Ferill 855. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1622  —  855. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Reitum fasteignafélagi hf.

Frá Kristjáni L. Möller.


     1.      Hver voru markmiðin með sölunni á eignarhlut ríkissjóðs í Reitum fasteignafélagi hf. önnur en að fá sem hagstæðast verð?
     2.      Hverjir voru ráðgjafar ríkisins við söluna og hvað fengu þeir langan frest til undirbún­ings? Er sölufyrirkomulagið í samræmi við ráðgjöfina?
     3.      Hverjir keyptu hlut ríkisins í Reitum og í hvaða hlutföllum?
     4.      Var nauðsynlegt að selja núna allan hlut ríkisins í Reitum?
     5.      Telur ráðherra að fullt verðmæti hafi fengist fyrir hlut ríkisins í Reitum í ljósi rekstrar­horfa fyrirtækisins?
     6.      Hver er afstaða ráðherra til „hollenska fyrirkomulagsins“ á sölu bréfanna? Á það fyrir­komulag við þegar ekki er gert ráð fyrir að almenningur taki þátt í útboðinu?
     7.      Telur ráðherra að stutt söluferli sem þetta, yfir helgi þegar markaðir eru lokaðir, sé hag­fellt ríkissjóði þar sem bréfin voru auglýst eftir lokun markaða 19. ágúst sl. og tilboðs­frestur rann út kl. 8:30 mánudaginn 22. ágúst sl.?
     8.      Hvers vegna fór salan fram í útboði sem er undanþegið útgáfu lýsingar í samræmi við heimild í c-lið 1. tölul. 1. mgr. 50. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007? Telur ráðherra æskilegt að almenningur eigi þess kost að bjóða í bréf sem þessi?
     9.      Hver er stefna ráðherra í því að veita almenningi kost á að eignast hlutabréf í eigu ríkis­ins og var salan á Reitum í samræmi við stefnu hans?


Skriflegt svar óskast.