Ferill 765. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1650  —  765. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lindu Rósu Alfreðsdóttur og Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur frá velferðarráðuneytinu, Agnesi Guðjónsdóttur, Guðna Olgeirsson, Jónu Pálsdóttur og Björk Óttarsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Írisi Kristjánsdóttur og Ívar Má Ottason frá innanríkisráðuneytinu, Aðalheiði Steingrímsdóttur og Guðrúnu Jóhannsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Kristínu Ástgeirsdóttur frá Jafnréttisstofu, Fanneyju Gunnarsdóttur frá Jafnréttisráði, Hrafnhildi Arnkelsdóttur frá Hagstofu Íslands, Kristínu Ösp Jónsdóttur, Önnu Kristinsdóttur, Guðrúnu Sigtryggsdóttur, Fríðu Bjarneyju Jónsdóttur og Guðlaugu Sturlaugsdóttur frá Reykjavíkurborg, Nínu Helgadóttur og Ásthildi Linnet frá Rauða krossinum á Íslandi, Tinnu Isebarn, Ástu Lovísu Arnórsdóttur og Matthew Deaves frá Landssambandi æskulýðsfélaga, Kjartan Ólafsson frá Háskólanum á Akureyri, Guðmund Hálfdanarson og Gauta Kristmannsson frá Háskóla Íslands, Ástu Guðrúnu Björnsdóttur og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitar­félaga, Rannveigu Einarsdóttur og Karenu Teodórsdóttur frá Hafnarfjarðarbæ, Ingu Helga­dóttur frá Þjóðskrá Íslands, Hrefnu R. Magnúsdóttur frá Fjölmenningarsetri, Guðbjörgu Rósu Ragnarsdóttur frá Útlendingastofnun og Sigurjón Kjærnested frá innflytjendaráði. Umsagnir bárust frá Háskóla Íslands, Fjölmenningarsetri, Fljótsdalshéraði, Hagstofu Íslands, Háskól­anum á Akureyri, hugvísindasviði Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu, Kennarasambandi Íslands, Landssambandi æskulýðsfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mosfellsbæ, Rauða kross­inum á Íslandi, Reykjavíkurborg, skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 er sú fyrsta eftir að lög um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, voru samþykkt. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að ráðherra skuli leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn að fenginni umsögn annarra ráðuneyta, stofn­ana, Fjölmenningarseturs og innflytjendaráðs. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Áhersla er lögð á fimm stoðir: samfélag, fjölskyldu, menntun, vinnumarkað og flóttafólk. Með áætluninni er unnið að því að tryggja jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð einstaklings­bundnum þáttum og aðstæðum í samfélagi án aðgreiningar þannig að hver einstaklingur fái tækifæri til að njóta sín óháð uppruna og auðga samfélagið.
    Samhliða tillögu þessari er lögð fram skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda árið 2016. Í skýrslunni er frekari tölfræði rakin og stoðum rennt undir þær aðgerðir sem valdar voru í framkvæmdaáætlunina að þessu sinni.

