Ferill 780. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1596  —  780. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um neitunarvald fastaríkja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.


     1.      Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til neitunarvalds fastaríkja í öryggisráðinu?
    Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er einhver mikilvægasta stofnun alþjóðasamfélagsins vegna þeirra valda og þeirrar ábyrgðar sem því er falin í stofnsáttmála SÞ. Neitunarvald fastaríkjanna fimm var efalítið nauðsynleg forsenda fyrir tilurð öryggisráðsins á sínum tíma en í dag er svo komið að beiting eða hótun um beitingu neitunarvaldsins stendur öryggisráðinu fyrir þrifum. Nægir þar að horfa til átakanna í Sýrlandi eða deilna Ísraels og Palestínu.
    Íslensk stjórnvöld, fyrr og nú, hafa ítrekað gagnrýnt öryggisráðið fyrir að axla ekki skyldur sínar og ábyrgð og lýst eindregnum stuðningi við tilraunir til betrumbóta á skipan og starfsháttum öryggisráðsins sem hafa raunar staðið yfir um langt skeið. Íslensk stjórnvöld hafa og ítrekað tekið undir málflutning um að fastaríkin skuli takmarka notkun sína á neitunarvaldinu. Ísland hefur m.a. skipað sér í sveit þeirra ríkja sem hafa almennt stutt við tillögur G4-ríkjanna (Brasilíu, Indlands, Japans og Þýskalands), sem snúa að fjölgun bæði fastra og kjörinna ríkja í öryggisráðinu. Ísland styður ekki neitunarvald til handa nýjum fastaríkjum í öryggisráðinu.
    Íslensk stjórnvöld munu áfram beita sér fyrir umbótum á skipan og starfsháttum öryggisráðsins, m.a. er lýtur að neitunarvaldi fastaríkja.

     2.      Styður ríkisstjórnin tillögur um að fastaríki í öryggisráðinu afsali sér neitunarvaldi ef um er að ræða alvarlega glæpi sem skilgreina má sem brot á alþjóðlegum mannúðarlögum, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu eða þjóðarmorð?
    Ríkisstjórnin styður eindregið tillögur um að fastaríkjunum beri að takmarka notkun sína á neitunarvaldinu og gerði Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, m.a. grein fyrir þessari afstöðu Íslands í ræðu sinni á allsherjarþinginu í september síðastliðnum.
    Ísland styður til að mynda siðareglur fyrir öryggisráðið (e. Code of Conduct) sem ACT- hópurinn svokallaði hefur sett fram. ACT er hópur ríkja sem hefur fylgt sér að baki einkunnarorðunum ábyrgð, samkvæmni og gagnsæi (e. Accountability, Coherence, Transparency – ACT). Samkvæmt siðareglunum mundu fastaríkin skuldbinda sig til þess að beita ekki neitunarvaldi þegar um er að ræða alvarlega glæpi sem skilgreina má sem brot á alþjóðlegum mannúðarlögum, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni eða þjóðarmorð. Þá lýsti Ísland jafnframt stuðningi við pólitíska yfirlýsingu Frakklands og Mexíkó í fyrra sem hnígur mjög í sömu átt og siðareglur ACT-ríkjanna.
    Framangreind frumkvæði miða að því að reyna ná strax fram umbótum í starfi öryggisráðsins í þágu fórnarlamba stríðsátaka þar sem útlit er fyrir að töluverð bið kunni að verða á samkomulagi um breytta skipan ráðsins. Íslensk stjórnvöld munu áfram ljá slíku frumkvæði og umbótum stuðning sinn.