Ferill 743. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1472  —  743. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um lestarsamgöngur.

     1.      Hvernig stendur vinna við athugun á hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis á höfuðborgarsvæðinu hins vegar? Mun niðurstaðan liggja fyrir fyrir mitt ár 2016 eins og samþykkt var á Alþingi 1. júlí 2015, sbr. þingsályktun nr. 19/144?
    Unnið er að greiningu á hagkvæmni léttlestakerfis á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur hins vegar á ólíkum vettvangi. Það er mat ráðuneytisins að mikilvægt sé að sú vinna nýtist við að afla þeirra upplýsinga sem þingsályktunin lýtur að.
    Almenningssamgöngur eru liður í að uppfylla markmið samgönguáætlunar um greiðar, öruggar, hagkvæmar og vistvænar samgöngur og tryggja um leið aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.
    Rétt er að geta þess að sjálfstæð kostnaðar- og ábatagreining fyrir léttlestakerfi annars vegar og hraðlestakerfi hins vegar, eins og mælt er fyrir um í þingsályktuninni, felur í sér verulegan kostnað. Um er að ræða viðamikla úttekt þar sem miðað er við að erlendir sérfræðingar í járnbrautasamgöngum komi að málum, sem og innlendir sérfræðingar. Frummat á verkefninu leiddi í ljós að óvarlegt er að ætla að kostnaður við frumúttekt verði undir 30 millj. kr. og að ítarleg úttekt verði mun dýrari og geti auðveldlega farið yfir 100 millj. kr.
    Hvað léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu varðar þá hefur Vegagerðin verið þátttakandi í samvinnuverkefni með Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH ) um þróun samgöngukerfa á svæðinu. Í þeirri vinnu er farið yfir mögulegt hraðvagnakerfi og léttlestakerfi til viðbótar við núverandi gatnakerfi og hafa nú þegar verið skilgreind þrjú undirverkefni sem eru að fara af stað. Eitt þeirra er úttekt á þróun stofnvegakerfisins, hvernig það lítur í dag og hvernig má sjá fyrir sér að þróist til framtíðar með tilliti til aukinna almenningssamgangna. Í öðru verkefninu, sem snýr að þróun almenningssamgangna, verður skoðuð möguleg lega borgarlínu þar sem annaðhvort hraðvagnar eða léttlestir verða notuð. Meðal annars er kostnaður metinn, skoðaðar mögulegar tæknilegar útfærslur og áhrif á samfélag og umhverfi metin. Einnig er unnið að mati á fjármögnunarleiðum og mögulegri áfangaskiptingu uppbyggingar. Vegagerðin og SSH skipta með sér kostnaði. Miðað er við að verkefninu ljúki árið 2017. Þessi vinna lýtur að atriðum sem þingsályktunin tekur til og því mikilvægt að nýta hana fremur en fara samhliða í sjálfstæða greiningu. Það verður metið sérstaklega hvort og hvaða upplýsingar má draga fram úr þessari vinnu þegar á þessu ári.
    Þess ber að geta að frá árinu 2012 hefur almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins verið styrkt verulega og rennur á þessu ári tæpur milljarður króna til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að efla þjónustu Strætó við íbúa á grundvelli samnings þar um sem gildir til 10 ára. Markmið samningsins er að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, fjölga farþegum Strætó, nýta samgönguinnviði betur og fjölga valkostum fólks við að komast á milli staða. Á síðasta ári stóð SSH fyrir málþingum og vinnustofum um framtíðarfyrirkomulag almenningssamgangna á starfssvæðinu sem bæði Vegagerðin og ráðuneytið tóku þátt í.
    Einkaaðilar vinna nú að mati á lestarkerfi á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Ráðuneytið hefur fylgst með framvindu málsins og getur látið vinna sjálfstæða greiningu fáist til þess fjármagn.
    Í ráðuneytinu er nú í undirbúningi að greina nánar það regluverk sem um lestarsamgöngur gilda og stjórnvöld væru bundin af samkvæmt EES-samningnum. Um er að ræða viðamikið og flókið regluverk.

     2.      Hver hefur aðkoma sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verið að vinnunni?
    Ráðuneytið er þátttakandi í stefnumótunarferli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um almenningssamgöngur og þróun þeirra og hefur vegamálastjóri verið fulltrúi Vegagerðarinnar og ráðuneytis í umræðum um framtíð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. umræðum um borgarlínu. Ágætt samstarf hefur verið milli SSH, innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar um almenningssamgöngur, rekstur þeirra og samfélagslegan ávinning.

     3.      Verður niðurstöðunnar getið í samgönguáætlun?
    Lagt verður mat á það þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.
    Varðandi lestarsamgöngur þá hefur ráðuneytið fram til þessa ekki tekið afstöðu til farartækja sem notuð eru heldur til þeirrar þjónustu sem þau sinna, þ.e. að almenningssamgöngukerfið skili tilætluðum ávinningi um aðgengi, hreyfanleika, hagkvæmni og öryggi íbúa og dragi úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Nokkrar hugmyndir um borgarlínu hafa verið kynntar og er léttlestakerfi ein þeirra, aðrar snúa að hraðvagnakerfi (BRT). Flestar eiga það sammerkt að áhersla er á vistvænni orkugjafa, svo sem rafmagn.