lagðar hafa verið til á lögum um ársreikninga, er stigið skref annars vegar til að stemma stigu við kennitöluflakki og hins vegar til að greina megi betur umfang vandans.
    Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vinnur sífellt að því að bæta aðgengi atvinnulífsins að efni og fræðslu um þær skyldur sem hvíla á eigendum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félaga enda mikilvægt að atvinnulífið hafi aðgang að skýrum og einföldum upplýsingum og leiðbeiningum um þær kröfur sem gerðar eru um rekstur félaga.
    Nýjasta tillagan sem ráðuneytið er með til skoðunar til að sporna við kennitöluflakki lýtur að því að skuldi einstaklingur persónulega eða félag, sem hann hefur komið að sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða prókúruhafi, opinber gjöld yfir 500.000 kr. þá sé viðkomandi óheimil aðkoma að félagi í rekstri næstu þrjú ár eftir að síðasta krafa varð til. Þannig sé háttsemin stöðvuð snemma og beinist að þeim sem valda tjóninu. Refsingar og sektir dómstóla hafa í þessu sambandi ekki verið sú forvörn sem þeim er ætlað að vera. Með tillögunni væri leitast við að tryggja að menn stundi ekki það að flakka á milli félaga og skilja eftir skuldir við hið opinbera og efla þannig heilbrigða samkeppni og stuðla að betra atvinnulífi. Það skal tekið fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um þessa framkvæmd en tillagan er ein af þeim sem til skoðunar eru.

     2.      Hefur ráðherra haft forgöngu um að setja á fót samstarfsvettvang atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis sem hefur það hlutverk að leggja til leiðir til að sporna við kennitöluflakki eins og ákveðið var á ríkisstjórnarfundi 4. september 2013? Hvenær ber hópnum að skila ríkisstjórninni tillögum?
    Í októbermánuði 2013 skipaði ráðherra vinnuhóp um kennitöluflakk. Í skipunarbréfi til vinnuhópsins kemur fram að hlutverk hans sé að greina umfang kennitöluflakks, rót vandans og gera tillögur um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri og treysta lagaramma félaga með takmarkaðri ábyrgð. Hópurinn hefur ekki formlega skilað tillögum til ráðherra en vinna hans hefur verið nýtt í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, m.a. við smíði fyrrgreindra frumvarpa sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi.