Ferill 696. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1528  —  696. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um fundahöld.


     1.      Hversu margir hefðbundnir fundir voru haldnir í ráðuneytinu árin 2014 og 2015 með starfsmönnum undirstofnana þess sem eru á landsbyggðinni?
    Það er ekki haldið sérstaklega utan um fundi sem haldnir eru í ráðuneytinu með undirstofnunum, hvort heldur með stofnunum á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu.

     2.      Hversu margir fjarfundir voru haldnir í ráðuneytinu umrædd ár með starfsmönnum stofnana þess sem eru úti á landi?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er ekki haldið sérstaklega utan um þessi fundahöld. Það er þó nokkuð um að fundir með stofnunum utan af landi séu símafundir með einstökum starfsmönnum eða að stuðst sé við myndfjarfundarbúnað. Fjöldi slíkra funda hefur þó ekki verið skráður sérstaklega.

     3.      Hver var kostnaður stofnana ráðuneytisins vegna ferða starfsmanna þess til og frá Reykjavík vegna funda í ráðuneytinu árin 2014 og 2015?
    Fram kemur í svari stofnana á landsbyggðinni við fyrirspurn ráðuneytisins vegna þessarar spurningar að kostnaður þeirra við ferðir á fundi í ráðuneytinu sé rúmar 1,8 millj. kr. fyrir árin 2014 og 2015. Þess ber þó að geta að ekki barst svar frá öllum stofnunum, en nokkrar stofnanir telja kostnaðinn óverulegan.

     4.      Hefur starfsfólk ráðuneytisins fengið þjálfun í notkun á fjarfundabúnaði, bæði hvað varðar tæknilegu hliðina og fundarstjórn?
    Ekki hafa verið haldin sérstök námskeið vegna notkunar á fjarfundarbúnaði með starfsfólki. Nokkuð ítarlegar leiðbeiningar eru til staðar, bæði með búnaði til símafunda og með myndfjarfundarbúnaði. Í einstaka tilfellum þegar starfsfólk telur sig hafa þurft leiðbeiningar hafa samstarfsmenn eða starfsfólk Rekstrarfélagsins komið til aðstoðar.

     5.      Telur ráðherra að unnt sé að auka skilvirkni og afköst í starfsemi ríkisins með notkun fjarfundabúnaðar og ef svo er, hvernig? Hefur ráðuneytið mótað og kynnt stefnu í þessu sambandi?
    Fjarfundarbúnaður getur í mörgum tilfellum leitt til aukinnar skilvirkni og afkasta. Eins og fram kemur í svörum hér að framan er ekki haldið sérstaklega utan um slíka fundi og eru fundir stofnana ráðuneytisins af landsbyggðinni oft settir saman við önnur erindi stofnana til höfuðborgarsvæðisins. Notkun símafunda fer vaxandi og þá sérstaklega þegar þarf að ná mörgum aðilum saman og ekki eiga allir heimangengt. Ráðuneytið hefur ekki mótað sérstaka stefnu um notkun á slíkum búnaði. Hins vegar er það alltaf sameiginlegt markmið ráðuneytisins og stofnana þess að gæta ítrustu hagkvæmni og ráðdeildar og því má gera ráð fyrir að notkun á slíkum búnaði muni aukast.