Samfélagsstoð.
    Íslenskt samfélag hefur tekið breytingum á síðustu árum og hefur innflytjendum fjölgað umtalsvert. Þessar breytingar fela í sér nýtt samfélagsmunstur, nýjar áskoranir og tækifæri. Í samfélagsstoð framkvæmdaáætlunarinnar er lögð áhersla á að draga fram þau tækifæri sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og þekking innflytjenda nýtt til að efla íslenskt samfélag. Sérstaklega er lögð áhersla á samfélagsviðhorf, samfélagsþátttöku innflytjenda og aðgang þeirra að þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
    Í lið A.1 er fjallað um mælingar á viðhorfum. Niðurstöður þeirra mælinga verða vistaðar í félagsvísum en um er að ræða samstarfsverkefni Hagstofunnar og velferðarráðuneytisins. Nefndin tekur undir sjónarmið Hagstofunnar að skýrara sé að tilgreina hana sem samstarfs­aðila. Nefndin leggur jafnframt til nokkrar orðalagsbreytingar. Í umsögn Kennarasambands­ins kom fram að öll skólastig tækju þátt í kynningarverkefninu. Nefndin áréttar að þessi tillaga felur í sér eðlisbreytingu á aðgerðinni þar sem lagt er upp með að samfélagið í heild sé markhópurinn. Til að meta megi árangur ýmissa aðgerða í áætluninni er mikilvægt að mati nefndarinnar að öðlast þekkingu á viðhorfum og reynslu innflytjenda er varðar mikilvæg samfélagsmál. Leggur nefndin til breytingu á markmiði áætlunarinnar þess efnis. Nefndin bendir á að unnið er að rannsóknum á þessu sviði í háskólasamfélaginu og fyrir liggur niðurstaða úr rannsókn um margþætta mismunun sem unnin var af Fjölmenningarsetri í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að þetta verkefni byggist á þeim grunni sem er til staðar.
    Í lið A.5 er fjallað um málþing innflytjenda. Nefndin bendir á að hér er um að ræða málþing þar sem markmiðið er að innflytjendur séu helstu þátttakendur og skipuleggjendur. Heildarsamtök innflytjanda eru ekki til hér á landi og bent var á að veita þyrfti fjármagn og tíma til að vinna að stofnun þeirra. Nefndin vísar til þess að hægt er að sækja um styrki í gegnum þróunarsjóð innflytjendamála í því skyni, en tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi og gera samfélaginu betur kleift að koma til móts við þá.

Fjölskyldustoð.
    Í fjölskyldustoð framkvæmdaáætlunarinnar er lögð áhersla á að skýra upplýsingagjöf til innflytjenda fyrst eftir komu þeirra til landsins, varpa frekari ljósi á aðstæður þeirra á húsnæðismarkaði og vinna að bættum hag innflytjanda í húsnæðismálum. Einkum verður lögð áhersla á stuðning við þá hópa innflytjenda sem standa höllum fæti og skortir stuðnings­net hér á landi. Einnig verður unnið að því að auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Í lið B.1 er fjallað um samstarfsteymi helstu stofnana sem koma að skráningu erlendra ríkisborgara. Nefndin telur rétt að bæta Hagstofunni við sem samstarfsaðila þar sem þá er hægt að hámarka líkur á að stjórnsýslugögn nýtist í opinberri tölfræði um innflytjendur og hagi þeirra.
    Í lið B.2 er fjallað um fyrirmynd að mótttökuáætlun. Hér eru settar fram aðgerðir sem eiga að auðvelda sveitarfélögunum að setja sér móttökuáætlun og vinna markvisst að móttöku og upplýsingamiðlun til innflytjenda. Nefndin leggur til að heiti aðgerðarinnar verði móttöku­áætlun sveitarfélaga og að mælikvarðinn verði skýrari, þ.e. að minnst 15 sveitarfélög hafi formlega tekið upp móttökuáætlun í árslok 2019. Nefndin leggur jafnframt til þá breytingu að niðurstaða aðgerðarinnar verði ekki eingöngu sú að fyrirmynd að mótttökuáætlun liggi fyrir heldur einnig að unnið verði samkvæmt móttökuáætlun í þorra sveitarfélaga.
    Í lið B.6 er fjallað um þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Bent var á í umsögn Landssambands æskulýðsfélaga að niðurstaða aðgerðarinnar tæki aðeins mið af börnum en markmiðið fæli í sér að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu æskulýðs­starfi. Nefndin telur þessa ábendingu réttmæta og leggur til breytingu. Á fundi nefndarinnar kom einnig fram sú tillaga að niðurstaða aðgerðarinnar fæli í sér aukna færni í íslensku og aukna félagslega færni. Nefndin tekur undir þessa tillögu og leggur til breytingu.
    Í lið B.7 er fjallað um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi. Nefndin bendir á að Jafnréttisstofa ber lagalega skyldu, skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 10/2008, til að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega. Telur nefndin rétt að Jafnréttisstofa sé samstarfsaðili í aðgerðinni. Það er einnig mat nefndarinnar að mikilvægt sé að leggja áherslu á forvarnir þegar kemur að heimilisofbeldi og afleiðingum þess og leggur til breytingar á aðgerðinni þar að lútandi.

