Ferill 815. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1506  —  815. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Valgerði B. Eggertsdóttur frá innanríkisráðuneyti, Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneyti, Jón Inga Jónsson, Sigurjón Jónasson og Halldóru Klöru Valdimarsdóttur frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Þorstein Víglundsson og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Grönvold og Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Helgu Jónsdóttur og Elínu Björgu Jónsdóttur frá BSRB, Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara, Björn Óla Hauksson, Sigurð Ólafsson og Karl Alvarsson frá Isavia, Hrafnhildi Stefánsdóttur og Ástráð Haraldsson.
    Með frumvarpinu er lagt til bann við verkfallsaðgerðum Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að verkfallsaðgerðir félagsins verði óheimilar frá gildistöku laganna. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um skipan gerðardóms sem hafi það hlutverk að ákveða kaup og kjör félagsmanna hafi samningar milli aðila ekki náðst fyrir 24. júní nk. Í gerðardómnum skulu eiga sæti þrír dómendur sem skulu skipaðir af ráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands, Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins. Í 3. gr. frumvarpsins koma fram þau atriði sem gerðardómurinn skal hafa til hliðsjónar við ákvarðanir skv. 2. gr. um kaup og kjör félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra en gerðardómnum ber að taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði síðustu missiri.
    Í 1. málsl. 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, er kveðið á um rétt manna til að stofna félög í lögmætum tilgangi, þ.m.t. stjórnmálafélög og stéttarfélög. Ákvæðið hefur verið túlkað þannig, m.a. með hliðsjón af 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að það verndi rétt stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna, m.a. með því að semja um laun þeirra og önnur kjör. Verkfallsréttur stéttarfélaga, sem er löghelgað þvingunarúrræði stéttarfélaga, hefur verið talinn verndaður af ákvæðinu að því gættu að réttinum er hægt að setja takmarkanir með lögum, sbr. 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Er frumvarpið í öllum helstu atriðum samsvarandi og frumvarp það sem varð að lögum nr. 31/2015, um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en í dómi Hæstaréttar frá 13. ágúst 2015 í máli nr. 467/2015 taldi rétturinn lögin að öllu leyti í samræmi við ákvæði stjórnarskrár.
    Meiri hlutinn bendir á að það er grundvallarregla í íslenskum vinnurétti að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í mill. Við vissar aðstæður getur íhlutun löggjafans verið nauðsynleg til að binda enda á vinnudeilur en slík íhlutun mundi teljast takmörkun á framangreindum stjórnarskrárvörðum réttindum. Í tilviki sem því sem hér er til umfjöllunar verða slíkar takmarkanir að vera settar með lögum og helgast af nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla eða vera til verndar réttindum annarra og að því gættu að ekki sé gengið lengra með lagasetningu en nauðsyn beri til. Hafa ber í huga að á löggjafanum hvílir bæði réttur og skylda til að gæta almannahagsmuna í aðstæðum sem þessum og vega þarf takmarkanir á stjórnarskrárvörðum réttindum í samhengi við þá almannahagsmuni sem eru í húfi hverju sinni.
    Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur átt í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins frá því í október á síðasta ári. Kjaradeilu aðila var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar á þessu ári. Haldinn hefur verið fjöldi samningafunda en viðræður hafa litlu skilað og ekki fyrirsjáanlegt að samningar muni nást enda kom fram fyrir nefndinni að mikið ber á milli aðila. Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur staðið yfir í ríflega tvo mánuði eða frá 6. apríl sl. Hafa aðgerðirnar nú þegar valdið töluverðu tjóni og röskun á flugsamgöngum til og frá landinu sem og röskun á flugumsjón á íslenska flugstjórnarsvæðinu, en íslensk stjórnvöld þurfa að standa að fullu við skuldbindingar sínar um flugleiðsöguþjónustu yfir Norður- Atlantshafi sem ríkið hefur sinnt frá árinu 1956. Meiri hlutinn telur ljóst að aðgerðirnar hafa þegar valdið íslensku efnahagslífi miklu tjóni og eru til þess fallnar að valda enn meiri skaða verði þeim framhaldið líkt og rakið er í athugasemdum við frumvarpið. Það tjón einskorðast ekki við flugstarfsemi og ferðaþjónustu heldur er ljóst að afleiðingar áframhaldandi verkfallsaðgerða yrðu víðtækar í fjöldamörgum atvinnugreinum hér á landi sem reiða sig á greiðar og skilvirkar flugsamgöngur.
    Að mati meiri hlutans eru þeir heildarhagsmunir sem í húfi eru það miklir að um ríka almannahagsmuni er að ræða og nauðsynlegt að gripið verði til lagasetningar til að forða efnahagslegu tjóni sem hefur einkum áhrif á réttindi þriðju aðila sem verða fyrir áhrifum verkfallsaðgerðanna en hafa ekki aðkomu að kjaradeilunni. Þá er í frumvarpinu kveðið á um skipan gerðardóms sem hafi það verkefni að ákveða kaup og kjör náist samningar ekki fyrir 24. júní nk. Þannig er þess gætt að aðilar fái nægjanlegt svigrúm til að semja sjálfir um kaup og kjör innan hæfilegs tíma enda er það tilgangur frumvarpsins að gæta almannahagsmuna og forða efnahagslegu tjóni. Að mati meiri hlutans eru skilyrði stjórnarskrárinnar um nauðsyn lagasetningar, um almannahagsmuni og stjórnskipulegt meðalhóf uppfyllt líkt og einnig er rakið í athugasemdum við frumvarpið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. júní 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Haraldur Einarsson. Birgir Ármannsson.
Elín Hirst. Vilhjálmur Árnason.