Ferill 745. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1631  —  745. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Einarssyni um erlend ökutæki.

     1.      Hvaða lög og reglur gilda um erlend ökutæki sem notuð eru hérlendis?
    Að meginreglu til gilda sömu lög og reglur um erlend og innlend ökutæki sem notuð eru hér á landi, til að mynda reglur um stærð og þyngd ökutækja. Á grundvelli 66. gr. umferðar­laga, nr. 50/1987, með síðari breytingum, hefur ráðherra hins vegar sett sérreglur um erlend ökutæki, reglugerð um notkun erlendra ökutækja nr. 267/1993, með áorðnum breytingum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er heimilt að nota erlent ökutæki, þ.e. ökutæki í eigu aðila sem skráður er til heimilis erlendis og ökutæki er ekki skráð hér á landi, enda hafi tolla­yfirvöld heimilað innflutning þess samkvæmt reglum um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla.

     2.      Eru reglur mismunandi eftir tegundum ökutækja?
    Nei, ekki eru mismunandi reglur eftir tegundum ökutækja.

     3.      Eru gerðar sérstakar kröfur til erlendra ökutækja við komu til landsins?
    Ef ökutæki er flutt til landsins til tímabundinnar notkunar fer það í gegnum tollskoðun við komuna til landsins. Veitt er tímabundin akstursheimild af tollstjóra í allt að eitt ár vegna atvinnu, náms eða ferðalaga. Í slíkum tilvikum þarf ekki að greiða aðflutningsgjöld. Öku­tækið þarf jafnframt, sbr. 3. gr. reglugerðar um notkun erlendra ökutækja, að uppfylla ákvæði um gerð, búnað og skoðun sem gilda í því ríki þar sem það er skráð. Kröfurnar í viðkomandi ríki geta ekki verið vægari en kveðið er á um í viðauka 6 við Alþjóðasamning um umferð á vegum frá 19. september 1949, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 9/1983. Jafnframt skal ökutækið búið aðalljósum fyrir hægri umferð og vera í viðhlítandi ástandi. Ef vafi er talinn leika á að ökutæki uppfylli skilyrði um búnað má krefjast þess að það verði fært til skoðunar.
    Í þeim tilvikum þegar erlent ökutæki er flutt inn ótímabundið þarf það að gangast undir skráningarskoðun auk tollskoðunar. Í skráningarskoðun er gengið úr skugga um að ökutækið fullnægi kröfum í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004, með áorðnum breyt­ingum. Einnig er kannað hvort ökutækið sé í samræmi við skráningargögn, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003, með áorðnum breytingum, og er jafnan í framhaldinu skráð hér á landi.

     4.      Eru tímamörk fyrir notkun ökutækja með erlend skráningarnúmer?
    Notkun ökutækis á erlendu skráningarnúmeri er aðeins heimil þann tíma og með þeim skilyrðum sem tollyfirvöld setja. Þau geta að hámarki veitt tímabundna akstursheimild í eitt ár vegna atvinnu, náms eða ferðalaga.

     5.      Hvaða reglur gilda um notkun slíkra ökutækja í atvinnustarfsemi?
    Ferðaskrifstofum og öðrum sem hafa atvinnu af skipulagningu hópferðalaga um landið er heimilt að flytja inn tímabundið hópferðabifreið, skráða erlendis, til nota vegna ferðar til­tekins hóps ferðamanna sem búsettir eru erlendis, enda verði hún flutt úr landi á ný við brott­för viðkomandi ferðamannahóps.
    Það sama gildir einnig um bifreiðar sem skráðar eru erlendis og vinnuveitandi er með stað­festu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Bifreiðin þarf að vera starfsmanninum nauð­synleg til að sinna starfsskyldum sínum. Það er jafnframt skilyrði að notkun bifreiðarinnar hér á landi sé tímabundin og að notkun hennar hérlendis sé ekki meiri en erlendis. Notkun telst tímabundin ef hún er ekki lengri en samtals 183 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Notkun telst jafnframt meiri hér á landi en erlendis ef hún er notuð meira hér á landi en erlendis í kílómetrum talið á 12 mánaða tímabili. Tollyfirvöld fara með ákvörðunarvald um það hvaða ökutæki fá að koma til landsins. Líkt og fram kemur í svari við 3. lið fyrirspurnar­innar er heimilt að kanna hvort ökutæki uppfylli ekki þau lágmarksskilyrði sem sett eru í alþjóðasamningi um umferð á vegum sem Ísland hefur fullgilt. Líkt og með innlend ökutæki getur lögregla stöðvað erlend ökutæki og kannað hvort þau uppfylli ekki umræddar kröfur.