Menntastoð.
    Í þriðju stoð framkvæmdaáætlunarinnar er lögð áhersla á jafna stöðu og jöfn tækifæri til menntunar og að þekking og reynsla innflytjenda sé metin. Vinna á markvisst gegn brottfalli innflytjenda úr skólum með stuðningi á öllum skólastigum og efla gæði og framboð íslensku­kennslu.
    Í lið C.1 er fjallað um jöfn tækifæri til náms. Nefndin leggur til orðalagsbreytingar á markmiði aðgerðarinnar og leggur til þá breytingu að ungmenni verði einnig felld undir aðgerðarhópinn. Mælikvarði áætlunarinnar kveður á um að jöfnuður milli nemenda mælist meiri í PISA-könnuninni árið 2018 og verði þá fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja. Nefndin telur að þessi mælikvarði sé ekki nægjanlega skýr og skýrari mælikvarði á aðgerðina sé að það dragi úr mun á lesskilningi innflytjenda og innfæddra í PISA-könnuninni.
    Í lið C.2 er fjallað um virkt tvítyngi/fjöltyngi. Þar segir að allir nemendur í grunn- og framhaldsskólum skuli fá á vitnisburðarblað kunnáttu í móðurmáli metna árið 2017. Í ljósi þess að vitnisburður fylgir í kjölfar námsmats og vitnisburði er komið til skila með mismun­andi hætti, telur nefndin að við reglulegt námsmat skuli gerð grein fyrir hvort og með hvaða hætti nemandi fær kennslu í móðurmáli frekar en vitnisburðinn sem slíkan. Leggur nefndin til breytingu þar að lútandi.
    Í lið C.3 er kveðið á um aðgerðir gegn brotthvarfi úr námi. Það er mat nefndarinnar að markmið og niðurstaða aðgerðarinnar haldist ekki í hendur og leggur nefndin því til breytingar á markmiði aðgerðarinnar.

Vinnumarkaðsstoð.
    Í vinnumarkaðsstoð framkvæmdaáætlunarinnar kemur fram að leggja skuli áherslu á að innflytjendur njóti jafnra tækifæra og réttinda á við aðra á vinnumarkaði og að innflytjendum á vinnumarkaði bjóðist aukin tækifæri til endurmenntunar og starfstengds náms sem styrkja muni tengslanet þeirra.
    Í lið D.2 er fjallað um launajafnrétti á vinnumarkaði. Þar sem fram kemur í niðurstöðum aðgerðarinnar að Hagstofan eigi að framkvæma launagreiningu þykir nefndinni rétt að stofnunin verði einnig samstarfsaðili.

Flóttafólk.
    Í fimmtu stoð aðgerðaráætlunarinnar er lögð áhersla á málefni flóttamanna og sérstöðu þeirra þegar þeir koma fyrst til landsins. Sérstaklega er lögð áhersla á samræmda og bætta móttöku þeirra, virka þátttöku flóttamanna í samfélaginu, rannsóknir og bættar upplýsingar.
    Í lið E.2 er fjallað um fræðslu og ráðgjöf fyrir flóttafólk. Þau sjónarmið voru reifuð fyrir nefndinni að rétt væri að mennta- og menningarmálaráðuneytið yrði einnig samstarfsaðili í aðgerðinni. Nefndin tekur undir það og leggur til breytingu.
    Nefndin bendir á að í liðum E.3, E.4 og E.5 eru ekki tilteknar niðurstöður verkefnanna. Nefndin leggur til breytingar á þessum liðum sem fela í sér að markmið aðgerðanna endurspegli þær niðurstöður sem nefndin leggur til.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að víðtækt samráð verði haft við félagasamtök innflytjenda þegar kemur að framkvæmd þessara aðgerða og er það mat hennar að slíkt samstarf sé lykil­atriði til að tryggja að markmið framkvæmdaáætlunarinnar nái að fullu fram að ganga.
    Nefndin leggur til að þingsályktunin verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Steingrímsson og Haraldur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. september 2016.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Geir Jón Þórisson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Jóhanna María Sigmundsdóttir. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Vilhjálmur Árnason.